Eldri skýrslur - RNU Skýrslur gefnar út af Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU) Síða 2

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Stikuháls

Ökumaður vörubifreiðar með festivagn ók norður Innstrandaveg á Stikuhálsi þegar sauðfé hljóp í veg fyrir bifreið hans. Ökumaðurinn snögghemlaði með þeim afleiðingum að þungur farmur festivangs bifreiðarinnar fór af stað, braut niður framgafl vagnsins, lenti svo á stýrishúsi bifreiðarinnar og braut það af festingum sínum. Að mati RNU skapaðist alvarleg hætta þar sem farmurinn var ekki festur eins og reglur kveða á um.

Skýrsla 26.10.2011
Umferðarsvið

Fagridalur

Ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á henni í mikilli hálku á leið upp Fagradal. Bifreiðin fór yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á vörubifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður fólksbifreiðarinnar lést af völdum slyssins. Um einum kílómetra frá slysstað var vegurinn hálkulaus. Þaðan hafði hálkan farið vaxandi þar til að um 500 metrum frá slysstað var orðin flughálka sem var illgreinanleg. Undir fólksbifreiðinni voru slitnir sumarhjólbarðar.

Skýrsla 12.10.2011
Umferðarsvið

Geirsgata

Slysið varð á Geirsgötu við gatnamót Tryggvagötu og Mýrargötu. Aðdragandi slyssins var sá að ökumenn tveggja BMW bifreiða óku Geirsgötu, í kappakstri, til vesturs. Missti annar ökumanna stjórn á bifreið sinni vegna reynsluleysis og of mikils hraða og hafnaði hún á grjóti og húsvegg. Farþegi í aftursæti bifreiðarinnar lést í slysinu.

Skýrsla 12.08.2011
Umferðarsvið

Mið-Selsvegur Rangárvallasýslu

Slys þetta varð á heimreiðinni að bænum Mið-Seli í Rangárvallasýslu seinni part dags í ágúst. Ökumaður fólksbifreiðar ók að heimreiðinni en stöðvaði við hlið sem þar er. Í bifreiðinni voru þrjú börn ásamt ökumanni og hugðust tvö þeirra hlaupa eftir heimreiðinni að húsi sem þau dvöldu í. Annað barnið, ung telpa, var við hlið bílsins þegar ökumaður ók af stað og varð undir honum. Að mati RNU gætti ökumaður ekki að því að telpan var í mikilli hættu vegna nálægðar sinnar við bifreiðina.

Skýrsla 03.08.2011
Umferðarsvið

Víkur á Skaga

Ökumaður ók bifhjóli út af heimreið ofan í læk við bæinn Víkur að kvöldi til. Hafnaði hann með höfuðið á steini á lækjarbakkanum. Hann var ekki með hlífðarhjálm á höfðinu og hlaut við fallið banvæna höfuðáverka. Rannsóknarnefnd umferðarslysa telur miklar líkur á því að hann hefði lifað slysið af, hefði hann verið með hlífðarhjálm. Beinir nefndin því til allra sem aka bifhjólum, bæði litlum bifhjólum og stórum, að vera með viðurkenndan hjálm og gæta að því að hann sé tryggilega festur á höfuðið við notkun.

Skýrsla 12.07.2011
Umferðarsvið

Norðurlandsvegur við Gröf

Árekstur

Skýrsla 05.07.2011
Umferðarsvið

Suðurfjarðavegur við Kambanes

Ökumaður fólksbifreiðar á leið austur Suðurfjarðaveg ók útaf veginum við Kambanes. Bifreiðin valt niður brattan fláa og kastaðist ökumaður út úr bifreiðinni. Hann notaði ekki bílbelti. Meginorsök slyssins má rekja til þess að ökumaður var ölvaður. Að mati rannsóknarnefndar umferðarslysa ber brýna nauðsyn til að unnið verði að sértækum forvörnum vegna ölvunaraksturs.

Skýrsla 10.05.2011
Umferðarsvið

Norðurlandsvegur við Jörfa

Ökumaður fólksbifreiðar ók inn á þjóðveg 1 í Víðidal í veg fyrir vöruflutningabifreið. Harður árekstur varð á milli bifreiðanna og lést ökumaður fólksbifreiðarinnar af hans völdum. Ökumaðurinn, sem lést, var 68 ára gamall. Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur rannsakað nokkur sambærileg slys þar sem eldri ökumaður virðir ekki biðskyldu og ekur í veg fyrir aðvífandi umferð. Rannsóknir RNU benda til að fækka megi banaslysum eldri ökumanna í umferðinni með því að leggja áherslu á umfjöllun um þennan flokk slysa.

Skýrsla 19.04.2011
Umferðarsvið

Akureyjarvegur

Ungur ökumaður lést er hann kastaðist út úr bifreið sinni þegar hún valt utan Akureyjarvegar. Af ummerkjum á vettvangi slyssins mátti ráða að ökumaður hafi misst bifreiðina í hliðarskrið í mjúkri hægri beygju. Bifreiðin hafi runnið út af veginum og oltið nokkrar veltur utan vegar. Ökumaður bifreiðarinnar, sem var einn á ferð, var ekki spenntur í öryggisbelti og kastaðist hann út úr bifreiðinni í veltu. Hann lést samstundis af völdum áverka sem af slysinu hlutust. Orsakir slyssins má sennilega rekja til hraðaksturs og bágborins ástands hjólbarða bifreiðarinnar.

Skýrsla 15.04.2011
Umferðarsvið

Seljabraut móts við nr. 54

Slysið varð með þeim hætti að ökumaður strætisvagns var að aka frá biðstöð strætisvagna á Seljabraut þegar eldri karlmaður kom hlaupandi að vagninum. Hann reyndi að vekja á sér athygli með því að berja í hlið vagnsins. Vagnstjórinn varð mannsins ekki var og ók af stað eftir að hafa hleypt farþegum út. Maðurinn féll í götuna og varð fótleggur hans undir afturhjólbarða strætisvagnsins. Að mati RNU sýndi vegfarandinn, sem lést, af sér óvarkárni er hann reyndi að stöðva strætisvagninn. Varar nefndin við þeirri hættu sem af hlýst þegar vegfarendur reyna að stöðva strætisvagna sem ekið hefur verið af stað.

Skýrsla 13.04.2011
Umferðarsvið