Leita að ábendingar
Notkun öryggisbelta
Örlygshafnarvegur við Látravík
Ökumaðurinn sem lést var ekki spenntur í öryggisbelti. Nefndin telur mögulegt að hann hefði lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri vegalengdir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein helsta orsök banaslysa í umferðinni.
Ástand ökutækja
Örlygshafnarvegur við Látravík
Mikilvægt er að ástand ökutækja í umferð sé gott svo ökumenn geti brugðist við óvæntum hættum og stýrt þeim örugglega um vegi landsins og komist hjá slysum. Viðgerð sem hafði farið fram á hemlabúnaði bifreiðarinnar var ófullnægjandi. Beinir nefndin því til eigenda ökutækja og þeirra sem sjá um viðhald þeirra að ökutæki sem er með ófullnægjandi hemla eða annan mikilvægan stjórnbúnað séu ekki í umferð fyrr en fullnægjandi viðgerð hefur farið fram.
Svefn og þreyta
Skötufjörður
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur áður varað við því að ökumenn haldi út á þjóðvegina eftir næturflug. Ökumaður sem finnur fyrir áhrifum þreytu eða syfju á að hætta akstri og taka sér hvíld. Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni. Því er brýnt að ökumenn forðist að aka þreyttir. Margar rannsóknir hafa sýnt að þreyta skerðir aksturshæfni sem og að hætta er á að þreyttur ökumaður dotti eða jafnvel sofni undir stýri. Eins ættu allir að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina, ættingja og annarra ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.
Virk öryggiskerfi
Stöðugleikakerfi og annar öryggisbúnaður
Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar tillögu sem birtist í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Suðurlandsvegi í Eldhrauni 23. apríl 2012 þar sem bifreiðakaupendur voru hvattir til að velja bifreiðar með stöðugleikabúnað. Allmargar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi slíks búnaðar í bifreiðum sem benda til að öryggisávinningur hans sé verulegur. Stöðugleikabúnaður vinnur þannig að þegar bifreið fer að skríða til á vegi þá grípur búnaðurinn sjálfvirkt inn í með því að hemla á því hjóli/hjólum sem geta afstýrt því að ökutækið haldi áfram að skrika til og verði stjórnlaust. Búnaðurinn vinnur án þess að ökumaðurinn þurfi að bregðast sérstaklega við. Rannsóknir benda til þess að hann minnki umtalsvert líkurnar á að ökumaðurinn missi alfarið stjórn á bifreiðinni og að banaslysum vegna útafaksturs og velta megi fækka um 30 til 64% með stöðugleikabúnaði.
Akreinavari varar ökumann við ef bifreiðin fer út fyrir akreinar eða yfir heilar línur. Búnaðurinn varar því ökumann við ef hann virðist missa athygli við aksturinn. Rannsóknir benda til þess að akreinarvarar geti fækkað alvarlegum umferðarslysum2. Þegar ökumaður er þreyttur eða ekki með fulla athygli við aksturinn getur þetta skipt miklu máli og forðað slysum. Þessi búnaður er eins og flest annað takmörkunum háður, eins og þegar snjór og krapi er á vegi. Þrátt fyrir takmarkanir á virkni þessa búnaðar við vissar aðstæður hjálpar hann ökumanni að halda athygli við aksturinn.
Viðbrögð ökumanns
Viðbrögð ökumanns þegar annað hjólið fer út fyrir bundið slitlag
Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar reglulega alvarleg umferðarslys þar sem ökumaður missir stjórn á bifreið við að sveigja inn á veg eftir að hafa ekið út í kannt þannig að hjól fóru út af slitlagi eins og raunin var í þessu slysi. Mikilvægt er að bregðast rólega við, slá af og eða hemla gætilega og sveigja hægt aftur inn á veginn sé það mögulegt. Stundum getur verið betri kostur að stýra bifreiðinni út af veginum þegar aðstæður leyfa og reyna þannig eftir fremsta megni að komast hjá því að bifreiðin velti. Hraði þegar bifreið fer út af vegi, eða byrjar að velta, getur skipt sköpum og því er mikilvægt að draga úr ökuhraða.
Umferð um gatnamót
Mikilvægt að sýna aðgæslu
Mikilvægt er að ökumenn og aðrir vegfarendur sem um gatnamót fara gæti sérstakrar aðgæslu og séu ávallt viðbúnir að bregðast við óvæntri hættu. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur ökumenn til þess að haga akstri sínum ávallt með aðgæslu í huga, stunda svokallaðan varnarakstur. Í því felst að ökumenn séu ávallt viðbúnir að bregðast við óvæntri hættu, jafnvel þegar hún er ekki sýnileg, reyni að sjá fyrir mistök annarra vegfarenda og gæti vel að ökuhraða. Því hraðar sem ekið er, því styttri tími er til viðbragðs og hætta á alvarlegum áverkum eykst.
