Tillögur í öryggisátt Síða 11

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Öryggisáætlun við framkvæmdir

Umferð
Nr. máls: 2022-058U011
Staða máls: Opin
12.04.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Akureyrarbæjar að þegar framkvæmdir hafa áhrif á umferð gangandi og eða akandi sé fylgt eftir að unnin sé öryggisáætlun og skipaður eftirlitsmaður í samræmi við reglugerð þess efnis.

Fram kemur í reglugerð um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir nr. 492/2009 að veghaldari ber ábyrgð á veghaldi vegar og öllum þeim vegmerkingum og útbúnaði sem er til staðar í því vegakerfi sem hann hefur umsjón með og rekur. Þá segir í sömu reglugerð að áður en framkvæmdir hefjast á og við veg skuli verktaki gera ítarlega öryggisáætlun þar sem lýst er nauðsynlegum öryggisráðstöfunum vegna framkvæmdanna. Mikilvægt er að allar breytingar, jafnvel tímabundnar, sem snúa að umferð gangandi eða ökutækja séu í samræmi við gildandi umferðarlög og reglur. Þar komi meðal annars fram hvernig afmarka skuli vinnusvæði, hvernig merkingum á og við svæðið skuli háttað og hvort og hvernig skipuleggja skuli hjáleiðir sem og að koma eigi í veg fyrir að merking vega gefi villandi upplýsingar um ástand vegar og umferð um hann. Þá skal bera öryggisáætlun undir veghaldara til samþykkis og skal samþykkt eintak öryggisáætlunar vera tiltækt á vinnusvæði og hjá lögreglu í viðkomandi lögsagnarumdæmi. Í þessu tilviki var merking á yfirborði vegar röng. Einnig vantaði uppsetningu fleiri gönguþverana og varnir gangandi vegfarenda voru ófullnægjandi.

Afgreiðsla

Öryggisúttekt

Umferð
Nr. máls: 2021-112U015
Staða máls: Opin
22.06.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Reykjavíkurborgar að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna þar að úrbótum til að auka umferðaröryggi á hjóla- og göngustígnum við Sæbraut með áherslu á lýsingu.

Lýsing á slysstað uppfyllti kröfur sem giltu þegar stígurinn var hannaður 1999 en uppfyllir ekki núverandi kröfur. Birtukröfur í stöðlum hafa ekki breyst en þarfir og túlkun þeirra hefur þróast með tilkomu díóðulampa og með aukinni umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.

Nefndin leggur til að veghaldari skoði við fyrirhugaðar breytingar á veglýsingu á Sæbraut, díóðulýsingu í stað natríumlýsingar, áhrif þeirra á lýsingu á Mánastíg en tryggja þarf góða birtu og sjónlengdir miðað við umferðarhraða allra vegfarenda.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 12. maí 2023 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að tekið sé undir mikilvægi þess að stofnstígar séu vel upplýstir, og að bætt lýsing sé jákvæð fyrir notkun og öryggi stígsins. Í dag nýtur stígurinn, á þeim stað sem slysið varð, lýsingar frá Sæbraut. Þegar núverandi lýsingu verður skipt út fyrir led-/díóðulýsingu, þá mun lýsing á stígnum versna. Því er gert ráð fyrir að komið verði fyrir sérstakri stíglýsingu. Slík framkvæmd er ekki tímasett en gæti orðið samhliða fyrirhugaðri endurgerð sjóvarnargarða meðfram ströndinni.

Í nóvember 2023 var gefin út skýrsla á vegum Reykjavíkurborgar um umferðaröryggisrýni á slysstað. Helstu niðurstöður voru þær að hjólastígurinn uppfylli viðmið samkvæmt hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar. Lýsing meðfram stígnum uppfyllir hinsvegar ekki núgildandi viðmið Reykjavíkurborgar um stíglýsingu. Rýnar skýrslunnar telja að mikilvægt sé að koma upp sér stígalýsingu þar sem mikill munur var á upplifun á aðstæðum á stígnum í myrkri og birtu.

Öryggisúttekt á slysstað

Umferð
Nr. máls: 2021-011U014
Staða máls: Lokuð
14.11.2022

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna að úrbótum til að auka umferðaröryggi við gatnamótin.

Talsverð umferð allra vegfarendahópa er á slysstað vegna nálægðar við skólastofnanir og vinnustaði. Aðstæður eru þröngar fyrir ökumenn stórra ökutækja að taka þessa hægri beygju og verða þeir að huga að mörgum mikilvægum öryggisatriðum í senn.

Biðstöð á Skeiðarvogi, sem þjónar bæði grunn- og framhaldsskóla, er staðsett skammt á undan gatnamótum við Gnoðarvog og innan við 17 metra frá næstu gangbraut yfir sömu gatnamót. Rannsóknir benda til þess að umferðaróhöpp séu líklegri við biðstöðvar sem eru innan við 75 m frá gatnamótum[1], hugsanlega vegna flókinna samskipta milli ökumanna vélknúinna ökutækja og annarra vegfarenda. Rannsóknir sýna einnig að það verða fleiri umferðaróhöpp á vegum þar sem biðstöðvar eru staðsettar fyrir, frekar en eftir, gatnamót. 

Staðsetning gangbrautar á Gnoðarvogi er 4 metra frá gatnamótunum. Í leiðbeiningum um gönguþveranir kemur fram að til að auka öryggi á og við gangbrautir við gatnamót ættu þær að vera þétt upp við gatnamót (0,5-2 metra) eða meira en 6 metra frá þeim[2]. Umferðarljós á slysstað eru af eldri gerð þar sem grænt ljós fyrir umferð akandi og gangandi vegfarenda kvikna á sama tíma en á nýrri ljósum er möguleiki að láta grænt ljós kvikna fyrir gangandi lítið eitt á undan, sem er öryggisatriði.

Niðurstaða úr ljósmælingu sem framkvæmd var við gatnamótin var sú að birtan var undir viðmiðum Reykjavíkurborgar við gönguleið þvert á Gnoðarvog, þar sem slysið varð.

[1] Ross O, et al. 2021. „Bus stop design and traffic safety: An explorative analysis“. Accident Analysis and Prevention. 153 (2021)

[2] H. Bjarnason og G. L. Erlendsdóttir, Gönguþveranir, Leiðbeininingar. Reykjavík, Iceland: Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Mannvit og Efla, 2014.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 5. desember 2022 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt um að Reykjavíkurborg taki undir báðar tillögur nefndarinnar í öryggisátt. Telur skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar að skynsamlegt sé að framkvæma öryggisúttekt á gatnamótunum.  Einnig að taka saman þær stöðvar innan Reykjavíkur sem hafa svipaðar aðstæður og sú þar sem slysið átti sér stað og í kjölfar þess skoða hvort og þá hvernig bregðast skuli við á umræddum stöðum.