Tillögur í öryggisátt

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Bætt öryggi vegfarenda við listaverk á hafnarsvæði

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
Staða máls: Opin
22.02.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að greina og útfæra breytingar til að tryggja öryggi vegfarenda á svæðinu við listaverkið eggin við Víkurland.

Blandað er saman umferð ferðamanna og þungrar atvinnustarfsemi án varanlegrar aðgreiningar með tilliti til umferðaröryggis á svæðinu við listaverkið. Um Víkurland er talsverð umferð, bæði atvinnutækja sem og annarra ökutækja en samkvæmt talningu Vegargerðarinnar var ársdagsumferð á milli hafnarsvæða á Djúpavogi 430 ökutæki árið 2022. Umferð ferðamanna um svæðið hefur aukist mikið undanfarin ár, sérstaklega með komu skemmtiferðaskipa og telur nefndin því mikilvægt að greina og útfæra varanlegar breytingar á svæðinu annars vegar að teknu tilliti til umferðar gangandi vegfarenda og hins vegar að teknu tilliti til umferðar ökutækja.

Afgreiðsla

Breytingar á skipulagi sveitarfélagsins

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
Staða máls: Opin
22.02.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að vinna að breytingum á skipulagi fyrir hafnarsvæðið, þar sem slysið varð, meðal annars til að tryggja umferðaröryggi gangandi vegfarenda.  

Ekki voru gerðar breytingar á skipulagsáætlunum fyrir svæðið þar sem slysið varð áður en listaverk var sett upp, en gera mátti ráð fyrir að listaverkið drægi að sér nokkurn fjölda vegfarenda.

Afgreiðsla

Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga

Umferð
Nr. máls: 2022-044U007
Staða máls: Opin
22.02.2024

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sameinað sveitafélag.

Ekki hefur verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir Djúpavog sem þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins Múlaþings. Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Helstu ástæður fyrir gerð slíkra áætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Þar geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka, umferðarmagn, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna t.d. þar sem óvarðir vegfarendur fara um[1].

 

[1] Hörður Bjarnason, Rúna Ásmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson, 2010, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Leiðbeiningar. Mannvit, Samgöngustofa og Vegagerðin.

Afgreiðsla

Áhættumat og öryggisáætlun f. Framhaldsskólann á Laugum

Umferð
Nr. máls: 2022-008U001
Staða máls: Lokuð
28.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru öryggisáætlanir mikilvægt verkfæri til að sporna gegn slysum. Beinir nefndin þeirri tillögu til stjórnenda Framhaldsskólans á Laugum að framkvæma áhættumat og öryggisáætlun fyrir starfsemi skólans.

Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er atvinnurekanda gert skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað en skólar eru vinnustaðir nemenda samkvæmt lögum um grunn- og framhaldsskóla. Í því felst m.a. gerð áhættumats. Samkvæmt 41. grein laganna er vinnustaður umhverfi innan- eða utanhúss, þar sem starfsmaður/nemandi hefst við eða þarf að fara um. Með áhættumati eru áhættur sem fylgja viðkomandi starfsemi kortlagðar. Framkvæmd er greining og mat á vinnuumhverfinu með tilliti til öryggis, vellíðunar og heilsu starfsmanna/nemenda ásamt samantekt á niðurstöðum áhættumatsins. Áhættuþættir eru dregnir fram og metnar líkur á að starfsmaður/nemandi verði fyrir heilsutjóni eða slysi á vinnustað. Áhættumatið er kerfisbundin greining á öllum þáttum vinnuumhverfisins og flokkun áhættuþátta með tilliti til alvarleika fyrir fólk á vinnustaðnum. Áhættumat leggur þannig grunn að markvissum aðgerðum sem lágmarka áhættur á sem hagkvæmastan hátt. Slíkt áhættumat getur til dæmis snúið að hættum í umhverfi vinnustaða eins og skóla þegar vinnuaðstaða þeirra er einnig utanhúss og snýr að hjólum og snjóþotum á skólalóðinni og hættum sem geta skapast af þeim og nánasta umhverfi þeirra eins og akstri ökutækja í grennd við skóla.

