Slysa- og atvikaskýrslur Síða 6

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Flugslys TF-303 (Rans S6-ES Coyote II) nálægt fisflugvellinum Sléttunni á Reykjanesi

Þann 20. október 2012 fór kennari ásamt nemanda í kennsluflug á fisinu TF-303 frá fisflugvellinum Sléttunni á Reykjanesi. Eftir um þriggja mínútna flug ofreis fisið í um 700 feta hæð yfir sjávarmáli. Því næst snérist fisið á hægri vænginn og fór í spuna til jarðar. Fisið brotlenti og létust báðir mennirnir sem um borð voru.

Skipt hafði verið um eldsneytisleiðslur fissins skömmu fyrir slysið. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur líklegt að við þá framkvæmd hafi gat myndast á nýju eldsneytisleiðsluna þar sem hún gekk í gegnum eldvarnarvegg á milli stjórnklefa og hreyfils. RNSA telur að eldsneyti hafi annað hvort lekið út um gatið á eldsneytisleiðslunni eða loft komist þar inn. Það hafi hindrað eðlilegt eldsneytisstreymi til hreyfilsins og valdið gangtruflunum með þeim afleiðingum að hreyfillinn missti afl.

RNSA telur því að ekki hafi verið um eiginlega hreyfilbilun að ræða, heldur truflun á gangi hreyfils af völdum lofts og/eða eldsneytisþurrðar hreyfils vegna gats á eldsneytisleiðslu í eldsneytisdreifikerfi á milli eldsneytisgeyma og hreyfils, nánar tiltekið við eldvegg fissins.

Gögn rannsóknarinnar benda til þess að eftir að fisið ofreis hafi nefi þess verið haldið uppi og bröttu ofrisi þannig viðhaldið með háu áfallshorni. Það er mat RNSA að viðbrögð flugmannanna við ofrisi og spuna hafi ekki verið rétt.

Fjórar tillögur í öryggisátt eru lagðar til.

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Samsetning og viðhald
Bætt utanumhald þjálfunar
Kennsluflug í meiri hæð
Þjálfun neyðarviðbragða 20.10.2012
Flugsvið

Flugslys TF-154 (Zenair Stol CH 701) á Egilstaðarflugvelli

Þann 12. september 2012 var flugmaður í lendingaræfingum á flugvellinum á Egilsstöðum. Fisflugvélin ofreis í lendingu með þeim afleiðingum að stjórnfletir í stéli skemmdust þannig að flugmaður missti stjórn á fisflugvélinni og hafnaði utan flugbrautar. 

Skýrsla 12.09.2012
Flugsvið

Flugslys TF-140 (Skyranger) við Kirkjubæjarklaustur

Fisflugmaður ásamt einum farþega voru í yfirlandsflugi um Suðurland og var áætlað að lenda á túni við bæinn Ásgarð við Kirkjubæjarklaustur þar sem vélhjólaíþróttakeppni fór fram. Í lendingunni fannst fisflugmanninum hraðinn of mikill, og ákvað að hætta við. Það tókst ekki og hafnaði TF-140 í girðingu og stöðvaðist. Fisflugmaðurinn og farþeginn slösuðust ekki og komust sjálfir út úr flakinu.

Skýrsla 27.05.2012
Flugsvið

Flugslys TF-FTG (Cessna-152A) á Helluflugvelli

Þann 3. september 2011 hugðist flugmaður með einkaflugmannsréttindi snertilenda á flugvél TF-FTG (Cessna 152A) með einn farþega á flugbraut 23 á Helluflugvelli. Eftir snertilendinguna náði flugvélin ekki upp nægilegum hraða fyrir flugtakið og dró flugmaðurinn þá afl af hreyfli og bremsaði. Flugvélin rann fram af brautarenda, nefhjól grófst í mjúkan jarðveg og flugvélin steypist fram yfir sig.

