Starfsemi flugsviðs

Flugsvið Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) annast rannsókn flugslysa, alvarlegra flugatvika og alvarlegra flugumferðaratvika í samræmi við íslensk lög og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, svo sem Alþjóða flugmálasáttmála ICAO og reglugerð Evrópusambandsins nr. 996/2010.

Flugsvið rannsakar öll flugslys og alvarleg flugatvik sem verða á borgaralega skráðum loftförum í íslenskri lögsögu íslenskum sem erlendum. Þá rannsakar flugsvið flugslys og alvarleg flugatvik á loftförum skráðum á Íslandi sem verða utan lögsögu annarra aðildarríkja.

Hvað varðar flugumferðaratvik þá rannsakar flugsvið RNSA þau alvarlegu flugumferðaratvik sem verða innan íslenska flugstjórnasvæðisins.

Flugsvið RNSA hefur rétt á þátttöku, rannsókna á flugslysum eða alvarlegum flugatvikum, þar með talið alvarlegum flugumferðaratvikum á íslensk skráðum loftförum sem verða innan annarra aðildarríkja. Sé þess óskað af ríki er stjórnar rannsókn á íslensk skráðu loftfari, þá ber RNSA einnig skylda til að aðstoða við rannsókn samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland hefur gerst aðili að í tengslum við rannsóknir flugslysa.

 

Verkferli við rannsóknir á flugslysum og alvarlegum flugatvikum

Verkferli við rannsóknir flugslysa byggir á aðferðafræði sem þróast hefur á alþjóðavísu um árabil. Alþjóða flugmálastofnunin ICAO hefur meðal annars gefið út leiðbeiningar um rannsókn flugslysa ásamt tengslaneti evrópskra flugslysarannsóknarnefnda, ENCASIA. Þá eru gildandi íslensk lög og reglugerð um rannsókn samgönguslysa og hefur RNSA með tilliti til þessa sett sér verklag um rannsókn flugslysa og alvarlegra flugatvika.

 


 

 

Alþjóðaflugmálasáttmálinn

Rannsóknir flugsviðs taka mið af verkferlum er gefnir hafa verið út í tengslum við Viðauka 13 (Annex 13) við Alþjóðaflugmálasáttmálann (ICAO), en Ísland var einn af stofnaðilum samtakanna árið 1947.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins frá október 2010

Í október 2010 tók gildi innan Evrópusambandsins, reglugerð nr. 996/2010 um rannsóknir og forvarnir flugslysa og atvika. Reglugerðin tók við af tilskipun Evrópuráðsins nr. 94/56/EC frá 21. nóvember 1994 um setningu grundvallarreglna við rannsóknir á flugslysum og alvarlegum flugatvikum í almenningsflugi. Innleiðing reglugerðarinnar á Íslandi var unnin af Innanríkisráðuneytinu og tók reglugerðin gildi í janúar 2015. Reglugerð nr. 996/2010 má sjá með því að smella á eftirfarandi hlekk:

Í hinni nýju reglugerð, nr. 996/2010, er markið sett hátt varðandi afköst og gæði rannsókna. Meginmarkmið reglugerðarinnar er þó sem fyrr, að koma í veg fyrir frekari flugslys og atvik án þess að skipta sök eða ábyrgð, að því meðtöldu að koma á fót samtökum evrópskra rannsóknarnefnda. Reglugerðinni er meðal annars ætlað að setja reglur um auðfáanlegar upplýsingar um persónur og hættulegan varning um borð flugvéla í tengslum við flugslys. Reglugerðinni er einnig ætlað að stuðlað að aukinni aðstoð til fórnarlamba flugslysa og aðstandenda þeirra.  

Þess ber að geta að ofangreind samtök hafa þegar verið stofnuð og eru nefnd ENCASIA (European Network of Civil Aviation Safety Investigation Authorities). RNSA hefur tekið þátt í starfi tengslanetsins frá upphafi og meðal annars sótt námskeið á vegum netsins og tekið þátt í jafningjaverkefni þess.