Slysa- og atvikaskýrslur Síða 8

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Hvalfjarðargöng 5.6.2016

Þann 5. júní 2016 varð harður árekstur tveggja bifreiða í Hvalfjarðargöngunum um 700 metra fyrir innan syðri munna ganganna. Ökumaður Toyota bifreiðar á suðurleið ók yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir Subaru bifreið á norðurleið. Farþegi í framsæti Subaru bifreiðarinnar lést í slysinu. Ökumenn beggja bifreiða og farþegar í Toyota bifreiðinni slösuðust mikið.

Í skýrslunni beinir nefndin því til veghaldara að kanna með möguleika á að breikka rifflur á milli akstursátta. Jafnframt beinir nefndin því til veghaldara að leita leiða til að auka vitund ökumanna á nauðsyn þess að viðhalda nægilegu bili milli ökutækja í göngunum.

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Rifflur milli akstursátta
Bil milli ökutækja
Framúrakstur 05.06.2016
Umferðarsvið

Þingvallavegur 30.5.2016

Ökumaður bifhjóls á leið austur Þingvallaveg missti stjórn á bifhjólinu við brúna yfir Leirvogsá. Hann féll af hjólinu eftir að hafa borist á því utan í vegriðinu inn á miðja brúna. Hann hlaut banvæna fjöláverka og lést á slysstað. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til bifhjólamanna að virða settan hámarkshraða og aka ekki hraðar en reynsla þeirra leyfir og aldrei yfir hámarkshraða. Nefndin hefur nú rannsakað þrjú banaslys bifhjólamanna á Þingvallavegi og má rekja tvö þeirra til hraðaksturs.

Skýrsla 30.05.2016
Umferðarsvið

Holtavörðuheiði 9.4.2016

Ökumaður fólksbifreiðar ók norður Holtavörðuheiði seint að nóttu en með honum í bifreiðinni voru tveir farþegar, í framsæti og aftursæti. Ökumaður missti stjórn á bifreiðinni eftir vinstri beygju og ók út af veginum. Bifreiðin valt utan vegar og kastaðist farþegi í aftursæti út úr bifreiðinni. Hann notaði ekki bílbelti, hlaut banvæna fjöláverka og lést á slysstað. Við rannsókn slyssins kom í ljós að ökumaður var undir áhrifum áfengis- og vímuefna og var óhæfur til aksturs. Hann var ennfremur ökuréttindalaus. Bíltækniskoðun leiddi í ljós að spindilkúla við vinstra framhjól var brotin. Að mati bíltæknisérfræðinga hafði kúlan verið brotin í nokkurn tíma. Mögulegt er að kúlan hafi hrokkið úr sæti og bifreiðin orðið stjórnlaus við það. Hraðaútreikingar RNSA benda til þess að ökutækinu hafi verið ekið langt yfir hámarkshraða eða á 132 km/klst +/- 9 km/klst.

Skýrsla 09.04.2016
Umferðarsvið

Ólafsvíkurhöfn

Síðdegis 17. febrúar 2016 var bifreið ekið fram af hafnarbakkanum í Ólafsvík. Ökumaðurinn hafði ætlað að leggja bifreið sinni upp við hafnarkantinn, en steig líklega á inngjöf eða gaf harkalegar inn en hann ætlaði sér. Upp við hafnarkantinn hafði snjór þjappast saman og myndað nokkurs konar ramp upp á kantinn. Bifreiðin fór fram af bryggjunni og hafnaði í sjónum með þeim afleiðingum að ökumaðurinn drukknaði.

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Ólafsvíkurhöfn 17.02.2016
Umferðarsvið

Njarðarbraut Reykjanesbæ

Síðdegis 21. janúar 2016 varð harður árekstur á Njarðarbraut við gatnamótin að Tjarnarbraut í Reykjanesbæ. Ökumaður bifreiðar tók vinstri beygju í veg fyrir aðra bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Hann var ekki spenntur í öryggisbelti og lést í slysinu. Rannsóknarnefnd samgönguslysa birtir tvær tillögur í öryggisátt vegna slyssins hér í skýrslunni. Önnur varðandi yfirborðsmerkingar á Njarðarbraut og hin um skoðun ökutækja.

