Öryggi ferðamanna í umferðinni
Við markaðssetningu ferðamannaleiða þarf að huga að innviðum, eins og ástandi vega, að þeim stöðum sem markaðssetningin beinist að. Koma þarf upplýsingum til þeirra sem ferðast á eigin vegum um hættur á leið til áfangastaða, sérstaklega þeirra sem fáfarnir eru og þar sem leiðir eru erfiðar yfirferðar. Mikilvægt er að með slíkri markaðsvinnu á landsvísu séu unnar öflugar öryggisáætlanir[1], bæði af hendi ferðaskrifstofa og markaðsaðila, sem beinast að umferð ferðamanna, hvort sem þeir eru í skipulögðum ferðum eða á eigin vegum. Haft hefur verið eftir ferðamálastjóra að íslenska vegakerfið sé líklega hættulegasti ferðamannastaður landsins[2]. Því er rík ástæða fyrir íslenska ferðaþjónustu að huga að aðgengi og öryggi þeirra ferðamanna sem slík markaðssetning beinist að. Í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030[3] er meðal annars lögð áhersla á að fagmennska, gæði og öryggi einkenni íslenska ferðaþjónustu og hefur verið stofnaður starfshópur til þess að greina öryggismál í ferðaþjónustu, vinna að framgangi þeirra og tryggja samtal á milli aðila.
[1] https://www.ferdamalastofa.is/is/leyfi/oryggisaaetlanir#vidbragdsaaetlun
[2] https://www.visir.is/g/20242626991d/-islenska-vegakerfid-er-liklega-haettulegasti-ferdamannastadur-landsins-
[3] https://www.ferdamalastofa.is/is/troun/ferdamalastefna-og-adgerdaaetlun