Afgreiðsla

Í svari frá skólastjórnendum Framhaldsskólans á Laugum þann 28. nóvember 2023 kom fram að lokið hefur verið við áætlun skólans um öryggi og heilbrigði í samræmi við tillögu Rannsóknarnefndar.  Þá kom einnig fram að skólastjórnendur eru langt komnir með greiningu á áhættu og áfallaþoli, sem verður skilað að fullu fyrir áramót.

Umferðaröryggisáætlun sveitarfélaga

Umferð
Nr. máls: 2022-008U001
Staða máls: Opin
28.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Undanfarin ár hafa sveitarfélög verið sérstaklega hvött til að gera áætlun um umferðaröryggi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið.

Ekki hefur verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið Þingeyjarsveit. Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Helstu markmið umferðaröryggisáætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda. Í umferðaröryggisáætlun geta m.a. komið fram upplýsingar um uppbyggingu vegakerfis sveitarfélagsins og vegflokka (eða hraðaflokka), umferðarmagn, yfirborðsmerkingar, samsetningu umferðar og hraða. Auk þess kortlagning stígakerfa, skólaleiða og almenningssamgangna[1]. Mörg bæjarfélög hafa unnið markvisst að uppbyggingu 30 km/klst hverfa undanfarin ár í samræmi við umferðaröryggisáætlanir. Lækkun hámarkshraða, meðal annars í nánd við skóla, samræmist gerð umferðaröryggisáætlana sem unnar eru með því markmiði að bæta umferðaröryggi í sveitafélögum.

[1] Hörður Bjarnason, Rúna Ásmundsdóttir og Þorsteinn R. Hermannsson, 2010, Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Leiðbeiningar. Mannsvit, Samgöngustofa og Vegagerðin.

Afgreiðsla

Forvarnir um svefn og þreytu hjá ökumönnum

Umferð
Nr. máls: 2022-043U006
Staða máls: Opin
24.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að leggja áherslu á forvarnir vegna svefns og þreytu ökumanna.

Ökumaður bifreiðarinnar í þessu slysi kom til landsins með flugi aðfararnótt 15. júní og slysið varð um miðjan dag þann 16. júní. Tímamismunur og næturflug gerir það að verkum að margir farþegar eru þreyttir við komuna til landsins og áfram næstu daga, ef ekki næst nægjanleg hvíld.

Upplýsingar er varða almennt um þau áhrif og þær hættur sem þreyttir ökumenn skapa í umferðinni eru mikilvægar og geta um leið sýnt hvernig er hægt að bregðast við slíkri þreytu. Í rannsóknum hefur komið fram að þreyttir ökumenn geta verið jafn hættulegir og ölvaðir ökumenn í umferðinni. Evrópska umferðaröryggisráðið hefur staðfest að svefnleysi og þreyta sé veigamikill orsakaþáttur í minnst fimmta hverju umferðaslysi.

Afgreiðsla

Heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir

Umferð
Nr. máls: 2022-043U006
Staða máls: Opin
24.11.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að vinna að heildaráætlun um samræmingu vegflokka við vegtegundir á vegakerfi landsins. Einnig að endurskoða/yfirfara verklag og kostnaðarlíkön við ákvarðanir á gerð slitlags á vegi nr. 1 meðal annars að teknu tilliti til möguleika á fræsun riffla og áhrifa þeirra á umferðaröryggi.

Vegflokkar eru fjórir, stofnvegir, tengivegir, héraðsvegir og landsvegir. Vegtegundir eru A, B, C og D. Á slysstað er vegflokkurinn stofnvegur og hluti hringvegar um landið en breidd slitlags féll undir vegtegund C7 þar sem slitlag var 6 metrar á breidd. Vegtegund C7 skal ekki nota sem stofnvegi en nokkuð er um eldri vegi sem ekki falla að núgildandi hönnunarreglum Vegagerðarinnar. Umferðarrýmd C7 vegtegunda er ÁDU ≤ 500 ökutæki á sólarhring en á hringvegi nr. 1 er ÁDU > 501 ökutæki á sólarhring nema á stöku stað á Austfjörðum. Þar sem klæðning er notuð sem bundið slitlag er ekki hægt að fræsa rifflur í vegi. Síðastliðin 10 ár hefur álagið á stofnvegum landsins aukist talsvert, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna, sem huga þarf að við val á tegund af bundnu slitlagi.