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Viðhald yfirborðsmerkinga
Skoðun ökutækja 21.01.2016
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur Hólá

Um miðjan dag 26. desember 2015 varð harður árekstur milli tveggja bílaleigubifreiða á einbreiðri brú yfir Hólá í Öræfum. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa sýndi annar ökumannanna af sér mikla óvarkárni þegar hann ók allt of hratt að brúnni án þess að sjá nægjanlega fram á veginn og olli árekstrinum. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar lést í slysinu. Rannsóknarnefnd samgönguslysa gerir tvær tillögur í öryggisátt varðandi einbreiðar brýr á þjóðvegum.

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Suðurlandsvegur Hólá
Suðurlandsvegur Hólá (1) 26.12.2015
Umferðarsvið

Ártúnsbrekka 21.12.2015

Snemma að morgni 21. desember 2015 var ekið aftan á hjólreiðamann á Vesturlandsvegi vestan Höfðabakka. Hjólreiðamaðurinn lést í slysinu. Í skýrslunni birtir Rannsóknarnefnd samgönguslysa þrjár tillögur í öryggisátt. Nefndin leggur til að lagt verði bann við hjólreiðum á umferðarmiklum fjölakreinavegum á höfuðborgarsvæðinu, að reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla verði tekin til endurskoðunar og brýnt verði á reglum um aukahluti í sjónsviði ökumanna bifreiða. Í skýrslunni er einnig ábending til bæði ökumanna og hjólreiðamanna um sýnileika og akstur í skammdeginu.

Skýrsla
Tillaga í öryggisátt:
Ártúnsbrekka 21.12.2015
Ártúnsbrekka 21.12.2015 (1)
Ártúnsbrekka 21.12.2015 (2) 21.12.2015
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Lækjarbotna 13.12.2015

Ökumaður Toyota Corolla bifreiðar ók austur Suðurlandsveg. Skömmu áður en hann kom að Lækjarbotnum ók hann yfir miðlínu vegarins og utan í Toyota Land Cruiser bifreið sem kom úr gagnstæðri átt, vestur Suðurlandsveg. Svo virðist sem ökumaður Toyota Corolla bifreiðarinnar hafi ekki hemlað við atvikið en haldið akstrinum áfram og rekist framan á Subaru Legacy bifreið sem var næst á eftir Toyota Land Cruisernum. Varð harður árekstur og hlaut ökumaður Toyota Corolla bifreiðarinnar banvæna áverka. Við rannsókn kom í ljós að hann hafði fengið hjartaáfall undir stýri í aðdraganda árekstranna

Skýrsla 13.12.2015
Umferðarsvið

Heimreið að Einiholti 24. október 2015

Síðdegis 24. október 2015 varð barn fyrir jeppabifreið á malarplani fyrir framan sveitabæ á Suðurlandi. Slysið bar að með þeim hætti að barnið var fyrir framan bifreiðina þegar henni var ekið af stað. Hæð vélarhlífar bifreiðarinnar varð þess valdandi að ökumaður sá barnið ekki áður en hann ók af stað.

Skýrsla 24.10.2015
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Klifanda 30.8.2015

Ökumaður og farþegar, erlendir ferðamenn, voru á leið frá Reykjavík austur að Vík í Mýrdal. Skammt vestan við brú yfir ána Klifanda missti ökumaður stjórn á bifreiðinni og fór útaf með hjól í hægri malarkant. Ökumaður brást við með því að stýra bifreiðinni skarplega til vinstri. Við það varð hægri framhjólbarði loftlaus og fór bifreiðin út af vinstra megin. Í slysinu lést 66 ára kona en hún var farþegi í hægra aftursæti. Hún notaði ekki bílbelti og kastaðist út úr bifreiðinni í slysinu. 

Skýrsla 30.08.2015
Umferðarsvið