25-006U001T01. Mat á hálkuvörnum á Þingvallavegi við Álftavatn

25-006U001T01. Mat á hálkuvörnum á Þingvallavegi við Álftavatn

Umferð
Nr. máls: 2025-006U001
Staða máls: Opin
Farðu í skýrslu 24.10.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að endurskoða hálkuvarnir á Þingvallavegi með tilliti til vegarkaflans við Álftavatn.

Á Þingvallavegi á milli Biskupstungnabrautar og vegamóta við Lyngdalsheiðarveg eru nokkrir vegarkaflar hálkuvarðir í hálku og eða flughálku en vegir í þjónustu Vegagerðarinnar eru hálkuvarðir á varasömum stöðum eða við varasamar veðuraðstæður. Slíkir staðir eru á vegarkafla um Írafoss og Ljósafoss, í brekku ofan Kaldárhöfða, á Þingvallavegi við vegamót við Biskupstungnabraut og við vegamót við Lyngdalsheiðarveg.

Á vegarkaflanum um Álftavatn eru aðstæður í landslagi sem auka hættu á glerhálku í vetrarstillum en sá vegarkafli er ekki innan hálkuvarnarþjónustu Vegagerðarinnar. Vegurinn lækkar að vatnsyfirborði Álftavatns þar sem hann liggur næst vatninu. Aukinn raki og lækkun lofthita í stillum tengjast slíkum aðstæðum í landslagi. Því beinir nefndin þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að meta hvort sá vegarkafli ætti að tilheyra varasömum stöðum sem falla undir hálkuvarnir.

Afgreiðsla