2023 Síða 8

Leita að ábendingar

Snæfellsnesvegur við Gröf

Umferð
Nr. máls: 2019-152U019
26.10.2020

Svefn og þreyta

Ökumaður sem finnur fyrir áhrifum þreytu eða syfju á að taka sér hvíld eða hætta akstri. Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni. Því er brýnt að ökumenn forðist að aka þreyttir. Margar rannsóknir hafa sýnt að þreyta skerðir aksturshæfni sem og að hætta er á að þreyttur ökumaður dotti eða jafnvel sofni undir stýri. Eins ættu allir að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.

Skýrsla

Snæfellsnesvegur við Gröf (1)

Umferð
Nr. máls: 2019-152U019
26.10.2020

Notkun öryggisbelta

Tveir farþegar í aftursæti bifreiðarinnar í þessu slysi voru sennilega ekki spenntir í öryggisbelti. Þeir köstuðust báðir út úr bifreiðinni í veltunni, slösuðust lífshættulega og annar þeirra lést af völdum áverka sem af slysinu hlutust. RNSA telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt bílbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. Vanhöld á bílbeltanotkun eru ein af helstu orsökum banaslysa í umferðinni.

Skýrsla

Snæfellsnesvegur við Gröf (2)

Umferð
Nr. máls: 2019-152U019
26.10.2020

Gaumljós fyrir beltanotkun

Í bifreiðinni var gaumljós fyrir beltanotkun ökumanns og farþega. Í öllum beltalásum er rofi sem skynjar hvort belti sé spennt eða ekki. Í farþegasæti fram í er skynjari sem nemur hvort í sætinu sé farþegi en slíkir skynjarar eru yfirleitt ekki til staðar fyrir aftursæti. Hins vegar eru ljós í mælaborði sem sýna hvaða belti í aftursæti eru spennt. Í bifreiðinni sem hér um ræðir eru ljósin lítið áberandi í mælaborðinu milli sætanna. Framleiðendur bifreiða hafa sitt hvorn háttinn á hvernig þessi búnaður er hannaður, en gaumljós getur reynst ökumanni gott hjálpartæki til þess að fylgjast með hvort farþegar séu spenntir í öryggisbelti. Hvetur nefndin ökumenn og eigendur fólksbifreiða til þess að kynna sér hvernig þessi búnaður virkar ef hann er fyrir hendi í þeim bifreiðum sem sérhver hefur til umráða.

 

 

Skýrsla

Borgarfjarðarbraut við Grjóteyri

Umferð
Nr. máls: 2019-135U016
17.09.2020

Mikilvægt að vera með öryggisbelti rétt spennt

Farþeginn sem lést var með axlarbeltið undir handarkrikanum þegar slysið varð. Afar mikilvægt er að axlarbeltið liggi yfir brjóstkassa og viðbeini því annars er hætta á að álagið frá beltinu sem myndast við árekstur lendi á kviðarholinu sem getur valdið miklum og lífshættulegum innvortis áverkum eins og  í þessu slysi.

 

Skýrsla

Borgarfjarðarbraut við Grjóteyri (1)

Umferð
Nr. máls: 2019-135U016
17.09.2020

Akstur í miklum vindi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað 11 banaslys í umferðinni frá árinu 1998 þar sem vindhviða er talin orsakaþáttur. Ökumenn geta dregið úr hættu á því að ökutæki þeirra fjúki til í hvassviðri með því að kynna sér veðuraðstæður og haga akstri eftir þeim. Veggrip skiptir miklu máli þegar vindasamt er og eitt besta ráðið til þess að varna því að missa stjórn á ökutæki í hvassviðri er að draga úr ökuhraða. Stöðugleiki ökutækja eykst þegar dregið er úr ökuhraða og auðveldara er fyrir ökumenn að bregðast við hviðum. Færð, vindhraði, hviður og vindátt á veg skipta miklu máli en einnig stærð, lögun og þyngd ökutækjanna. Létt ökutæki með háan þyngdarpunkt þola minni vindstyrk en þung ökutæki með lægri þyngdarpunkt. Á vef Vegagerðarinnar og á vefnum www.safetravel.is er að finna rauntímaupplýsingar um veður, færð og vindhraða á völdum stöðum og hvetur rannsóknarnefndin ökumenn til að kynna sér þær sem og veðurspár.

