Tillögur í öryggisátt Síða 4

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Veðurfréttir

Umferð
Nr. máls: 2022-009U002
Staða máls: Opin
20.03.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til RÚV að yfirfara verklag við gerð veðurkorta.

Við rannsókn málsins kom fram að ökumaðurinn hafði horft á veðurfréttirnar í seinni kvöldfréttatíma á RÚV rétt fyrir slysið. Á veðurkortinu sem sýnt var þar voru gular vindaviðvaranir birtar yfir Suðausturlandi en vindur var birtur sem norðvestan 9 til 10 m/s á hafsvæðinu suður af spásvæðinu. Vindhraðatölur sem birtast á veðurkortinu gefa til kynna spá um vindhraða á þeim stað þar sem þær eru settar. Hins vegar var í vindaspá sem Veðurstofa Íslands gaf út morguninn fyrir slysið fyrir Suðausturland gert ráð fyrir að vindur yrði á bilinu 18 til 25 m/s.

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa getur þessi framsetning skapað misskilning hjá áhorfendum.

Afgreiðsla

Stuðningur við innleiðingu nýs vottorðseyðublaðs

Umferð
Nr. máls: 2023-019U005
Staða máls: Opin
16.04.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til innviðaráðuneytisins að styðja Samgöngustofu við þróun og innleiðingu á nýju eyðublaði um læknisvottorð sem snýr að því mati hvort umsækjendur um ökuskírteini fullnægi III. viðauka um andlegt og líkamlegt heilbrigði eins og kveðið er á um í 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum, og leita í því skyni, ef þörf er á, aðstoðar annarra ráðuneyta og undirstofnana þeirra.

Drög að nýju vottorðseyðublaði vegna læknisskoðunar fyrir veitingu eða endurnýjun ökuréttinda hafa verið í vinnslu hjá Samgöngustofu. Gildandi vottorðseyðublað er áratuga gamalt og þarfnast endurnýjunar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að innviðaráðuneytið styðji Samgöngustofu við þróun og framkvæmd á innleiðingarferli á nýju vottorðseyðublaði og sjái til þess að stofnunin fái þann stuðning sem hún þarf við verkefnið, m.a. frá öðrum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.

Afgreiðsla

23-043U007T3. Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar

Umferð
Nr. máls: 2023-043U037
Staða máls: Opin
24.09.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytisins að setja í  reglugerð ákvæði um flokkun, gerð og notkun öryggis- og verndarbúnaðar óvarinna vegfarenda sbr. 4. mgr. 79. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum.

Ákvæði 78. og 79. gr. umferðarlaga fjalla takmarkað um öryggis- og verndarbúnað við akstur bifhjóla og torfærutækja. RNSA telur þörf á ítarlegri reglugerðarákvæðum um hlífðarbúnað óvarinna vegfarenda annarra en gangandi.

Afgreiðsla

23-066U013T01. Skráningarskylda vinnuvéla

Umferð
Nr. máls: 2023-066U013
Staða máls: Opin
10.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til eiganda/umráðamanns vinnuvélarinnar að tryggja að allar skráningarskyldar vinnuvélar hans, sem eru í akstri á opinberum vegum, séu rétt skráðar.

Umrædd vinnuvél var ekki skráð í ökutækjaskrá, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003 með áorðnum breytingum, þrátt fyrir að vera notuð í almennri umferð. Samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019 með síðari breytingum ber eigandi (umráðamaður) ábyrgð á skráningu þess í ökutækjaskrá og að skráningarmerki sé sett á það áður en það er notað í almennri umferð.

Afgreiðsla

23-066U13T02. Öryggisúttekt á gatnamótunum

Umferð
Nr. máls: 2023-066U013
Staða máls: Opin
10.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á gatnamótum Vonarstrætis og Lækjargötu.

Talsverð umferð allra vegfarendahópa er um gatnamót Lækjargötu og Vonarstrætis. Aðstæður eru þröngar fyrir ökumenn stórra ökutækja að taka hægri beygjur á þessum gatnamótum. Einnig getur sýn ökumanna við vinstri beygju af Vonarstræti verið takmörkuð.

Afgreiðsla

23-066U13T03 Yfirfara verklag um skoðanir og skráningar vinnuvéla

Umferð
Nr. máls: 2023-066U013
Staða máls: Opin
10.01.2025

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vinnueftirlitsins og Samgöngustofu að yfirfara verklag um skoðanir og skráningar á vinnuvélum sem eru notaðar í almennri umferð.

