Eldri skýrslur - RNU Skýrslur gefnar út af Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU) Síða 4

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Þjóðvegur 1 norðan við Ketilsstaði

Ökumaður fólksbifreiðar ók eftir þjóðvegi 1 á suðurleið frá Egilsstöðum. Skammt norðan við bæinn Ketilsstaði liggur vegurinn um aflíðandi vinstri beygju. Á vettvangi mátti greina að ökumaður hafði ekið út fyrir malbikið í beygjunni og sáust greinileg för í vegöxlinni hægra megin. Ökumaður hefur sennilega reynt að stýra bifreiðinni upp á veginn aftur en við það misst stjórn á henni.

Skýrsla 13.03.2010
Umferðarsvið

Hafnarfjarðarvegur við Arnarnesbrú

Slysið varð á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesbrú. Ökumaður Suzuki bifreiðar sem ók suður veginn missti stjórn á ökutæki sínu og hafnaði framan á Benz leigubifreið sem ekið var norður Hafnarfjarðarveg. Þrír fórust í slysinu, báðir ökumenn bifreiðanna og farþegi í framsæti leigubifreiðarinnar. Farþegi í leigubifreiðinni og ökumaður Suzuki bifreiðarinnar notuðu bílbelti en ökumaður leigubifreiðarinnar ekki.

Skýrsla 18.12.2009
Umferðarsvið

Hlíðarhús í Jökulsárhlíð

Um hádegisbil 27. október fannst dráttarvél á hliðinni í Fögruhlíðará. Ummerki á vettvangi sýndu, að vélinni hafði verið ekið norður heimreið að bænum Hlíðarhúsum, en lent útaf veginum til hægri.

Skýrsla 27.10.2009
Umferðarsvið

Vesturlandsvegur við Mótel Venus

Seinnipart dags var jeppabifreið ekið norður Vesturlandsveg í ágætu veðri. Engin úrkoma var, vegyfirborðið var þurrt og lítill vindur. Rétt sunnan við Borgarnes var vörubifreið með tengivagn ekið fram úr bifreiðinni.

Skýrsla 21.10.2009
Umferðarsvið

Haukadalsheiði

Hópur erlendra ferðamanna var á ferð á fjórhjólum á Haukadalsvegi að degi til. Fjórhjólin voru tekin á leigu hjá fjórhjólaleigu. Voru ferðamennirnir alls 17 á 12 til 14 hjólum auk tveggja leiðsögumanna sem óku fremst og aftast. Ferðin hófst við starfsstöð leigunnar rétt við Geysi. Var ferðinni heitið upp að Sandvatni og til baka um Haukadalsveg. Þar sem slysið átti sér stað var ekið niður brekku og neðst í brekkunni er kröpp hægri beygja. Þar missti ökumaðurinn stjórn á hjólinu með þeim afleiðingum að hjólið fór útaf í beygjunni (sjá mynd) og bæði hann og farþeginn köstuðust af því.

Skýrsla 16.10.2009
Umferðarsvið

Hlíðarvegur í Jökulsárhlíð

Slysið varð á Hlíðarvegi í Jökulsárhlíð skammt frá bænum Sleðbrjóti. Ökumaður Suzuki Vitara fólksbifreiðar ók norður Hlíðarveg í átt að Hellisheiði eystri. Mjög hvasst var og fékk bíllinn á sig hviðu með þeim afleiðingum að afturendinn lyftist og færðist út úr hjólförunum, bifreiðin rásaði eftir það á veginum og valt síðan.

Skýrsla 25.09.2009
Umferðarsvið

Þingvallavegur við Brúsastaði

Ökumaður bifhjóls ók norðaustur Þingvallaveg að kvöldlagi í rökkri. Hann var á ferð með öðrum félögum sínum. Slysið varð skammt frá bænum Brúsastöðum en þar liggur vegurinn í mjúkri vinstri beygju. Bifhjólamaðurinn ók útaf áður en hann kom í beygjuna og hafnaði hjólið um 75 metra frá útafakstursstaðnum (sjá mynd 1). Við útafaksturinn féll bifhjólamaðurinn af hjólinu og hlaut banvæna höfuðáverka.

Skýrsla 17.08.2009
Umferðarsvið

Langidalur við Hólabæ

Vörubifreið, með flatvagn í eftirdragi, var ekið að kvöldi til um Langadal áleiðis til Akureyrar. Auk ökumanns var einn farþegi í bifreiðinni. Veður var gott, lítill vindur og bjart. Á flatvagni sem bifreiðin dró var ýmiskonar farmur, m.a. landbúnaðartæki og byggingarefni. Rétt áður en komið var að bænum Hólabæ, hvell sprakk hjólbarðinn hægra megin að framan og missti ökumaðurinn við það stjórn á bifreiðinni og fór hún útaf veginum til hægri.

Skýrsla 14.08.2009
Umferðarsvið

Djúpvegur í Álftafirði

Slysið varð á Djúpvegi í austanverðum Álftafirði. Ökumaður fólksbifreiðar ók veginn til norðurs en með í för voru þrír farþegar. Var bifreiðinni ekið útaf veginum vinstra megin og hafnaði hún á vinstri hlið í flæðarmálinu um 50 metra frá útafakstursstaðnum. Ummerki á vettvangi gáfu til kynna að bifreiðinni hafi verið ekið yfir rangan vegarhelming.

Skýrsla 21.07.2009
Umferðarsvið

Grindavíkurvegur

Lítilli sendibifreið var ekið suður Grindavíkurveg snemma morguns. Veður var gott, sól og logn. Jeppabifreið var ekið úr gagnstæðri átt. Skömmu áður en þær mættust sveigði jeppabifreiðin yfir á vegarhelming sendibifreiðarinnar og lentu þær saman í harðri framanákeyrslu.

Skýrsla 27.05.2009
Umferðarsvið