Afgreiðsla

Endurskoðun umferðarlaga

Umferð
Nr. máls: 2021-112U015
Staða máls: Lokuð
22.06.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Innviðaráðuneytis að stuðla að skjótri meðferð lagabreytinga á umferðarlögum sem snúa að bættu öryggi smáfarartækja í umferðinni.

Í febrúar 2023 mælti innviðaráherra fyrir frumvarpi, á Alþingi, til breytinga á umferðarlögum nr. 77/2019, m.a. fyrir breytingatillögum um smáfarartæki og öryggi þeirra. Að mati nefndarinnar er ákvæðum núverandi laga um þessi farartæki ábótavant og kallar mikil notkun þeirra í umferðinni og fjöldi slysa á endurskoðun laganna. Norðmenn hafa sem dæmi sett sér framsækna löggjöf á þessu sviði sem vert er að kanna með tilliti til íslenskra aðstæðna.

Rafhlaupahjól falla samkvæmt núgildandi umferðarlögum undir skilgreiningu um reiðhjól, sem lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til létts bifhjóls, og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km/klst upp í 25 km/klst. Skýra þarf kröfur til þessara smáfarartækja og kveða sérstaklega á um þau í umferðarlögum. Í skýrslu verkefnishóps um smáfarartæki frá júní 2022 var hvatt til innleiðingar á nýjum ökutækjaflokki smáfarartækja. Í skýrslu um rannsóknarverkefni VSÓ um rafskútur og umferðaröryggi útgefin í maí 2021 er einnig fjallað um öryggi smáfarartækja.

Á Íslandi eru seld rafhlaupahjól sem eru hönnuð til að aka hraðar en 25 km/klst. Setja þarf í lög ákvæði um að óheimilt sé að aftengja hraðatakmarka eða breyta þeim á smáfarartækjum og léttum bifhjólum í flokki I sem hér eru í umferð, þannig að mögulegur hámarkshraði þeirra með vélarafli verði meiri en 25 km/klst. Einnig að óheimilt sé að nota slík hraðabreytt smáfarartæki og létt bifhjól í almennri umferð.

Í umferðarlögum nr. 77/2019 með síðari breytingum er ekki kveðið á um það, með skýrum hætti, hvort hraðatakmarkanir gildi, hvort sem er í þétt- eða dreifbýli, á gangstéttum, göngu- og hjólastígum. Merkingar um heimilaðan ökuhraða þurfa að vera skýrar.

Fjölgun í hópi látinna og alvarlegra slasaðra gangandi og hjólandi

Sumarið 2020 komu að meðaltali 1,6 einstaklingar á dag á bráðamóttöku Landspítala með meiðsl eftir slys á rafhlaupahjóli samkvæmt rannsókn sem unnin var á bráðamóttöku Landspítala. Samkvæmt skýrslum Gallup frá 2020 og 2022 um notkun rafhlaupahjóla í Reykjavík jókst hlutfall svarenda, sem sögðust nota slík tæki til einhverra ferða, úr 19% í rúm 35%. Í rannsókn bráðamóttökunnar 2020 voru beinbrot 38% meiðsla sem snéru að útlimum og andliti. Eru þá ótalin öll slys á rafhlaupahjólum sem ekki er tilkynnt um og koma ekki til kasta bráðamóttökunnar. RNSA telur sennilegt að slysahætta hafi skapast hjá nýjum notendahópi með tilkomu rafhlaupahjóla en fjölgun hefur orðið í hópi látinna og alvarlega slasaðra vegfarenda á reiðhjólum og rafmagnshjólum frá 2021 (sjá mynd 11 í skýrslunni).

