Tillögur í öryggisátt

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Kársnesbraut Urðarbraut 8.12.2014 (2)

Umferð
Nr. máls: 2014-015-U-015
Staða máls: Opin
21.08.2015

Tillaga í öryggisátt

Skólaakstur – ökumenn sjái um að skólabörn noti öryggisbelti.

Samkvæmt 71. gr. umferðarlaga skal hver sá sem situr í sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti nota beltið þegar bifreiðin er á ferð. Skal ökumaður sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað bifreiðar. Brýnt er að þessum reglum sé fylgt í öllum tilvikum. Öryggisbelti í bifreiðinni sem hér er fjallað um þarf að stilla sérstaklega fyrir hvern farþega. Ef vel á að vera þyrfti að ganga á hvert barn og athuga hvort beltið er spennt og hvort það er rétt stillt. Um skólaakstur er í gildi reglugerð um merki á skólabifreiðum nr. 279/1998 með áorðnum breytingum og reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Ekki er gerð krafa um fylgdarmann með ungum börnum í þessum reglum. Í 3. gr. fyrrnefndrar reglu er sveitastjórnum gert að setja sér reglur um fyrirkomulag skólaaksturs. Kópvogsbær upplýsti Rannsóknarnefnd samgönguslysa þann 17. mars s.l. um að reglur hefðu ekki verið settar í bænum um skólaakstur, en unnið sé að úrbótum þar á. Leggur nefndin til við Innanríkisráðuneytið og Menntamálaráðuneytið að reglur um skólaakstur verði teknar til endurskoðunar.

Afgreiðsla

Í bréfi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsett 9. nóvember 2015 kemur fram að í samráði við Innanríkisráðuneytið hefur verið boðað til endurskoðunar á reglum um skólaakstur. Að lokinni þeirri vinnu verði RNSA upplýst um viðbrögð vegna málsins.

Hellisheiði 29.12.2014

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Opin
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Nálægðarakstur Samkvæmt gögnum umferðargreinisins sem staðsettur er rétt við slysstað, óku 2130 ökutæki yfir heiðina þennan dag milli klukkan 10 og 19. Voru 104 ökutæki innan við sekúndu frá næstu bifreið fyrir framan, eða um 5 % ökutækja. Þegar öll ökutæki voru talin þar sem bil á milli bifreiðavar minna en 3 sekúndur reyndist það eiga við um þriðjung allra ökutækja. Gott er að hafa í huga að viðbragðstími ökumanns í þjóðvegarakstri, þ.e. sá tími sem liður frá því að hætta skapast þar til ökumaður hemlar og/eða beygir frá, er 1 til 2,5 sekúndur. Ökutæki á hraðanum 90 km/klst. fer 25 metra á sekúndu þannig að ökutæki á þeim hraða ekur 25 til 63 metra frá því hætta skapast þar til ökumaður byrjar að bregðast við. Af þessum sökum er mikilvægt að viðhalda góðu bili á milli ökutækja svo hægt sé að bregðast af öryggi við óvæntum hættum. Í ökukennslu er svokölluð þriggja sekúndna regla kennd, þar sem bent er á að hafa a.m.k. þriggja sekúndna bil á milli bíla og lengra ef færð er ekki góð. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að koma þessum skilaboðum á framfæri til ökumanna.

Afgreiðsla

Hellisheiði 29.12.2014 (2)

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Opin
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Yfirborðsmerkingar og viðhald þeirra. Rannsókn slyssins leiddi í ljós að ökumenn sem þarna voru á ferð áttu í erfiðleikum með að átta sig á miðlínu vegarins. Bæði var skafrenningur og snjór á veginum ásamt því að málningin á miðlínu vegarins var orðin máð. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, var miðlínan síðast máluð fyrir slysið í júní 2013, eða um ½ ári áður. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við veghaldara að skoða með hvaða hætti hægt sé að minnka líkur á að ökumenn lendi í þeim aðstæðum að eiga í erfiðleikum með að greina miðlínu vegar.

Afgreiðsla

Í svari veghaldara kemur fram að á umræddum stað séu yfirborðsmerkingar endurnýjaðar á hverju ári. Þær verði fyrir mikilli áraun vegna m.a. umferðar og snjómoksturs en miðað við nútímatækni sé ekki mögulegt að endurnýja þær að vetrarlagi. Veghaldari hafi á undanförnum árum látið fræsa rifflur milli akstursátta á allmörgum stöðum og stefnt sé að slíkri útfærslu á fleiri stöðum eftir því sem aðstæður leyfa.

Vesturlandsvegur sunnan Bifrastar 23.8.2013

Umferð
Nr. máls: 2013-U016
Staða máls: Opin
16.03.2015

Tillaga í öryggisátt

Breytingar á bifreiðum fyrir hreyfihamlaða. Heimilt er að aðlaga bifreiðar að þörfum hreyfihamlaða. Þegar bifreið hefur verið breytt er skylt að fara með hana í breytingarskoðun hjá faggildri skoðunarstofu þar sem breytingin er yfirfarin og tilkynnt til Samgöngustofu. Ekki er gerð krafa um að notendur fari í þjálfun í notkun á búnaðinum. Ökumaðurinn sem lést í þessu slysi notaði ekki öryggisbelti sökum þess að hefðbundin búnaður í bifreiðinni passaði ekki fyrir hann. Í reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum nr. 348/2007 með áorðnum breytingum eru tilgreindar nokkrar undanþágur frá þeirri reglu að öllum sé skylt að spenna öryggisbelti í bifreiðum sé það til staðar. Heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður geta verið þess valdandi að einstaklingur getur illa nýtt þennan mikilvæga öryggisbúnað og þarf þá læknisvottorð því til staðfestingar. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að í sumum þessara tilfella, er hægt að aðlaga búnaðinn að þörfum einstaklingsins. Það er mikilvægt að áður en ákvörðun er tekin um að sleppa því að spenna beltið sé þessi möguleiki skoðaður. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu og Landlæknis að yfirfara þær reglur sem í gildi eru bæði um undanþágu um notkun öryggisbelta sem og reglur um breytingar á bifreiðum fyrir hreyfihamlaða.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Landlæknis kemur fram að embættið telji ekki ástæðu til að gera breytingar á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum nr. 348/2007.

Kársnesbraut Urðarbraut 8.12.2014

Umferð
Nr. máls: 2014-015-U-015
Staða máls: Opin
21.08.2015

Tillaga í öryggisátt

Í 11. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 með áorðnum breytingum, er fjallað um neyðardyr hópbifreiða. Um þær gildir m.a. að ef hægt er að hafa neyðardyr læstar utan frá skal alltaf vera auðvelt að opna þær innan frá. Enn fremur að ef neyðardyr sjást ekki auðveldlega úr sæti ökumanns skuli vera búnaður sem varar ökumann við ef dyrnar eru ekki tryggilega lokaðar. Viðvörunarbúnaðurinn skal stjórnast af læsingunni sjálfri en ekki af hreyfingu hurðarinnar. Í skoðunarhandbók ökutækja er ekki að finna dæmingu á þetta atriði. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við Samgöngustofu að bæta inn í skoðunarhandbók ökutækja dæmingu á ófullnægjandi útbúnaði neyðardyra hópbifreiða. Neyðarútgangur er ætlaður til að rýma ökutæki ef aðaldyr nýtast ekki sem slíkar eða rýming um þær verður ekki nógu hröð. Neyðarútgangur getur verið neyðardyr, neyðargluggi og neyðarlúga á þaki. Útgönguleiðum skal þannig fyrir komið að þær séu því sem næst jafnmargar á báðum hliðum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur eigendur hópbifreiða til að gæta að því sérstaklega hvort neyðardyrabúnaður bifreiða þeirra sé fullnægjandi.

Afgreiðsla

Hafnarvegur við Stekkakeldu (2)

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
Staða máls: Opin
16.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Meðferð slasaðra eftir háorkuáverka Farþeginn í Toyota sendibifreiðinni var tekinn til skoðunar strax eftir slysið á heilsugæslu og virtist hann ekki mikið slasaður. Fylgst var með honum í nokkurn tíma og fékk hann aðhlynningu. Hann fékk síðan að fara til síns heima en leitaði aftur á heilsugæslu morguninn eftir mikið kvalinn. Við nánari skoðun á sjúkrahúsi kom í ljós að hann hafði hlotið alvarlega áverka sem ekki höfðu verið greindir deginum áður. Áreksturinn fellur samkvæmt skilgreiningu Landlæknis undir háorkuáverka. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa ætti ávalt að flytja slasaða sem falla undir þá skilgreiningu á sjúkrahús þar sem góð greiningar- og meðferðaraðstaða er fyrir hendi til að meðhöndla áverka sem af slíkum slysum geta hlotist. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Landlæknis að þessi vinnuregla sé viðhöfð.

