Tillögur í öryggisátt Síða 11

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Vinnufyrirkomulag ökumanna hópbifreiða

Umferð
Nr. máls: 2017-186U021
Staða máls: Opin
15.04.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að taka til skoðunar hvort rétt sé að banna að daglegur aksturstími sé aukinn beint eftir skertan hvíldartíma og jafnframt banna að hvíldartími sé skertur strax eftir að daglegur aksturstími var aukinn, skv. 6  og 10. gr. reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit nr. 605/2010 með síðar breytingum, þar sem nú er ekkert í reglugerðinni sem kemur í veg fyrir að dagarnir sem má auka aksturstíma og skerða hvíldartíma séu samfelldir.

Dagsferð frá höfuðborgarsvæðinu að Jökulsárlóni tekur að jafnaði um 13 til 15 klst, en  aksturstími er um 10 klst. Ef slíkar ferðir eru skipulagðar með þeim hætti að einungis einum ökumanni sé ætlað að aka alla leið má lítið út af bregða til  þess að ökumaður brjóti ekki gegn ákvæðum reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma. Vinnudagurinn verður einnig langur sem eykur líkur á að ökuhæfni skerðist og er umferðaröryggi þar með teflt í tvísýnu. Í þessu tilfelli var hvíldartími ökumanns nóttina áður að auki lítill. Að mati nefndarinnar fer skertur hvíldartími og langur vinnudagur daginn eftir ekki vel saman.

Eigandi hópbifreiðarinnar breytti skipulaginu eftir slysið á þann veg að tveir  ökumenn skipta akstrinum á milli sín fyrir þessa tilteknu leið.

Afgreiðsla

Í umsögn sem nefndinni barst með bréfi dagsettu 26. mars 2019 kom fram að mati samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er ekki ástæða að svo stöddu að gera breytingar á reglugerð nr. 605/2010 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit. Ráðuneytið óskaði eftir áliti Samgöngustofu um tillöguna. Samgöngustofa telur ekki rétt að breyta reglugerðinni m.v. tillögu nefndarinnar enda sé reglugerðin í samræmi við ákvæði Evrópureglugerðar sem talin er tryggja viðunandi hvíld ökumanna. Ráðuneytið metur það svo að ríkari kröfur á hvíldartíma og skerðing á aksturstíma myndi ganga lengra en Evrópureglugerð nr 561/2010 heimili aðildarríkjum. 

Samgöngustofa mælti þó með því að óskað væri eftir umsögn vegaeftirlits lögreglu. Ráðuneytið mun óska eftir umsögn vegaeftirliti lögreglu og setja málið á dagskrá umferðaröryggisráðs. Ef viðbrögð verði þannig að ráðuneytið telji þörf á endurskoðun á afstöðu þessari mun RNSA verða upplýst um það. 

Ökuréttindi og ökutækjaskrá

Umferð
Nr. máls: 2017-063U006
Staða máls: Opin
03.05.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að taka til skoðunar, hvort og þá hvernig megi koma í veg fyrir að einstaklingar sem ekki hafa aflað sér ökuréttinda eða hafa verið sviptir ökuréttindum ævilangt séu skráðir eigendur að ökutækjum án athugasemda.

Ökumaður bifhjólsins í þessu slysi hafði ítrekað gerst brotlegur við umferðarlög og var sviptur ökuréttindum ævilangt þegar slysið átti sér stað. Við rannsókn málsins kom í ljós að hann hafði eignast bifhjólið þann 9.5.2017, eða 15 dögum fyrir slysið. Hann hafði áður almenn ökuréttindi en aldrei réttindi til að aka bifhjóli. Í 13. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003 með síðari breytingum kemur fram að lögregla skal taka skráningarmerki af ökutæki ef ákveðin skilyrði eru fyrir hendi, s.s. vanræksla á skoðunarskyldu eða þegar fullnægjandi vátrygging er ekki fyrir hendi. Ekki er gerð krafa um að eigandi eða umráðamaður ökutækis skuli hafa gild réttindi til þess að aka ökutækinu. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa þarf að taka til skoðunar hvort og þá hvernig megi koma í veg fyrir að einstaklingar sem ekki hafa aflað sér ökuréttinda eða hafa verið sviptir ökuréttindum ævilangt séu skráðir eigendur að ökutækjum án athugasemda.