Slys eldri ökumanna á gatna- og vegamótum
Slys eldri ökumanna á gatna- og vegamótum
Rannsóknir sýna að umferðarslys eldri ökumanna verða hlutfallslega oftar á gatna- og vegamótum[1] en slys þeirra sem yngri eru. Ástæður þess að eldri ökumenn lenda í slysum við þessar aðstæður eru raktar til ýmissa þátta. Með aldrinum dregur úr viðbragðsflýti og hraðaskynjun og verður því erfiðara að meta og bregðast við óvæntum hættum[2]. Eldri ökumenn virðast einnig þurfa að einbeita sér frekar að staðsetningu sinni á veginum en þeir sem yngri eru og kann það að draga athygli frá öðrum þáttum akstursins1. Þá skerðist sjón og hreyfigeta með aldrinum[3]. Öll þessi atriði auka hættu á mistökum við akstur um vega- og gatnamót. Rannsóknir RNSA benda eindregið til þess að til að fækka megi banaslysum eldri ökumanna í umferðinni þurfi að leggja áherslu á umfjöllun um þennan flokk slysa. Veikindi og lyfjanotkun ökumanna hafa stundum verið orsakaþáttur þessara slysa auk annarra atvika. Eldri ökumenn geta vegið upp þennan áhættuþátt með því að aka hægar og halda meiri fjarlægð milli ökutækja til þess að auka þann tíma sem þeir hafa til þess að bregðast við.
[1] Dukic og Brobert, 2012. „Older drivers visual search behaviour at intersections“ Transport Research Part F 15 (2012) 462 – 470.
[2] Salvia og félagar, 2016. „Effects of Age and Task Load on Drivers, Responce Accuracy and Reaction Time When Responding to Traffic Lights“. Frontiers in Aging Neuroscience, 2016; 8:169.
[3] SWOV, 2010 „The Elderly and Infrastructure“ Fact Sheet, SWOV, Institute for Road Safety Reasearch, Haag, Holland.
Seljaskógar Engjasel
Reiðhjólahjálmar
Í þessu slysi hlaut hjólreiðamaður banvæna höfuðáverka. Hann var ekki með hjálm. Erlendar rannsóknir sýna að mikill meirihluti banaslysa hjólreiðamanna eru af völdum höfuðáverka[1]. Reiðhjólahjálmar veita vernd gegn höfuðáverkum og hvetur Rannsóknarnefnd samgönguslysa reiðhjólamenn til að nota ávallt viðurkenndan reiðhjólahjálm við hjólreiðar. Í nýlegri viðamikilli samanburðarrannsókn á niðurstöðum fjölda rannsókna frá mörgum löndum á áhrifum hjálma á höfuðmeiðsli í reiðhjólaslysum kom í ljós, að hlutfall þeirra sem urðu fyrir höfuðmeiðslum var að meðaltali helmingi minna meðal þeirra sem voru með hjálm, en hjá þeim sem voru án hjálms[2]. Öryggisáhrif hjálma mælast meiri gagnvart alvarlegum höfuðmeiðslum. Hlutfall þeirra sem hlutu alvarleg höfuðmeiðsl, þ.m.t. banaslys, var að meðaltali 69% lægra meðal þeirra sem voru með hjálm en þeirra sem ekki voru með hjálm.
[1] Nicaj L, Mandel-Ricci J, Assefa S, Grasso K, McCarthy P, Caffarelli A, McKelvey W, Stayton C, Thorpe L, „Bicyclist Fatalities and Injuries in New York City: 1996-2005“: A Joint Report from the New York City Departments of Health and Mental Hygiene, Parks and Recreation, Transportation, and the New York City Police Department, 2006.
[2] Olivier, Creighton, 2017: „Bicycle injuries and helmet use: a systematic review and meta-analysis.“ International Journal of Epidemiology, Volume 46, Issue 1. Oxford University Press.
Seljaskógar Engjasel (1)
Útbúnaður reiðhjóla fyrir vetrarnotkun
Fyrir vetrarnotkun reiðhjóla er nauðsynlegt að gæta þess að hjólið sé í góðu lagi og vel útbúið fyrir dimmu, snjó og hálku. Yfir vetrartíma má búast við hálku víða. Við þær aðstæður geta nagladekk skipt sköpum. Góð ljós eru nauðsynleg því erfitt getur verið að greina hindranir í myrkri. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur reiðhjólamenn til þess að útbúa reiðhjól sín sérstaklega vel fyrir vetrarnotkun. Hjóla á góðum nagladekkjum, gæta sérstaklega að sýnileika með góðum ljósum og vera í sýnileikafatnaði.
Heydalsvegur Haffjarðardalsgil 4.10.2020
Akstur undir áhrifum áfengis
Undanfarin ár hefur akstur undir áhrifum áfengis verið algeng orsök banaslysa í umferðinni. Eins og alþekkt er hafa vímuefni áhrif á dómgreind ökumanna og skynjun á umhverfið. Áfengismagn í blóði þarf ekki að vera mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun er meiri, lengist viðbragðstími og hreyfistjórnun og rökvísi skerðast.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um akstur undir áhrifum áfengis. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum áfram á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki bifreið undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis.