2016

Ártúnsbrekka 21.12.2015

Umferð
Nr. máls: 2015-122U023
Staða máls: Opin
15.03.2017

Tillaga í öryggisátt

Hjólreiðar á fjölakreinavegum með hámarkshraða 60 km/klst eða hærra í þéttbýli

Mikil hætta er á að afleiðingar áreksturs milli hjólreiðamanns og bifreiðar verði mjög alvarlegar þegar ökuhraði er mikill. Eins skapar mikill munur á hraða farartækja aukna hættu á slysum1. Þegar hraðamunur er mikill nálgast farartæki hvort annað mun hraðar en ella og er því minni tími til að bregðast við ef hætta skapast. Hjólreiðar á fjölakreinavegum þar sem hraði er mikill eru hjólreiðamönnum afar hættulegar. Hjólreiðamaður á t.d. í erfiðleikum með að fylgjast með umferð fyrir aftan sig við akreinaskipti. Einungis er hægt að líta í örskotsstund aftur fyrir sig án þess að eiga á hættu að missa stjórn á hjólinu.
Í 25. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum segir að banna skuli umferð gangandi vegfarenda, reiðhjóla, léttra bifhjóla o.fl. á hraðbrautum eða samskonar vegum. Líkja má sumum einstökum stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu við hraðbrautir, að minnsta kosti á köflum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að hjólreiðar verði bannaðar á fjölakreinavegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill.

Afgreiðsla

Innanríkisráðuneytið hefur, skv bréfi til RNSA dagsettu 28. mars 2017, tekið tillöguna til skoðunar og óskað eftir umsögnum frá Samgöngustofu, Vegagerðinni, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Landssamtökum hjólreiðamanna. Frekari ákvörðun um vinnu við afgreiðslu tillögunnar verður tekin þegar umsagnir liggja fyrir.

Ártúnsbrekka 21.12.2015 (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-122U023
Staða máls: Opin
15.03.2017

Tillaga í öryggisátt

Reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla

Mikilvægt er að reiðhjólamenn séu vel sýnilegir í umferðinni og sérstaklega þarf að huga vel að sýnileika þeirra í skammdeginu. Í 4. gr. reglugerðar um gerð og búnað reiðhjóla nr. 57/19943 eru gerðar kröfur um ljós og glitmerki. RNSA bendir á að miklar framfarir hafa orðið á slíkum búnaði á undanförnum árum og leggur til að Innanríkisráðuneytið taki reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla til endurskoðunar.

Afgreiðsla

Samkvæmt svarbréfi Innanríkisráðuneytisins dagsettu 28. mars 2017 hefur ráðuneytið, í samráði við Samgöngustofu, hafið vinnu við endurskoðun reglugerðarnnar. 

Ártúnsbrekka 21.12.2015 (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-122U023
Staða máls: Lokuð
15.03.2017

Tillaga í öryggisátt

Aukahlutir í sjónsviði ökumanns út um rúður ökutækja

Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 822 frá 2004 með síðari breytingum er kveðið á um að ökumaður skuli hafa góða útsýn úr sæti sínu fram fyrir ökutækið og til beggja hliða, og samkvæmt 4. mgr. sömu greinar er óheimilt að hafa hvers konar aukahluti innan á eða innan við framrúðu og fremstu hliðarrúðu sem geta takmarkað útsýn. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til eigenda leigubifreiða að hafa þessar málsgreinar reglugerðarinnar í huga þegar búnaður er settur í ökutækin. Nefndin beinir því einnig til Samgöngustofu að taka þetta atriði upp með fyrirtækjum sem stunda skoðun á ökutækjum.

Afgreiðsla

Í svari sem RNSA barst 22.3.2019 kemur fram að Samgöngustofa hefur bæði fyrir og eftir þetta slys ítrekað við skoðunarstofur að setja út á byrgjandi hluti í sjónsviðið við skoðun ökutækja. 

