35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið
Leita
Hafnarvegur við Stekkakeldu (2)
Tillaga í öryggisátt
Meðferð slasaðra eftir háorkuáverka Farþeginn í Toyota sendibifreiðinni var tekinn til skoðunar strax eftir slysið á heilsugæslu og virtist hann ekki mikið slasaður. Fylgst var með honum í nokkurn tíma og fékk hann aðhlynningu. Hann fékk síðan að fara til síns heima en leitaði aftur á heilsugæslu morguninn eftir mikið kvalinn. Við nánari skoðun á sjúkrahúsi kom í ljós að hann hafði hlotið alvarlega áverka sem ekki höfðu verið greindir deginum áður. Áreksturinn fellur samkvæmt skilgreiningu Landlæknis undir háorkuáverka. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa ætti ávalt að flytja slasaða sem falla undir þá skilgreiningu á sjúkrahús þar sem góð greiningar- og meðferðaraðstaða er fyrir hendi til að meðhöndla áverka sem af slíkum slysum geta hlotist. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Landlæknis að þessi vinnuregla sé viðhöfð.
Afgreiðsla
Brú yfir Vatnsdalsá
Tillaga í öryggisátt
Kennsla til meiraprófs
Í gildi eru námskrár bæði fyrir vörubifreiðaréttindi og endurmenntun bílstjóra. Þar er farið yfir þau atriði sem skylt er að gera góð skil við kennslu til aukinna ökuréttinda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að mikilvægt er að ökumenn vörubifreiða sem og þeir sem þá hlaða, hafi þekkingu til að meta heildarþyngd vagnlestar.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að yfirfara námskrár fyrir vörubifreiðaréttindi sem og fyrir endurmenntun bílstjóra með þetta atriði til hliðsjónar.
Afgreiðsla
Brú yfir Vatnsdalsá (1)
Tillaga í öryggisátt
Burðarþol brúa og útboðsgögn
Við rannsókn málsins kom m.a. í ljós að öryggi burðarþols brúarinnar var ábótavant. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að tryggt sé að brýr þoli þann þunga sem leyfður er. Við rannsókn þessa kom einnig í ljós að heilbrigðis- og öryggisáætlun sem skilað var inn til verkkaupa, var ófullnægjandi og slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits.
Nefndin leggur til við Vegagerðina að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar í ljósi þess að víða eru eldri brýr enn í notkun.
Afgreiðsla
Brú yfir Vatnsdalsá (2)
Tillaga í öryggisátt
Áhættumat á ökuleiðum - öryggis- og heilbrigðisáætlanir
Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggis- og heilbrigðisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn vinnuslysum og óhöppum. Þá ber nauðsyn til að verktakar og ökumenn gæti að reglum um þyngd ökutækja með tilliti til umferðaröryggis og álags á umferðarmannvirki. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í grein 1.10 í útboðsgögnum vegna verksins var verktaka gert skylt að gera öryggisáætlun vegna framkvæmdanna. Í því felst m.a. gerð áhættumats og fleira. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Öryggis- og heilbrigðisáætlun var skilað inn til verkkaupa, en sú áætlunin var vegna annars verks. Engin áætlun var unnin fyrir þetta tiltekna verk. Samkvæmt áætluninni átti að skipa öryggisfulltrúa, halda kynningarfund í upphafi verks um öryggismál og útbúa forvarnaráætlun. Samkvæmt upplýsingum frá aðalverktaka var það ekki gert.
Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að gert sé áhættumat á ökuleiðum, m.a. burðarþoli brúa, vegna framkvæmda sem krefjast mikilla farmflutninga og/eða mikils aksturs. Einnig telur nefndin mikilvægt að gerð sé öryggisúttekt á vegum og brúm vegna framkvæmda. Beinir nefndin þessari tillögu til Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.