Hlutverk Vinnueftirlitsins er að skoða og skrá vinnuvélar. Samningur er á milli Samgöngustofu og Vinnueftirlits um skráningar á vinnuvélum í ökutækjaskrá sem notaðar eru í almennri umferð. Við rannsókn slyssins kom í ljós að skráningum þeirra vinnuvéla sem skráðar eru í ökutækjaskrá var áfátt. Vinnueftirlitið sendir slíkar upplýsingar til Samgöngustofu en ökutækjaskrá er á ábyrgð hennar. Þá er það á ábyrgð eigenda/umráðamanns vinnuvélar að skrá hana í ökutækjaskrá, eigi að nota hana í almennri umferð.

Afgreiðsla

Hellisheiði 29.12.2014 (1)

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Lokuð
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Aðgreining akstusátta. Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss er með umferðarmestu þjóðvegum utan þéttbýlis á Íslandi. Undanfarin ár hafa orðið þarna mörg alvarleg umferðarslys. Veghaldari hefur á síðast liðnum árum unnið að bættu umferðaröryggi á veginum sem hefur skilað sér í fækkun alvarlegra slysa. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut að aðgreina akstursáttir á Suðurlandsvegi til að forða því að ökutæki lendi í hörðum framanákeyrslum eins og í því slysi sem hér er fjallað um. Beinir nefndin því til veghaldara að mikilvægt er að ljúka endurbótum á veginum sem allra fyrst.

Afgreiðsla

Í svarbréfi veghaldara kemur fram að unnið sé að aðgreiningu akstursátta á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfossar og samkvæmt fyrirlyggjandi áætlun er gert rað fyrir að ljúka aðgerðum á vegkaflanum á næstu fjórum árum.

Hellisheiði 29.12.2014 (2)

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Lokuð
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Yfirborðsmerkingar og viðhald þeirra. Rannsókn slyssins leiddi í ljós að ökumenn sem þarna voru á ferð áttu í erfiðleikum með að átta sig á miðlínu vegarins. Bæði var skafrenningur og snjór á veginum ásamt því að málningin á miðlínu vegarins var orðin máð. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, var miðlínan síðast máluð fyrir slysið í júní 2013, eða um ½ ári áður. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við veghaldara að skoða með hvaða hætti hægt sé að minnka líkur á að ökumenn lendi í þeim aðstæðum að eiga í erfiðleikum með að greina miðlínu vegar.

Afgreiðsla

Í svari veghaldara kemur fram að á umræddum stað séu yfirborðsmerkingar endurnýjaðar á hverju ári. Þær verði fyrir mikilli áraun vegna m.a. umferðar og snjómoksturs en miðað við nútímatækni sé ekki mögulegt að endurnýja þær að vetrarlagi. Veghaldari hafi á undanförnum árum látið fræsa rifflur milli akstursátta á allmörgum stöðum og stefnt sé að slíkri útfærslu á fleiri stöðum eftir því sem aðstæður leyfa.

Vesturlandsvegur sunnan Bifrastar 23.8.2013 (1)

Umferð
Nr. máls: 2013-U016
Staða máls: Lokuð
16.03.2015

Tillaga í öryggisátt

Merking ferðamannastaða Í rannsókn sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa framkvæmdi á umferðarslysum erlendra ferðamanna á árunum 2006 til 2010 kom í ljós, að önnur algengasta orsök alvarlegra umferðarslysa þessa hóps var að athygli ökumanns var ekki við aksturinn á eftir of hröðum akstri miðað við aðstæður. Við rannsókn þessa slyss kom í ljós að erlendi ferðamaðurinn var að skoða vegakort undir stýri til að átta sig á hvar afleggjarinn að fossinum Glanna væri. Lítið skilti er við afleggjarann að fossinum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á mikilvægi þess að ferðamannastaðir séu vel merktir. Beinir nefndin því til Ferðamálastofu og Vegagerðarinnar að taka staði sem sérstaklega eru auglýstir fyrir erlenda ferðamenn til skoðunar hvað þetta atriðið varðar.

Afgreiðsla

Í svari sem barst frá Vegagerðinni kemur fram að merkingar á umræddum stað hafi verið skoðaðar sérstaklega og verið sé að huga að breytingum á þeim. Einnig mun Vegagerðin, í samráði við ferðamálastjóra, taka til athugunar hvort ástæða sé til að skoða merkingar ferðamannastaða sérstaklega.

Nauthólsvegur við Hringbraut 15.febrúar 2015

Umferð
Nr. máls: 2015-005-U001
Staða máls: Lokuð
30.12.2016

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa gerir þá tillögu í öryggisátt að heilbrigðisráðherra skipi vinnuhóp sem fjalli um ökuleyfi og veikindi. Yrði horft til skipulags í öðrum löndum og t.d. rannsakað hvort taka eigi upp sambærilegt kerfi og tíðkast í Bandaríkjunum.

Afgreiðsla

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að bregðast við tillögu nefndarinnar. Verður Landlækni falið að skipa vinnuhóp og skal hann skila tillögum hópsins til heilbrigðisráðherra fyrir 1.júní 2016.