Eldri skýrslur - RNU Skýrslur gefnar út af Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU) Síða 10

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Hof í Öræfasveit

Ökumaður bifhjóls ók austur hringveginn við Hof í Öræfasveit en missti stjórn á hjólinu og ók útaf hægra megin m.v. akstursstefnu. Ökumaður kastaðist af hjólinu og fórst. Þar sem slysið varð er hringvegurinn beinn, 8 metra breiður og bundinn olíumöl. Hámarkshraði er 90 km/klst. Vindasamt var þegar slysið varð, en bjart úti, vegurinn þurr og vegsýn góð.

Skýrsla 02.07.2006
Umferðarsvið

Skagafjarðarvegur/Varmahlíð

Ökumaður fólksbifreiðar ók norður Skagafjarðarveg að vegamótum við Hringveginn sunnan við Varmahlíð. Skömmu áður en ökumaður kom að vegamótunum missti hann stjórn á bifreiðinni í vinstri beygju og ók útaf hægra megin. Samkvæmt framburði farþega gerðist þetta þegar ökumaðurinn leit af veginum og í aftursætið til farþega sem þar voru. Í stað þess að aka beint útaf í halla reyndi ökumaður að stýra bílnum upp á veg.

Skýrsla 02.07.2006
Umferðarsvið

Elliðavatnsvegur við Kaldárselsveg

Ökumaður fólksbifreiðar ók suðvestur Elliðavatnsveg í átt að vegamótum við Kaldárselsveg. Ökumaður missti stjórn á bifreiðinni í s-beygju. Fór bifreiðin útaf veginum vinstra megin m.v. akstursstefnu og utan í stóran stein sem var þar við hliðarveg. Bifreiðin kastaðist síðan yfir girðingu og endaði á hliðinni á túni.

Skýrsla 06.06.2006
Umferðarsvið

Kjósarskarðsvegur

Ökumaður bifhjóls ók norðvestur Kjósarskarðsveg. Skammt frá afleggjara að bænum Valdastöðum missti ökumaður stjórn á bifhjólinu í vinstri beygju og ók útaf. Á vettvangi voru 134 metra för eftir bifhjólið utarlega í hægri vegkanti (sjá mynd) og vegöxl þar til ökumaður féll af hjólinu í graslendi 8 metra frá veginum. Fórst maðurinn vegna áverka á hálshrygg og mænu sem hann hlaut í slysinu. Áfengis- og lyfjarannsókn leiddi í ljós að ökumaður var undir áhrifum áfengis og lyfja þegar slysið varð

Skýrsla 07.05.2006
Umferðarsvið

Hjalteyrargata við Furuvelli

Ökumaður fólksbifreiðar á leið norður Hjalteyrargötu missti stjórn á bifreiðinni og hafnaði hún á húsvegg. Farþegi í framsæti fórst í árekstrinum og ökumaður slasaðist alvarlega. Hvorugur þeirra notaði bílbelti. Hægri hlið bifreiðarinnar var mjög illa farin eftir áreksturinn og gekk langt inn í farþegarýmið.

Skýrsla 04.03.2006
Umferðarsvið

Sæbraut við Kringlumýrarbraut

Slysið varð á Sæbraut við gatnamót Kringlumýrarbrautar. Þar er Sæbraut tvær akreinar í hvora átt auk beygjuakreina að Kringlumýrarbraut. Ökumaður ók mjög hratt austur Sæbraut á hægri akrein en missti stjórn á bifreið sinni og ók útaf. Loftpúðar í ökutækinu blésu út við slysið. Ökutækið var búið bílbeltum en ökumaður notaði ekki bílbelti. Ökumaður kastaðist út úr ökutækinu, en rannsóknarnefndin telur mögulegt að ökumaður hefði lifað slysið af hefði hann notað bílbelti.

Skýrsla 01.03.2006
Umferðarsvið

Bæjarbraut í Garðabæ

Slysið varð á Bæjarbraut neðan við verslunarmiðstöðina Garðatorg. Ökumaður fólksbifreiðar ók s-vestur Bæjarbrautina en ung stúlka gekk þar yfir á gangbraut. Svo virðist sem hvorugt hafi séð til hins og ók ökumaður fólksbifreiðarinnar á stúlkuna sem hlaut alvarleg meiðsli og lést nokkrum dögum síðar á sjúkrahúsi.

Skýrsla 15.02.2006
Umferðarsvið

Hnífsdalsvegur

Ökumaður ók Hnífsdalsveg í átt að Ísafirði en missti stjórn á bifreið í beygju og ók útaf. Á veginum voru 34 metra skriðför eftir bifreiðina sem lágu frá hægri til vinstri miðað við akstursstefnu. Er ljóst að ökumaður missti skyndilega stjórn á bifreiðinni og en hún hafnaði í flæðarmáli neðan við veginn og var á hvolfi í sjónum þegar að var komið.

Skýrsla 19.01.2006
Umferðarsvið

Sæbraut

Ökumaður strætisvagns ók norður Sæbraut á hægri akrein að morgni til, en Sæbrautin er tvær akreinar í báðar áttir. Snjóað hafði um nóttina og krapi á götunni, en búið var að moka og salta. Að sögn vitna gekk umferðin hægt sökum slæmrar færðar, á um 20 til 40 km/klst hraða. Hámarkshraði á Sæbraut er 60 km/klst. Rétt sunnan gatnamótanna við Kleppsmýrarveg var strætisvagninum ekið utan í hægri hlið vörubifreiðar á vinstri akrein. Við þann árekstur sveigði strætisvagninn til hægri og fór vagninn upp á gangstétt hægra megin og þaðan aftan á aðra vörubifreið, sem var á hægri akrein. Við það hentist sú vörubifreið á jeppabifreið sem var á vinstri akrein.

Skýrsla 13.01.2006
Umferðarsvið

Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar í Reykjavík

Vörubifreið var ekið norður Kringlumýrarbraut, gegn rauðu ljósi á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Var vörubifreiðinni ekið í veg fyrir strætisvagn sem tekið hafði af stað úr kyrrstöðu á gatnamótunum vestur Laugarveg.

Skýrsla 19.08.2005
Umferðarsvið