Afgreiðsla

Vanrækslugjald

Umferð
Nr. máls: 2017-172U018
Staða máls: Opin
03.06.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að taka til endurskoðunar viðurlög við að vanrækja skoðunarskyldu ökutækja.

Regluleg skoðun ökutækja er liður í að tryggja öruggari umferð. Því miður er misbrestur á að  eigendur eða umráðamenn ökutækja sinni þessari lögbundnu skyldu. Í umferðarlögum er kveðið á um að ef ökutæki sem skráð er hérlendis er  ekki fært til lögmætrar skoðunar innan tilskilins tíma, skuli lagt á eiganda þess eða umráðamann vanrækslugjald að fjárhæð 15.000 kr.  Meginreglan er sú að gjaldið leggist á eiganda ökutækis ef það er ekki fært til skoðunar innan tveggja mánaða frá lokum þess mánaðar sem endastafur á skráningarmerki vísar til. Bifreiðin í þessu slysi hafði ekki verið færð í endurskoðun og þau atriði, sem athugasemdir voru gerðar við þegar hún var færð til skoðunar tæpu hálfu ári fyrir slysið, höfðu ekki verið lagfærð.

Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði sér við rannsókn á málinu hefur fjöldi álagðra vanrækslugjalda verið um og yfir 40 þúsund á ári. Lítil breyting hefur orðið á fjölda álagninga þau 10 ár sem kerfið hefur verið við líði. Tilgangur vanrækslugjaldsins er að fækka óskoðuðum ökutækjum í umferðinni. Að mati nefndarinnar nær gjaldið ekki tilgangi sínum því hægt er að greiða gjaldið án þess að færa ökutækið til skoðunar á ný. Ef gjaldið er greitt en ökutækið ekki fært til skoðunar er ekki lagt á annað gjald innan sama árs. Að mati nefndarinnar ætti að taka til skoðunar hvernig hægt sé að gera kerfið skilvirkara.

Afgreiðsla

Endurskoðun reglugerðar um slysavarnir og öryggisbúnað í höfnum

Umferð
Nr. máls: 2017-160U013
Staða máls: Opin
06.06.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefndin beinir þeirri tillögu í öryggisátt til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglugerð um slysavarnir og öryggisbúnað í höfnum nr 580/2017 til að tryggja frekar öryggi vegfarenda á hafnarsvæðum og sérstaklega á stöðum þar sem almenningur á erindi

 Hafnarsvæði eru sérstaklega varhugaverð fyrir umferð bifreiða af mörgum ástæðum. Bryggjur standa að jafnaði nokkra metra fyrir ofan sjávarmál og út í djúpan sjó.

Hættan við þessar aðstæður er fólgin í því að ökutæki snúast þegar þau fara fram af bryggju og lenda í djúpum sjó þar sem þau sökkva til botns. Björgun verður ávallt erfið við slíkar aðstæður og oftast þörf á sérþjálfuðum björgunaraðilum með viðeigandi búnað.

Nefndin telur rétt að gerðar séu auknar kröfur til ferjuhafna til að tryggja öryggi vegfarenda vegna umferðar sem fer um slíkar hafnir. Ekki er sjálfgefið að heimila frjálsan akstur bifreiða að ferjum. Skipuleggja þarf umferð bifreiða við bryggjur með öruggum hætti og flutning farþega og farangurs að ferjum þegar það á við.

Núgildandi reglugerð gerir kröfu um a.m.k. 20 cm háa kanta á bryggjum en óvíst er hvort margar eldri bryggjur uppfylla þessar kröfur. Jafnframt þarf að meta hvort breyta ætti slíkum kröfum m.a. með tilliti til samsetningar bifreiðaflota landsins, hæðar bifreiða o.fl.

Afgreiðsla

Breytingar á umferðarlögum m.t.t. öryggisbúnaðar barna

Umferð
Nr. máls: 2016-U071U16
Staða máls: Opin
02.09.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða viðeigandi ákvæði* umferðarlaga með því markmiði að afnema undanþágu um lægra hæðarviðmið vegna sérstaks öryggisbúnaðar fyrir börn í bifreiðum.

  • *71 gr. laga nr. 50/1987 með síðari breytingum (núgildandi umferðarlög).
  • *77. gr laga nr. 77/2019 (umferðarlög með gildistöku þann 1. janúar 2020).