Þessi aukning, sem hófst árið 2020, er áberandi hjá hópi notenda á rafhlaupahjólum en mikið stökk varð í þeim hópi árið 2021. Áframhaldandi aukning varð í þessum hópi árið 2022. Af þessu má ráða að þetta sé aukning slasaðra í nýjum hópi sem var ekki var fyrir hendi fyrr en 2020 en ekki hefur dregið úr fjölda slasaðra í öðrum hópum hjólandi vegfarenda við þessa fjölgun slasaðra í hópi notenda rafhlaupahjóla.

Mynd 11 í skýrslunni sýnir fjölda alvarlega slasaðra á reiðhjólum og öðrum farartækjum með rafmótor. Gögnin takmarkast við fyrstu níu mánuði áranna frá 2011 til og með 2022.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 10. júlí 2023 er nefndinni tilkynnt að Innviðaráðuneytið taki undir það sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar að ákvæði núgildandi umferðarlaga er varða smáfarartæki og öryggi þeirra sé ábótavant og að mikil notkun þeirra og fjölda slysa kalli á endurskoðun laganna hvað þau varðar. Einnig kemur fram í bréfi ráðuneytisins að efni frumvarps um breytingu á umferðarlögum, sem ráðherra mælti fyrir í febrúar 2023 og varðar smáfarartæki, verði endurflutt. Áður en þar að kemur verði lagt mat á það hvort fengin reynsla gefur tilefni til breytinga og verður meðal annars, líkt og nefndin leggur til, litið til löggjafar í Noregi.

Með frumvarpinu verður, til samræmis við tillögur nefndarinnar, lagt til að innleiddur verði í umferðarlög nýr flokkur smáfarartækja þar sem tekið er mið af sérkennum og notkun þeirra. Einnig verður í samræmi við tillögur nefndarinnar kveðið á með skýrum hætti um að óheimilt sé að aftengja hraðatakmarkara eða að breyta hámarkshraða smáfarartækis eða létts bifhjóls í flokki I svo að mögulegur hámarkshraði undir vélarafli verði umfram 25 km á klst. og að eftir slíka breytingu verði óheimilt að nota ökutækið í almennri umferð.

Þá kemur einnig fram að ráðuneytið muni, í ljósi athugasemda nefndarinnar varðandi skort á skýrleika hvað varðar gildi hraðatakmörkunar á gangstéttum og göngu- og hjólastígum, taka til skoðunar hvort rétt sé að breytingar verði gerðar á ákvæðum umferðarlaga þar af leiðandi.

Öryggisúttekt

Umferð
Nr. máls: 2021-112U015
Staða máls: Opin
22.06.2023

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Reykjavíkurborgar að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna þar að úrbótum til að auka umferðaröryggi á hjóla- og göngustígnum við Sæbraut með áherslu á lýsingu.

Lýsing á slysstað uppfyllti kröfur sem giltu þegar stígurinn var hannaður 1999 en uppfyllir ekki núverandi kröfur. Birtukröfur í stöðlum hafa ekki breyst en þarfir og túlkun þeirra hefur þróast með tilkomu díóðulampa og með aukinni umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.

Nefndin leggur til að veghaldari skoði við fyrirhugaðar breytingar á veglýsingu á Sæbraut, díóðulýsingu í stað natríumlýsingar, áhrif þeirra á lýsingu á Mánastíg en tryggja þarf góða birtu og sjónlengdir miðað við umferðarhraða allra vegfarenda.

Afgreiðsla

Í bréfi dagsettu 12. maí 2023 er Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilkynnt að tekið sé undir mikilvægi þess að stofnstígar séu vel upplýstir, og að bætt lýsing sé jákvæð fyrir notkun og öryggi stígsins. Í dag nýtur stígurinn, á þeim stað sem slysið varð, lýsingar frá Sæbraut. Þegar núverandi lýsingu verður skipt út fyrir led-/díóðulýsingu, þá mun lýsing á stígnum versna. Því er gert ráð fyrir að komið verði fyrir sérstakri stíglýsingu. Slík framkvæmd er ekki tímasett en gæti orðið samhliða fyrirhugaðri endurgerð sjóvarnargarða meðfram ströndinni.

