Leita að ábendingar
Of hraður akstur (1)
Of hraður akstur
Nefndin hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum og ítrekar mikilvægi þess að ökumenn aki ekki hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa hverju sinni.
Í þessu atviki var hraðinn mikill og stöðug hraðaaukning í aðdraganda slyssins. Slíkt er eingöngu heimilt í þar til gerðu afmörkuðu umhverfi akstursbrauta. Ökumaður í mikilli hröðun veitir umhverfinu minni athygli og getur mögulega verið með þrönga rörsýn beint fram veginn. Skortur á athygli með umhverfinu auk mikillar hröðunar og hraða í kjölfarið er hættuleg blanda sem á ekkert erindi í almennri umferð.
Líkur á banaslysum aukast verulega þegar um of hraðan akstur er að ræða. Leyfður hámarkshraði hverju sinni er meðal annars miðaður við aðstæður og hönnun vega.
Gönguljós fyrir gangandi vegfarendur
Gönguljós fyrir gangandi vegfarendur
Gönguljós eru til að stjórna umferð, stuðla að öryggi og vernda vegfarendur. Ef umferð á akbraut er stjórnað með umferðarljósum má samkvæmt umferðarreglum einungis ganga yfir akbrautina þegar grænt ljós er fyrir umferð gangandi vegfarenda. Þetta er til að auka umferðaröryggi og koma í veg fyrir árekstra og slys. Þegar gengið er yfir götu á rauðu gönguljósi skapar það árekstrarhættu. Það er mikilvægt að virða ávallt umferðarreglur og gönguljós.
Akstur á malarvegum.
Akstur á malarvegum.
Almennur leyfður hámarkshraði á malarvegum er 80 km/klst en þó skal ávallt miða hraða við aðstæður og reynslu af akstri á malarvegi. Mikilvægt er að draga ávallt úr hraða þegar farið er af bundnu slitlagi yfir á malarveg. Viðnám malarvega er minna en á vegum með bundnu slitlagi og hætta er á að missa stjórn á bifreið ef athygli er ekki á veginum og ekið er úr hjólförum í lausamöl nærri vegöxl.
Öryggi ferðamanna í umferðinni
Öryggi ferðamanna í umferðinni
Við markaðssetningu ferðamannaleiða þarf að huga að innviðum, eins og ástandi vega, að þeim stöðum sem markaðssetningin beinist að. Koma þarf upplýsingum til þeirra sem ferðast á eigin vegum um hættur á leið til áfangastaða, sérstaklega þeirra sem fáfarnir eru og þar sem leiðir eru erfiðar yfirferðar. Mikilvægt er að með slíkri markaðsvinnu á landsvísu séu unnar öflugar öryggisáætlanir[1], bæði af hendi ferðaskrifstofa og markaðsaðila, sem beinast að umferð ferðamanna, hvort sem þeir eru í skipulögðum ferðum eða á eigin vegum. Haft hefur verið eftir ferðamálastjóra að íslenska vegakerfið sé líklega hættulegasti ferðamannastaður landsins[2]. Því er rík ástæða fyrir íslenska ferðaþjónustu að huga að aðgengi og öryggi þeirra ferðamanna sem slík markaðssetning beinist að. Í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030[3] er meðal annars lögð áhersla á að fagmennska, gæði og öryggi einkenni íslenska ferðaþjónustu og hefur verið stofnaður starfshópur til þess að greina öryggismál í ferðaþjónustu, vinna að framgangi þeirra og tryggja samtal á milli aðila.
[1] https://www.ferdamalastofa.is/is/leyfi/oryggisaaetlanir#vidbragdsaaetlun
[2] https://www.visir.is/g/20242626991d/-islenska-vegakerfid-er-liklega-haettulegasti-ferdamannastadur-landsins-
[3] https://www.ferdamalastofa.is/is/troun/ferdamalastefna-og-adgerdaaetlun
Akstur undir áhrifum áfengis, lyfja og vímuefna
Akstur undir áhrifum áfengis, vímuefna og lyfja er alvarlegt vandamál í umferðinni. Af tuttugu og sjö banaslysum í umferðinni árin 2021-2023 voru ökumenn í sjö slysum undir áhrifum ólöglegra fíkniefna, lyfja eða áfengis. Slíkt hefur áhrif á dómgreind ökumanna og skynjun þeirra á umhverfið. Viðbragð, hreyfistjórnun og rökvísi skerðast og líkur á alvarlegu slysi aukast.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um akstur undir áhrifum fíkniefna, áfengis og sljóvgandi lyfja. Nauðsynlegt er að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir slíka neyslu.