Afgreiðsla

Útnesvegur við Hellissand

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
Staða máls: Opin
01.09.2016

Tillaga í öryggisátt

Hámarkshraðaskilti

Í 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum er kveðið á um að ökuhraði megi ekki vera meiri en 50 km/klst í þéttbýli nema annað sé tekið fram. Ekkert hámarkshraðaskilti er við þéttbýlisskiltið við þjóðveg 574 við eystri mörk Hellissands. Samkvæmt reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995 með síðari breytingum, ber að nota þéttbýlisskilti við akstursleiðir inn á svæði þar sem ákvæði umferðarlaganna um þéttbýli gilda. Því gildir 50 km/klst. hámarkshraði þar sem slysið varð þó svo að ekkert hámarkshraðaskilti gefi það til kynna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa gefur þetta slys tilefni til að yfirfara hraðamerkingar við þéttbýlismörk og samræma því finna má fleiri staði sambærilega þessum á þjóðvegakerfinu.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þessari tillögu til Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að táknmyndin á þéttbýlisskiltinu D12.11 sé svipuð og finna má í nokkrum Evrópulöndum, en að auki hefur Vegagerðin sett upp upplýsingamerkið D20.11, hámarkshraðaupplýsingar. Á því skilti er tafla með hámarkhraðaupplýsingum, m.a. hver hámarkshraðinn er í þéttbýli. Vegagerðin telur mikilvægt að ferðamenn séu vel upplýstir um hvaða reglur gilda um hámarkshraða hér á landi og mun benda þeim aðilum, sem hafa umsjón með fræðsluefni sem ferðamönnum er afhent á bílaleigum, á þetta atriði. Vegagerðin mun einnig taka til skoðunar hvort fjölga þurfi upplýsingamerkjum af gerðinni D20.11.

Brú yfir Vatnsdalsá

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Kennsla til meiraprófs

Í gildi eru námskrár bæði fyrir vörubifreiðaréttindi og endurmenntun bílstjóra. Þar er farið yfir þau atriði sem skylt er að gera góð skil við kennslu til aukinna ökuréttinda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að mikilvægt er að ökumenn vörubifreiða sem og þeir sem þá hlaða, hafi þekkingu til að meta heildarþyngd vagnlestar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að yfirfara námskrár fyrir vörubifreiðaréttindi sem og fyrir endurmenntun bílstjóra með þetta atriði til hliðsjónar.

 

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Burðarþol brúa og útboðsgögn

Við rannsókn málsins kom m.a. í ljós að öryggi burðarþols brúarinnar var ábótavant. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að tryggt sé að brýr þoli þann þunga sem leyfður er. Við rannsókn þessa kom einnig í ljós að heilbrigðis- og öryggisáætlun sem skilað var inn til verkkaupa, var ófullnægjandi og slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits.

Nefndin leggur til við Vegagerðina að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar í ljósi þess að víða eru eldri brýr enn í notkun.

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Áhættumat á ökuleiðum - öryggis- og heilbrigðisáætlanir

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggis- og heilbrigðisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn vinnuslysum og óhöppum.  Þá ber nauðsyn til að verktakar og ökumenn gæti að reglum um þyngd ökutækja með tilliti til umferðaröryggis og álags á umferðarmannvirki. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í grein 1.10 í útboðsgögnum vegna verksins var verktaka gert skylt að gera öryggisáætlun vegna framkvæmdanna. Í því felst m.a. gerð áhættumats og fleira. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Öryggis- og heilbrigðisáætlun var skilað inn til verkkaupa, en sú áætlunin var vegna annars verks. Engin áætlun var unnin fyrir þetta tiltekna verk. Samkvæmt áætluninni átti að skipa öryggisfulltrúa, halda kynningarfund í upphafi verks um öryggismál og útbúa forvarnaráætlun. Samkvæmt upplýsingum frá aðalverktaka var það ekki gert.

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að gert sé áhættumat á ökuleiðum, m.a. burðarþoli brúa, vegna framkvæmda sem krefjast mikilla farmflutninga og/eða mikils aksturs. Einnig telur nefndin mikilvægt að gerð sé öryggisúttekt á vegum og brúm vegna framkvæmda. Beinir nefndin þessari tillögu til Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Afgreiðsla