Afgreiðsla

Tillaga um breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja

Umferð
Nr. máls: 2018-005U002
Staða máls: Opin
05.02.2020

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að leggja til breytingar á reglugerð um gerð og búnað ökutækja með það að markmiði að skerpa á kröfum um hjólbarða við vetraraðstæður þannig að krafa um vetrarhjólbarða í vetrarfærð sé skýr.

 

Afgreiðsla

Með bréfi Samgöngustofu dagsettu 9. maí 2020 svaraði Samgöngustofa tillögu nefndarinnar. Samgöngustofa tekur undir það að full tilefni sé til að skoða betur kröfur til vetrarhjólbarða. Fram kemur m.a. framað horfa þurfi til margra atriða áður en endanleg afstaða liggi fyrir auk þess sem aðkoma samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins yrði nauðsynleg við veigamikilar ákvarðanir. Samgöngustofa muni koma afstöðu sinni til RNSA þegar hún liggur endanlega fyrir.

Rannsóknarnefndin fagnar því að Samgöngustofa muni ráðast í frekari skoðun á þessum þáttum reglugerðarinnar.

Þar sem ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða verður tillagan áfram opin.

Reglugerð um frágang farms

Umferð
Nr. máls: 2020-069U006
Staða máls: Opin
29.06.2021

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgönguráðuneytisins að endurskoða reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms með það að markmiði að í reglugerðinni verði sérstaklega tekið til krókheysisgáma og frágangs þeirra.

Rannsókn RNSA bendir til þess að nauðsynlegt sé að skerpa á reglum um notkun á krókheysisgámum en í núverandi reglugerð er ekki gert ráð fyrir þessari gerð farms eða gáma. Nauðsynlegt er að setja viðmið fyrir notendur.

Afgreiðsla

Veðurfréttir

Umferð
Nr. máls: 2022-009U002
Staða máls: Opin
20.03.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til RÚV að yfirfara verklag við gerð veðurkorta.

Við rannsókn málsins kom fram að ökumaðurinn hafði horft á veðurfréttirnar í seinni kvöldfréttatíma á RÚV rétt fyrir slysið. Á veðurkortinu sem sýnt var þar voru gular vindaviðvaranir birtar yfir Suðausturlandi en vindur var birtur sem norðvestan 9 til 10 m/s á hafsvæðinu suður af spásvæðinu. Vindhraðatölur sem birtast á veðurkortinu gefa til kynna spá um vindhraða á þeim stað þar sem þær eru settar. Hins vegar var í vindaspá sem Veðurstofa Íslands gaf út morguninn fyrir slysið fyrir Suðausturland gert ráð fyrir að vindur yrði á bilinu 18 til 25 m/s.

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa getur þessi framsetning skapað misskilning hjá áhorfendum.

Afgreiðsla

Stuðningur við innleiðingu nýs vottorðseyðublaðs

Umferð
Nr. máls: 2023-019U005
Staða máls: Opin
16.04.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til innviðaráðuneytisins að styðja Samgöngustofu við þróun og innleiðingu á nýju eyðublaði um læknisvottorð sem snýr að því mati hvort umsækjendur um ökuskírteini fullnægi III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði eins og kveðið er á um í 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum, og leita í því skyni, ef þörf er á, aðstoðar annarra ráðuneyta og undirstofnana þeirra.

Drög að nýju vottorðseyðublaði vegna læknisskoðunar fyrir veitingu eða endurnýjun ökuréttinda hafa verið í vinnslu hjá Samgöngustofu. Gildandi vottorðseyðublað er áratuga gamalt og þarfnast endurnýjunar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að innviðaráðuneytið styðji Samgöngustofu við þróun og framkvæmd á innleiðingarferli á nýju vottorðseyðublaði og sjái til þess að stofnunin fái þann stuðning sem hún þarf við verkefnið, m.a. frá öðrum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.

Afgreiðsla

23-043U007T3. Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar

Umferð
Nr. máls: 2023-043U037
Staða máls: Opin
24.09.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytisins að setja í  reglugerð ákvæði um flokkun, gerð og notkun öryggis- og verndarbúnaðar óvarinna vegfarenda sbr. 4. mgr. 79. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum.

Ákvæði 78. og 79. gr. umferðarlaga fjalla takmarkað um öryggis- og verndarbúnað við akstur bifhjóla og torfærutækja. RNSA telur þörf á ítarlegri reglugerðarákvæðum um hlífðarbúnað óvarinna vegfarenda annarra en gangandi.

Afgreiðsla