Skýrsla

Borgarfjarðarbraut við Grjóteyri (2)

Umferð
Nr. máls: 2019-135U016
17.09.2020

Ástand hjólbarða, viðnám á vegi

Hjólbarðar gegna mikilvægu hlutverki og þurfa að uppfylla kröfur, sem kveðið er á um í lögum og reglum, sem og í leiðbeiningum framleiðenda. Mikilvægt er að hjólbarðar ökutækja séu í góðu lagi, því gæði þeirra og ástand skipta miklu máli fyrir aksturseiginleika bifreiða. Kraftar myndast á snertifleti hjólbarðanna við veginn þegar hraðinn er aukinn, þegar hemlað er og þegar ökutækjum er ekið í beygjum. Þessa krafta þarf vegviðnámið að yfirvinna. Lélegir hjólbarðar geta valdið því að bifreið verður óstöðug á vegi og auknar líkur verða á að ökumaður missi stjórn á ökutækinu vegna lélegs vegviðnáms. Viðnámið minnkar eftir því sem slit hjólbarðanna er meira. Minna vegviðnám leiðir af sér lengri hemlunarvegalengd og eykur líkur á að bifreið fari í hliðarskrið. Tjara hafði safnast í raufar hjólbarða Nissan bifreiðarinnar. Mikilvægt er að halda hjólbörðum hreinum og þrífa þá ef tjara er farinn að safnast upp á þeim. Uppsöfnuð tjara á hjólbörðum minnkar veggrip.   

Tengill á skýrslu Skýrsla

Reykjanesbraut Tjarnarvellir

Umferð
Nr. máls: 2018-187U025
03.09.2020

Notkun öryggisbelta

Farþeginn, sem lést, var ekki spenntur í öryggisbelti. Nefndin telur sennilegt að hann hefði lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein helsta orsök banaslysa og annarra alvarlegra slysa í umferðinni.

Reykjanesbraut Tjarnarvellir (1)

Umferð
Nr. máls: 2018-187U025
03.09.2020

Svefn og þreyta

Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru algengar orsakir banaslysa í umferðinni. Í fimm af 15 banaslysum árið 2018 var orsök eða meðorsök rakin til svefns eða þreytu. Brýnt er að ökumenn forðist að aka þreyttir. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að þreyta skerðir aksturshæfni sem og að hætta er á að þreyttur ökumaður dotti eða jafnvel sofni undir stýri. Rannsóknarnefnd samgönguslysa brýnir fyrir ökumönnum að gæta vel að þessari hættu. Eins ættu allir að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.

Tengill á skýrslu Skýrsla

Ingjaldssandsvegur

Umferð
Nr. máls: 2019-093U009
01.06.2020

Möguleikar Tetra kerfisins og skuggasvæði

Fjarskiptasjóður stóð fyrir þjóðvegaátaki fyrir um áratug þar sem byggður var fjöldi sendastaða nærri vegum. Einnig hefur Neyðarlínan, að hluta í samstarfi við fjarskiptasjóð, byggt upp marga nýja staði. Víðast hvar á þjóðvegum, stofnvegum og tengivegum,  er því farsímasamband og hægt að hringja í 112 og á sömu stöðum er Tetra samband fyrir viðbragðsaðila.

Þó eru enn víða staðir, svokölluð skuggasvæði, sérstaklega á svæðum þar sem fáir fara um þar sem ekkert símasamband er og örðugt er vegna mikils kostnaðar og tæknilegra erfiðleika að koma á sambandi.

Tetra tæknin er þó þannig að flestar bílstöðvar eru með innbyggða gátt sem framlengt getur þjónustusvæðið. Þannig geta t.d. viðbragðsaðilar og aðrir sem nýta þessa tækni dekkað takmarkað svæði tímabundið meðan unnið er á skuggasvæðum.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur aðila sem mögulega geta nýtt sér þessa tækni til þess að kynna sér þá möguleika sem Tetra kerfið bíður upp á og halda starfsfólki þjálfuðu og upplýstu. Nefndin hvetur einnig fjarskiptafyrirtæki og fjarskiptasjóð til þess að halda áfram uppbyggingu á fjarskiptakerfi landsins og reyna eins og mögulegt er að fylla upp í göt sem finna má víða á landinu.

Þar sem slysið átti sér stað var símasamband lélegt. Ávallt er hætta á að upp geti komið aðstæður þar sem kalla þarf á aðstoð og leggur nefndin til að fyrirtæki og stofnanir hafi að lágmarki tvo starfsmenn saman við þær aðstæður.

Norðurlandsvegur Æsustaðir 23.4.2019

Umferð
Nr. máls: 2019-051U007
29.04.2020

Of hraður akstur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum. Of hraður akstur er ein af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki eigi hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa.  

Tengill á skýrslu Skýrsla