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Áhrif grasbrauta á afkastagetu
Lágmarkshæð við slátt á grasbrautum
Verklag um eftirlit og slátt grasbrauta 03.09.2011
Flugsvið

Alvarlegt flugatvik TF-SBN (PZL Swidnik PW5 Smik) á Melgerðisflugvelli

Þann 11. júní 2011 fóru tveir flugmenn í sitt hvoru lagi í flug á svifflugvél TF-SBN, en þeir höfðu báðir unnið að samsetningu hennar viku áður. Í undirbúningi fyrir þriðja flug dagsins kom í ljós að vinstri vængur var skemmdur á samskeytum við skrokk og önnur festing vinstri vængjar var laus. Gleymst hafði að setja vængbolta í læsta stöðu við samsetningu svifflugvélarinnar. 

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Verklag um samsetningu
Úttekt á samsetningu 11.06.2011
Flugsvið

Flugslys TF-JPP (Cessna 172) á Garðsaukabraut við Hvolsvöll

Þann 14. maí 2011 hugðist flugmaður með atvinnuflugmannsréttindi fljúga á flugvél TF-JPP með þrjá farþega frá Garðsaukabraut við Hvolsvöll til Vestmannaeyja. Flugvélin ofreis er flugmaðurinn flaug henni upp úr jarðhrifum í mjúkbrautarflugtaki. Í kjölfarið rakst vinstri vængendi í jörðina, flugvélin snérist hálfhring, brotlenti og stöðvaðist utan flugbrautarinnar.

Skýrsla 14.05.2011
Flugsvið

Accident TF-JMB (DHC 8-100) during landing at Nuuk in Greenland

Adverse wind and turbulence conditions at BGGH led to flight crew task saturation on final approach and a breakdown of optimum cockpit resource management (CRM) resulting in a divergence from the operator’s stabilized approach policy. The divergence from the operator’s stabilized approach policy caused an unstabilized approach and a hard landing leading to an excess load of the right MLG at touchdown. According to its design, the right MLG fuse pin sheared as a result of stress. The Danish Havarikommissionen investigated the accident and issued the report. The ITSB (RNSA) nominated an ACCREP to the investigation.

Skýrsla 04.03.2011
Flugsvið

Alvarlegt flugatvik TF-FIH (Boeing 757-200PCF) á Keflavíkurflugvelli

RNSA hefur gefið út lokaskýrslu vegna alvarlegs flugatviks TF-FIH (B757-200PCF) á Keflavíkurflugvelli þann 30. janúar 2011.

Verið var að fara tæma fragt úr flugvélinni í miklum vindi þegar festingar aðalfragthurðarinnar, sem var opin, gáfu sig með þeim afleiðingum að fragthurðin skall niður. Rannsóknin leiddi í ljós að hönnun festinga fragthurðarinnar voru ófullnægjandi fyrir vindstyrkinn sem var er atvikið varð.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til þrjár tillögur í öryggisátt í skýrslunni og er þeim beint til Precision Conversions (hönnuðar fragtbreytingar flugvélarinnar), Evrópsku Flugöryggisstofnunarinnar (EASA) og Bandarísku flugmálastjórnarinnar (FAA).

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Change of door design
EASA mandate of design change to cargo door due to maximum wind operation loading
FAA mandate of design change to cargo door due to maximum wind operation loading 30.01.2011
Flugsvið

Flugslys TF-KEX (Cessna 177) í hlíðum Langholtfjalls í Árnessýslu

Flugslysið átti sér stað þegar einkaflugvél með fjóra um borð brotlenti eftir að hafa verið flogið yfir sumarbústaðarlandi í hlíðum Langholtfjalls í Árnessýslu.

Skýrsla 01.04.2010
Flugsvið

Alvarlegt flugumferðaratviks TF-BEZ (Beech 77) og TF-JMR (F-50) við Akureyrarflugvöll

Þann 30. ágúst 2009 var einkaflugmaður á flugvélinni TF-BEZ sjónflugi á leið frá Reykjavík til Akureyrar. Er flugmaðurinn nálgaðist Akureyri var hann ofar skýjum og orðin óviss um staðsetningu sína. Flugmaðurinn fékk aðstoð frá flugumferðarstjórn en fann svo gat í skýjum þar sem hann dýfði flugvélinni niður. Við það varð aðskilnaðarmissir við TF-JMR sem var í áætlunarflugi á leið til Akureyrar.

Skýrsla 30.08.2009
Flugsvið