Vestdalseyrarvegur

Umferð
Nr. máls: 2015-U013
Staða máls: Lokuð
16.12.2016

Tillaga í öryggisátt

Dæming skoðunaratriða og skyldur umráðamanna ökutækja til lagfæringa

Við rannsókn slyssins á Vestdalseyrarvegi kom í ljós að leki var í höggdeyfum bifreiðarinnar. Athugasemdir höfðu verið gerðar við höggdeyfa bifreiðarinnar í aðalskoðun árin 2011, 2013 og 2014 en það ekki verið lagfært. Þegar gerð er svonefnd Athugasemd 1 við ástand bifreiðar í aðalskoðun er ekki gerð krafa um að komið sé með ökutæki í endurskoðun. Þrátt fyrir það ber eiganda/umráðamanni ökutækis að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun, innan mánaðar (reglugerð um skoðun ökutækja nr.8/2009)

Rannsóknarnefnd samgönguslysa brýnir fyrir eigendum ökutækja að virða niðurstöður aðalskoðunar og tryggja þannig að ökutæki séu í sem bestu ásigkomulagi. Einnig beinir nefndin því til Samgöngustofu að kanna hvort breyta þurfi reglugerð um skoðun ökutækja með það fyrir augum að umráðamenn fái ekki skoðun, ef þeir trassa ítrekað að lagfæra niðurstöður dæmingar 1.

 

Afgreiðsla

Í svarbréfi frá Samgöngustofu sem nefndinni barst 22. mars 2019 er nefndinni tilkynnt að unnið sé að útfærslu til þess að bregðast við því að ökutæki geti komist í gegn um skoðun ár eftir ár með sömu athugasemdina. 

Vestdalseyrarvegur (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-U013
Staða máls: Opin
16.12.2016

Tillaga í öryggisátt

Ástand malarvega og hámarkshraði

Þar sem bifreiðin fór út af veginum er mjög bratt fram af og vegurinn holóttur. Vegurinn og umhverfi hans er varasamt og ber að mati nefndarinnar ekki þann hámarkshraða sem heimilaður er á veginum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Vegagerðarinnar að skoða aðstæður, hvernig hættumerkingum er háttað og setja viðeigandi leiðbeinandi hámarkshraða. Nefndin bendir einnig á, að mikilvægt er að viðhald á malarvegum sé með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að djúpar og stórar holur myndist í hjólförum eins og raunin var á þessum stað. Rannsóknarnefndin gerði sambærilega tillögu í öryggisátt til Vegagerðarinnar vegna banaslyss sem varð á Mófellsstaðavegi í Borgarfirði 19.5.2012.

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Kennsla til meiraprófs

Í gildi eru námskrár bæði fyrir vörubifreiðaréttindi og endurmenntun bílstjóra. Þar er farið yfir þau atriði sem skylt er að gera góð skil við kennslu til aukinna ökuréttinda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að mikilvægt er að ökumenn vörubifreiða sem og þeir sem þá hlaða, hafi þekkingu til að meta heildarþyngd vagnlestar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að yfirfara námskrár fyrir vörubifreiðaréttindi sem og fyrir endurmenntun bílstjóra með þetta atriði til hliðsjónar.

 

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Burðarþol brúa og útboðsgögn

Við rannsókn málsins kom m.a. í ljós að öryggi burðarþols brúarinnar var ábótavant. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að tryggt sé að brýr þoli þann þunga sem leyfður er. Við rannsókn þessa kom einnig í ljós að heilbrigðis- og öryggisáætlun sem skilað var inn til verkkaupa, var ófullnægjandi og slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits.

Nefndin leggur til við Vegagerðina að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar í ljósi þess að víða eru eldri brýr enn í notkun.

Afgreiðsla

Brú yfir Vatnsdalsá (2)

Umferð
Nr. máls: 2015-077U012
Staða máls: Opin
21.11.2016

Tillaga í öryggisátt

Áhættumat á ökuleiðum - öryggis- og heilbrigðisáætlanir

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggis- og heilbrigðisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn vinnuslysum og óhöppum.  Þá ber nauðsyn til að verktakar og ökumenn gæti að reglum um þyngd ökutækja með tilliti til umferðaröryggis og álags á umferðarmannvirki. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í grein 1.10 í útboðsgögnum vegna verksins var verktaka gert skylt að gera öryggisáætlun vegna framkvæmdanna. Í því felst m.a. gerð áhættumats og fleira. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Öryggis- og heilbrigðisáætlun var skilað inn til verkkaupa, en sú áætlunin var vegna annars verks. Engin áætlun var unnin fyrir þetta tiltekna verk. Samkvæmt áætluninni átti að skipa öryggisfulltrúa, halda kynningarfund í upphafi verks um öryggismál og útbúa forvarnaráætlun. Samkvæmt upplýsingum frá aðalverktaka var það ekki gert.