Afgreiðsla
Vestdalseyrarvegur (1)
Tillaga í öryggisátt
Ástand malarvega og hámarkshraði
Þar sem bifreiðin fór út af veginum er mjög bratt fram af og vegurinn holóttur. Vegurinn og umhverfi hans er varasamt og ber að mati nefndarinnar ekki þann hámarkshraða sem heimilaður er á veginum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Vegagerðarinnar að skoða aðstæður, hvernig hættumerkingum er háttað og setja viðeigandi leiðbeinandi hámarkshraða. Nefndin bendir einnig á, að mikilvægt er að viðhald á malarvegum sé með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að djúpar og stórar holur myndist í hjólförum eins og raunin var á þessum stað. Rannsóknarnefndin gerði sambærilega tillögu í öryggisátt til Vegagerðarinnar vegna banaslyss sem varð á Mófellsstaðavegi í Borgarfirði 19.5.2012.
Afgreiðsla
Ártúnsbrekka 21.12.2015
Tillaga í öryggisátt
Hjólreiðar á fjölakreinavegum með hámarkshraða 60 km/klst eða hærra í þéttbýli
Mikil hætta er á að afleiðingar áreksturs milli hjólreiðamanns og bifreiðar verði mjög alvarlegar þegar ökuhraði er mikill. Eins skapar mikill munur á hraða farartækja aukna hættu á slysum1. Þegar hraðamunur er mikill nálgast farartæki hvort annað mun hraðar en ella og er því minni tími til að bregðast við ef hætta skapast. Hjólreiðar á fjölakreinavegum þar sem hraði er mikill eru hjólreiðamönnum afar hættulegar. Hjólreiðamaður á t.d. í erfiðleikum með að fylgjast með umferð fyrir aftan sig við akreinaskipti. Einungis er hægt að líta í örskotsstund aftur fyrir sig án þess að eiga á hættu að missa stjórn á hjólinu.
Í 25. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum segir að banna skuli umferð gangandi vegfarenda, reiðhjóla, léttra bifhjóla o.fl. á hraðbrautum eða samskonar vegum. Líkja má sumum einstökum stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu við hraðbrautir, að minnsta kosti á köflum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að hjólreiðar verði bannaðar á fjölakreinavegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill.
Afgreiðsla
Innanríkisráðuneytið hefur, skv bréfi til RNSA dagsettu 28. mars 2017, tekið tillöguna til skoðunar og óskað eftir umsögnum frá Samgöngustofu, Vegagerðinni, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Landssamtökum hjólreiðamanna. Frekari ákvörðun um vinnu við afgreiðslu tillögunnar verður tekin þegar umsagnir liggja fyrir.
Ártúnsbrekka 21.12.2015 (1)
Tillaga í öryggisátt
Reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla
Mikilvægt er að reiðhjólamenn séu vel sýnilegir í umferðinni og sérstaklega þarf að huga vel að sýnileika þeirra í skammdeginu. Í 4. gr. reglugerðar um gerð og búnað reiðhjóla nr. 57/19943 eru gerðar kröfur um ljós og glitmerki. RNSA bendir á að miklar framfarir hafa orðið á slíkum búnaði á undanförnum árum og leggur til að Innanríkisráðuneytið taki reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla til endurskoðunar.
Afgreiðsla
Samkvæmt svarbréfi Innanríkisráðuneytisins dagsettu 28. mars 2017 hefur ráðuneytið, í samráði við Samgöngustofu, hafið vinnu við endurskoðun reglugerðarnnar.
Hvítársíðuvegur
Tillaga í öryggisátt
Fræðsla til leigutaka
Samkvæmt upplýsingum frá bifhjólaleigu sem hjólið var leigt hjá, eru allir leigutakar uppfræddir um þær aðstæður sem búast má við á íslenskum vegum. Samgöngustofa hefur útbúið stutt fræðslumyndskeið um hættur við akstur bifhjóla og akstur í lausamöl og hálku sem koma m.a. inn á atriði sem mikilvægt er fyrir ökumenn bifhjóla að hafa í huga við akstur á íslenskum þjóðvegum. Þau myndskeið eru á íslensku. Útbúið hefur verið fræðslumyndskeið sérstaklega fyrir erlenda ferðamenn við akstur bifreiða en ekki hefur verið útbúið fræðsluefni sem beint er sérstaklega til erlendra ferðamanna sem ferðast á bifhjólum.