Í nóvember 2023 var gefin út skýrsla á vegum Reykjavíkurborgar um umferðaröryggisrýni á slysstað. Helstu niðurstöður voru þær að hjólastígurinn uppfylli viðmið samkvæmt hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar. Lýsing meðfram stígnum uppfyllir hinsvegar ekki núgildandi viðmið Reykjavíkurborgar um stíglýsingu. Rýnar skýrslunnar telja að mikilvægt sé að koma upp sér stígalýsingu þar sem mikill munur var á upplifun á aðstæðum á stígnum í myrkri og birtu.

Eftirlit með þrýstigeymum

Umferð
Nr. máls: 2023-018U004
Staða máls: Lokuð
13.04.2023

Tillaga í öryggisátt

RNSA beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara skoðunarhandbók ökutækja og verklag á skoðunarstofum við skoðun á þrýstigeymum ökutækja.  Jafnframt að upplýsa eigendur slíkra ökutækja um þessa hættu.

Að mati RNSA er hér um að ræða mikilvæga öryggisráðstöfun því ekki er hægt að útiloka að í umferð séu bifreiðar með þrýstigeyma sem eru orðnir tærðir þannig að hætta sé á samskonar sprengingu. Af þeim sökum er mikilvægt að yfirfara reglulega eldsneytiskerfi allra bifreiða sem búnar eru þrýstigeymum og skipta um búnað sem er úr sér genginn.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru 2.267 ökutæki í umferð sem skráð eru með metan sem orkugjafa í ökutækjaskrá. Að mati RNSA er mikilvægt, að allir eigendur ökutækja sem búin eru  metanþrýstigeymum verði upplýstir um þessa hættu.

Afgreiðsla

Samgöngustofa hefur brugðist við tillögu RNSA í öryggisátt:

Að yfirfara skoðunarhandbók ökutækja gagnvart þrýstigeymum ökutækja.

Ný skoðunarhandbók tók gildi þann 1. mars 2023. Í henni eru gerðar strangari kröfur til dæminga þegar upp koma frávik er varða þrýstigeyma í ökutækjum. Breytingin er að nú er dæmt í 1 þegar frágangur er ófullnægjandi og hætta er á skemmdum (en engar skemmdir orðnar ennþá), annars dæmt í 2 á ýmis frávik og dæmt í 3 (notkun bönnuð) ef styrkleikaskemmdir sjást á geymi, gildistími þrýstigeyma er útrunninn (eða upplýsingar vantar eða ófullnægjandi) eða viðurkenningarmerkingar vantar eða ófullnægjandi. Samgöngustofa yfirfór þessar dæmingar í tilefni af þessu atviki og telur að hin nýja handbók taki með fullnægjandi hætti á skoðun og dæmingum þeirra.

Að yfirfara verklag skoðana á skoðunarstofum gagnvart þrýstigeymum ökutækja

Í kjölfar sprengingarinnar bjó Samgöngustofa til öryggistilkynningu inn í sérstakan kafla í skoðunarhandbók ökutækja. Samgöngustofa hélt einnig fund með tæknilegum stjórnendum skoðunarstöðva til að fara yfir málið. Samgöngustofa óskaði þar sérstaklega eftir því að skoðunarstöðvar pössuðu vel upp á skoðun þrýstigeyma og myndu árétta verklagið við sína skoðunarmenn.

Að upplýsa eigendur ökutækja sem útbúnir eru með þrýstigeyma um þessa hættu

Samgöngustofa birti frétt á heimasíðu stofnunarinnar fljótlega eftir atvikið og var henni einnig deilt sem fréttatilkynningu til fréttamiðla. Samgöngustofa er að ljúka þróun rafrænnar leiðar til að senda eigendum ökutækja skilaboð og mun nýta þá leið til að koma beinum boðum til þeirra þegar hún kemst í gagnið.