Of hraður akstur
Of hraður akstur
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur áður fjallað um hraðakstur og afleiðingar hans í skýrslum sínum. Of hraður akstur hefur verið ein af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki ekki hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa hverju sinni.
Öryggisbúnaður dráttarvéla
Öryggisbúnaður dráttarvéla
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeim tilmælum til eigenda/umráðamanna vinnu- og dráttarvéla að huga ávallt að öryggisbúnaði þeirra. Til þess að auka öryggi er æskilegt að útbúa slíkar vélar með öruggum sætum með háu baki. Öryggisbelti eru að mati nefndarinnar einnig nauðsynleg í hverju því ökutæki sem ekið er um skráða vegi landsins. Ekki er skylda að hafa varúðarljósker á dráttarvélum eða vinnuvélum. Þau eru hins vegar leyfð og mega vera á dráttarvél og vinnuvél sem fylgir ekki umferðarhraða og má hafa þau blikkandi á meðan þær eru í akstri á milli staða. Hafa má eitt eða fleiri varúðarljós á hverri vél og þurfa þau ekki sérstaka viðurkenningu. Glitaugu og útlínuborðar með endurskini eru ódýr og örugg aðferð til að vekja athygli á ökutæki, hvort sem það er kyrrstætt eða á hreyfingu á eða í námunda við veg. Á það sérstaklega við um í myrki. Gæta þarf að því að merkingar séu leyfilegar á ökutækinu og þeim rétt komið fyrir.
Akstur og lyfjameðferð – ábending til vegfarenda
Akstur og lyfjameðferð – ábending til vegfarenda
Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir þeim á sem eru í læknismeðferð á slævandi lyfjum að fylgja leiðbeiningum í fylgiseðli þegar þar kemur fram að ekki skuli aka bifreið við notkun lyfsins. Slævandi lyf geta meðal annars valdið tapi á einbeitingu eða stjórnun vöðva, minnisleysi, sundli, svefnhöfga eða aðsvifi.
Lyfjaávísun slævandi lyfja – ábending til lækna
Lyfjaávísun slævandi lyfja – ábending til lækna
Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma á framfæri við lækna sem ávísa slævandi lyfjum til skjólstæðinga sinna að leggja ávallt mat á hvort viðkomandi verði fær um að keyra vélknúið ökutæki á öruggan hátt og þá hvenær slíkt er óhætt eftir töku lyfsins. Huga þarf að leiðbeiningum með lyfjum og skýra vel fyrir skjólstæðingum, hvort akstur sé óráðlegur jafnvel þó akstur kunni að vera heimill á meðan meðferð stendur. Einnig þarf að huga að helmingunartíma lyfja sem ávísað er. Langur helmingunartími lyfja, yfir 10 tíma, fer iðulega ekki saman með akstri ökutækja á meðan lyf með styttri helmingunartíma geta mögulega farið saman með akstri. Vísað er á grein í Læknablaðinu frá 2018 um akstur undir áhrifum slævandi lyfja og upplýsingar sem þar koma fram um reglur í Noregi og Danmörku. https://www.laeknabladid.is/tolublod/2018/09/nr/6827
Akstur í hálku og glerhálku
Hálka og glerhálka
Hálka getur myndast á vegi á nokkra mismunandi máta. Daginn sem slysið við Skaftafell varð hafði hitastig verið lækkandi og komið í 3°C um það leyti sem áreksturinn varð. Ísing myndast oft á blautum vegum þegar smám saman frystir. Ísing sem þessi getur líkst blautum vegi, en myndar spegilslétta og nær ósýnilega þekju á yfirborðinu og því getur verið erfitt fyrir ökumenn að átta sig á aðstæðum. Slíkur ís á vegum er oft kallaður glerhálka eða glæra.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur ökumenn til þess að vera vakandi fyrir hálku og við hvaða aðstæður hún myndast helst. Ökumenn ættu að vera sérstaklega á varðbergi þegar lofthiti er undir 4°C og vegur virðist blautur. Hægt er að finna upplýsingar um færð og veður, veðurviðvaranir og fleiri upplýsingar þess efnis[1], horfa á myndband um ísingu og hálku[2] sem og hvernig bera má kennsl á hálku[3] á heimasíðu Samgöngustofu.
Frekari upplýsingar um vetrarakstur er að finna á síðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda[4].
[1] Ferðast í vondu veðri, miklum vindi eða slæmri færð