Akstur í miklum vindi

Umferð
Nr. máls: 2022-009U002
20.03.2023

Suðurlandsvegur austan Brunnár

Stór ökutæki taka á sig mikinn vind og ber að gæta sérstakrar varfærni þegar ekið er í miklum vindi. Hætta er á að miklir vindstrengir og/eða vindhviður valdi því að ökutæki skríði til eða fjúki upp á hlið og velti. Veðurspáin sem gefin var út morguninn 3. febrúar 2022 greindi frá að á Suðausturlandi mætti gera ráð fyrir vaxandi norðvestanátt, 18–25 m/s austan til seint um kvöldið. Samgöngustofa, VÍS, Sjóvá og Vegagerðin, hafa með aðstoð sérfræðinga, útbúið varúðarviðmið vegna vinds fyrir stór ökutæki (sjá mynd 5). Í þeim varúðarviðmiðum kemur fram að hætt er við að léttir flutningabílar með engan, lítinn eða léttan farm fjúki út af í slíkum veðuraðstæðum. Í þessu slysi var ekið með stóran festivagn og farmurinn var léttur, einungis 800 kg.

Veðurfar á Íslandi er afar breytilegt og hefur t.d. landslag mikil áhrif á veður, einkum vind. Því getur verið talsverður munur á veðri frá einum stað til annars jafnvel þó að fjarlægð þar á milli sé ekki mikil. Við veðrabreytingar getur verið vandasamt að átta sig á hvernig veðrið verður á fyrirhugaðri akstursleið. Mikilvægt er að hafa í huga að þegar skoðaðar eru mælingar á veðri að þær gefa upp veður á og við mælistað og geta verið allt að klukkustunda gamlar. Ávallt skal skoða veðurspá fyrir akstursleiðina til þess að gera sér grein fyrir við hverju má búast og hvort líkur séu á að veðrið sé að skána eða versna. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar veðurviðvaranir hafa verið gefnar út. Þá þarf einnig að kynna sér veðurviðvörunina og hvað felst í henni.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað 12 banaslys í umferðinni frá árinu 1998 þar sem vindhviða var talin orsakaþáttur. Ökumenn geta dregið úr hættu á því að ökutæki þeirra fjúki til í hvassviðri með því að kynna sér veðuraðstæður og haga akstri eftir þeim. Veggrip skiptir miklu máli þegar vindasamt er og eitt besta ráðið til þess að varna því að missa stjórn á ökutæki í hvassviðri er að aka hægt. Stöðugleiki ökutækja eykst þegar dregið er úr ökuhraða og auðveldara er fyrir ökumenn að bregðast við hviðum. Færð, vindhraði, hviður og vindátt eru áhættuþættir en einnig stærð, lögun og þyngd ökutækja. Létt ökutæki með háan þyngdarpunkt þola minni vindstyrk en þung ökutæki með lægri þyngdarpunkt. Á vef Veðurstofu Íslands er að finna veðurviðvaranir, veðurspár og veðurathuganir og á vef Vegagerðarinnar upplýsingar um veður og færð. Rannsóknarnefndin hvetur ökumenn til að kynna sér vel veðurspá og veðuraðstæður og sérstaklega veðurviðvaranir séu þær fyrir hendi. 

Ætíð skal skoða vel veðurspá áður en lagt er af stað. Ef líkur eru á miklum vindi er mikilvægt að:

  • Kanna færð því meiri hætta er á að missa stjórn á ökutæki í vindi þegar bleyta eða hálka er á veginum vegna þess að hjólbarðarnir þurfa að halda á móti miklum hliðarkrafti sem getur myndast vegna vinds.
  • Velja aðra leið ef hægt er eða breyta ferðaáætlun til að forðast að aka í miklum vindi.
  • Aka hægar en ella því eftir því sem ekið er hraðar geta áhrif vindsins aukist og þegar vindhviða skellur á ökutæki þarf ökumaðurinn oft að leiðrétta stefnu þess. Eftir því sem hraðar er ekið er minni tími til viðbragða og meiri líkur á að missa stjórn.
  • Vera viðbúin því að geta brugðist hratt við hættum.

Tengill á skýrslu