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að gert sé áhættumat á ökuleiðum, m.a. burðarþoli brúa, vegna framkvæmda sem krefjast mikilla farmflutninga og/eða mikils aksturs. Einnig telur nefndin mikilvægt að gerð sé öryggisúttekt á vegum og brúm vegna framkvæmda. Beinir nefndin þessari tillögu til Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Afgreiðsla

Suðurlandsvegur Hólá

Umferð
Nr. máls: 2015-177U023
Staða máls: Lokuð
06.10.2016

Tillaga í öryggisátt

Útrýming einbreiðra brúa á helstu vegum

Margar einbreiðar brýr má finna á íslenska þjóðvegakerfinu. Einbreiðar brýr skapa ávallt hættu, sérstaklega á vegum þar sem hraði er mikill. Einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins hefur fækkað verulega á undanförnum áratugum en því miður eru nú alls 698 einbreiðar brýr lengri en 4 metrar á þjóðvegum landsins. Þar af eru nokkrir tugir á hringveginum og er meðalaldur þeirra um 50 ár. Í samgönguáætlun 2011 – 2022 er sett það markmið að útrýma einbreiðum brúm á vegum með meðaltalsumferð á dag yfir 200 (ÁDU).

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til innanríkisráðherra að hann beiti sér sérstaklega fyrir því að nægu fé verði veitt til þess að ná markmiðum samgönguáætlunar.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Innanríkisráðuneytisins dagsett 22. nóvember 2016 kemur fram að Alþingi hafi samþykkt þann 12. október 2016 tillögu Innanríkisráðherra um aukið fé til breikkunar brúa í samgönguáætlun. Samkvæmt henni mun 1.600 milljónum kr. verða veitt á árunum 2017 og 2018 til þessa verkefnis. 

Suðurlandsvegur Hólá (1)

Umferð
Nr. máls: 2015-177U023
Staða máls: Lokuð
06.10.2016

Tillaga í öryggisátt

Betri merkingar við einbreiðar brýr

Þó svo að markvisst verði unnið að því að fækka einbreiðum brúm þá mun verkefnið taka nokkurn tíma. Mikil fjölgun hefur orðið á komum erlendra ferðamanna á undanförnum árum og spár gera ráð fyrir áframhaldandi aukningu ferðamanna. Á örfáum árum hefur umferð yfir brúna yfir Hólá aukist hratt, sennilega mest vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Meðaltalsumferð á sólarhring að vetrarlagi var rétt rúmlega 100 ökutæki árið 2011 en tæplega 300 árið 2015. Meðaltalsumferð að sumarlagi á sólarhring árið 2015 voru tæp 1300 ökutæki. Því er nokkuð ljóst að á komandi árum mun mikill fjöldi ökumanna, sem ekki eru staðkunnugir og hafa jafnvel aldrei áður ekið yfir einbreiðar brýr á þjóðvegum, aka um vegi landsins.

Af þeim sökum er afar mikilvægt að merkja einbreiðar brýr vel, með góðum fyrirvara og jafnvel lækka hámarkshraða. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að yfirfara þessi mál með erlenda ferðamenn í huga.  

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar dagsett 18. nóvember 2016 kemur fram að nú þegar hefur verið brugðist við með því að bæta við merkingum í 500 metra fjarlægð og blikkljósum fjölgað við einbreiðar brýr. Merkin hafa verið stækkuð, endurskin aukið og yfirborðsmerkingar yfirfarnar. Sérstök áhersla er lögð á brýr á Suðurlandsvegi að Höfn í Hornafirði í ljósi mikillar aukningar á umferð á þeim vegkafla en áfram verður unnið að sambærilegum breitingum víðar á landinu í framhaldinu.