Eldri skýrslur - RNU Skýrslur gefnar út af Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU) Síða 6

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Suðurlandsvegur við Hvammsveg

Banaslys varð snemma að morgni við árekstur bifreiða sem ekið var úr gagnstæðum áttum. Fjórum bifreiðum var ekið í lest austur Suðurlandsveg. Fremsta bifreiðin var vörubifreið með festivagn og sú næsta var sendibifreið. Toyota pallbifreið var ekið úr gagnstæðri átt vestur Suðurlandsveg. Áður en pallbifreiðin og vörubifreiðin mættust varð ökumaður vörubifreiðarinnar var við að pallbifreiðin sem á móti kom leitaði til vinstri yfir á rangann vegarhelming. Ökumaður vörubifreiðarinnar reyndi að víkja frá til hægri en þrátt fyrir það rakst pallbifreiðin á hlið festivagns vörubifreiðarinnar.

Skýrsla 11.04.2008
Umferðarsvið

Eyrarbakkavegur við Kaldaðarnesveg

Slysið varð á vegamótum Eyrarbakkavegar og Kaldaðarnesvegar. Ökumaður fólksbifreiðar ók austur Kaldaðarnesveg og hugðist beygja til vinstri norður Eyrarbakkaveg. Hann virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir vörubifreið með festivagn sem ekið var suður Eyrarbakkaveg. Ökumaður vörubifreiðarinnar reyndi að beygja yfir á vinstri akrein til að hindra að árekstur yrði en náði því ekki og rákust bifreiðarnar saman á miðjum Eyrarbakkavegi.

Skýrsla 08.04.2008
Umferðarsvið

Kringlumýrarbraut við Listabraut

Bifhjóli og fólksbifreið var ekið suður Kringlumýrarbraut á miklum hraða. Að sögn vitna voru ökumenn í kappakstri og sveigðu framhjá öðrum ökutækjum. Mikil hætta skapaðist af þessu ökulagi fyrir aðra vegfarendur þar sem töluverð umferð var á Kringlumýrarbraut og Listabraut umrætt sinn.

Skýrsla 21.03.2008
Umferðarsvið

Reykjavíkurvegur við Stakkahraun

Ökumaður fólksbifreiðar ók vestur Stakkahraun og hugðist beygja inn á Reykjavíkurveg og aka til suðurs. Ökumaðurinn, 72 ára kona sinnti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir jeppabifreið sem ekið var norður Reykjavíkurveg. Vitni sem rætt var við á vettvangi lýstu því svo að konan hefði ekið óhikað fram yfir biðskylduna í veg fyrir jeppabifreiðina. Ökumaður þeirrar bifreiðar nauðhemlaði, en gat ekki forðað árekstri. Ökumaður fólksbifreiðarinnar lést í slysinu en ökumaður jeppabifreiðarinnar hlaut minniháttar meiðsli.

Skýrsla 19.03.2008
Umferðarsvið

Vesturgata Akranesi

BMW bifreið var ekið norður Vesturgötu á Akranesi. Í bifreiðinni var auk ökumanns einn farþegi í framsæti. Dálítill vindur var þegar slysið átti sér stað og var gatan blaut. Gatan er steypt og rúmlega 8 metra breið. Víða við götuna var bifreiðum lagt við gangstéttarbrún en einnig er stutt á milli hliðargatna inn á Vesturgötu. Ökumaður BMW bifreiðarinnar tók háskalega fram úr öðrum bíl og missti þá stjórn á bifreiðinni, lenti upp á gangstétt og þaðan inn í garð og endaði ökuferðin með hörðum árekstri á húsvegg.

Skýrsla 18.02.2008
Umferðarsvið

Hrútafjarðarháls við Svertingsstaði

Karlmaður kom akandi frá bænum Svertingsstöðum á Suzuki fólksbifreið og ók hann inn á þjóðveginn til norðurs. Hann var einn í bílnum. Í sömu mund var vörubifreið lestuð tæpum 9 tonnum af heyböggum ekið norður fram hjá afleggjaranum.

Skýrsla 09.01.2008
Umferðarsvið

Vesturgata Reykjanesbæ

Lögreglunni í Reykjanesbæ var tilkynnt um að ekið hefði verið á gangandi vegafaranda á Vesturgötu við Birkiteig. Ökumaður sem slysinu olli sýndi af sér vítaverða hegðun og flúði af vettvangi. Ekki hefur tekist að sanna hver var ökumaður umrætt skipti en bifreiðin sem hann ók fannst daginn eftir. Vegfarandinn sem ekið var á var fjögurra ára drengur.

Skýrsla 30.11.2007
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur við Heiðmerkurafleggjara

Slysið varð á Suðurlandsvegi við Heiðmerkurafleggjara. Ökumaður Kia fólksbifreiðar var á leið til Reykjavíkur en hafði stöðvað á vegöxl til að aðstoða ökumann bilaðrar fólksbifreiðar sem var í samfloti með honum. Ökumaður Kia bifreiðarinnar hugðist taka U-beygju en gáði ekki að sér og beygði í veg fyrir flutningabifreið sem ekið var austur Suðurlandsveg.

Skýrsla 16.11.2007
Umferðarsvið

Þjóðvegur 1 við Ærlæk

Ökumaður fólksbifreiðar á leið frá Akureyri ók austur þjóðveginn áleiðis til Egilsstaða. Við svonefndan Ærlæk, um 30 km frá Egilsstöðum ók ökumaður útaf norðan við veginn. Leið bifreiðinnar skáhallt niður fláa vegarins sést á mynd 1. Steypt ræsi er yfir Ærlæk og hefur verið reynt að laga yfirborð þess að fláanum. Bifreiðin fór skáhallt niður fláann, og kastaðist yfir vegræsið. Undirvagn bifreiðarinnar aflagaðist mikið við lendinguna og gekk fremra hjólastell bifreiðarinnar upp og aftur í farþegarýmið við höggið. Bifreiðin staðnæmdist austanvið vegræsið og námu afturhjól við kant ræsisins.

Skýrsla 29.10.2007
Umferðarsvið

Holtavörðuheiði

Opel fólksbifreið var ekið norður Holtavörðuheiði að kvöldi til. Snjór þakti veginn og gekk á með snörpum éljum, hiti var rétt undir frostmarki og myrkur. Í bifreiðinni voru auk ökumans tveir farþegar, annar farþeginn sat í framsæti en hinn í vinstra aftursæti. Ökumaðurinn var óvanur akstri við vetraraðstæður og hafði einu sinni áður á ökuferli sínum ekið á hálum vegi. Allir í bifreiðinni notuðu öryggisbelti. Á sama tíma var Ford pallbíl ekið suður yfir heiðina. Í honum var ásamt ökumanni einn farþegi í framsæti. Ökumaður Opel bifreiðarinnar missti stjórn á bíl sínum og lenti framan á Ford bifreiðinni með þeim afleiðingum að farþegi í Opel bifreiðinni fórst.

Skýrsla 26.10.2007
Umferðarsvið