RNSA leggur til að útbúið verði fræðsluefni til að uppfræða erlenda ferðamenn á bifhjólum um aðstæður á íslenskum vegum. Tillögunni er beint til Samgöngustofu.
Afgreiðsla
Jökulsárlón
Tillaga í öryggisátt
Skipulag umferðar við Jökulsárlón
Árið 2013 var samþykkt deiliskipulag fyrir Jökulsárlón og var það mat þeirra sem unnu tillöguna (Gláma-Kím Arkitektar) að viðbúnaður vegna móttöku ferðamanna á Breiðamerkursandi væri lítil og ekki í neinu samræmi við gestafjöldann. Sæjust þess merki í umhverfinu, s.s. að akstur utan vega væri stundaður í miklum mæli og augljós skortur væri á skipulögðum bílastæðum og áningarstöðum með merkingum og upplýsingum, snyrtingum og sorpílátum. Er tekið fram að mikil þörf sé á bættri og breyttri aðstöðu til móttöku ferðamanna við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
Beinir RNSA því til eigenda jarðarinnar Fells og rekstraraðila við lónið að hefja uppbyggingu mannvirkja í samræmi við gildandi deiliskipulag sem bæta umferðaröryggi og draga þannig úr slysahættu. Umferð gangandi vegfarenda, ökutækja, hjólabáta og þyrla þarf að afmarka betur og merkingar skortir. Svæðið þarf að vera vel skipulagt og skýrt merkt til að tryggja öryggi fólks. Nefndin beinir þessari tillögu einnig til sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Afgreiðsla
Í bréfi dagsettu 6. september 2017 sem Sveitarfélagið Hornafjörður sendi nefndinni kemur fram að hafin er endurskoðun á gildandi deiluskipulagi. Mun verða horft sérstaklega til umferðaröryggis og öryggis ferðamanna á svæðinu í þeirri vinnu. Sveitarfélagið hafi, og mun áfram beita þrýstingi á að uppbygging verði hafin sem fyrst svo markmiðum um aukið öryggi náist.
Jökulsárlón (1)
Tillaga í öryggisátt
Öryggisáætlun um akstur og siglingu hjólabátanna
Við rannsókn málsins kom fram að öryggisáætlanir hjólabátanna snúa fyrst og fremst að siglingu þeirra á lóninu. Nauðsynlegt er að öryggisbúnaði bátanna sé ávallt haldið í fullkomnu lagi í samræmi við skráða öryggisáætlun og að til sé varabúnaður sem koma má fyrir ef viðgerð dregst. Að öðrum kosti verði viðkomandi báti lagt þar til öryggisbúnaði hefur verið komið í lag eða aukin gæsla sett í gang. Einnig er til bóta að búa bátana hljóðmerkisbúnaði til aðvörunar þegar þeim er bakkað. Eins er mikilvægt að aðgreina svæðið þar sem hjólabátar athafna sig og takmarka umferð gangandi vegfarenda kringum bátana þegar þeim er ekið. Að mati RNSA væri heppilegast að aldrei þyrfti að bakka hjólabátunum vegna slæms útsýnis frá þeim á landi. Öruggast væri að bátarnir ækju hring þannig að ekki þyrfti að bakka þeim í hverri ferð eftir að búið er að sækja farþega við landgang.
RNSA beinir því til rekstraraðila hjólabáta við Jökulsárlón að uppfæra öryggisáætlun hjólabátanna með tilliti til öryggis við akstur þeirra á landi.