Tillögur í öryggisátt Síða 6

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Skert útsýn vegna trjáa

Umferð
Nr. máls: 2017-059U005
Staða máls: Lokuð
11.03.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til veghaldara að gera úrbætur til að bæta vegsýn á slysstað. Einnig bendir nefndin á að víða er að finna sambærilega aðstæður við vegi sem brýnt er að lagfæra.

Trén sem næst standa við þjóðvegin við slysstaðinn eru um 5 metrum frá vegbrún. Líklegt er að ökumennirnir í þessu slysi hafi aðeins verið í augsýn hvors annars í um 2 sekúndur. Í veghönnunarreglum Vegagerðarinnar er lágmarksbreidd öryggissvæðis 7 metrar fyrir veg sem 301 til 3000 ökutæki fara um á sólarhring (ÁDU) og með hönnunarhraða upp á 90 km/klst. Í 32. gr. Vegalaga nr. 80/2007 með síðari breytingum er þess getið að veghelgunarsvæði er 15 metrar til beggja hliða frá miðlínu fyrir tengivegi. Umræddur vegur er flokkaður sem tengivegur. Eins er í sömu grein tilgreint veghelgunarsvæði vegamóta 40 metrar frá skurðpunkti miðlína veganna. Óheimilt er að staðsetja byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði og önnur mannvirk, föst eða laus án leyfis veghaldara innan veghelgunarsvæðis. Vandamál sem skapast vegna trjáa sem standa nærri vegum eru margþætt, m.a. byrgja þau sýn og valda hættu ef ökumaður missir stjórn og fer út af vegi.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Vegagerðarinnar til nefndarinnar kemur fram að yfirstjórn hennar hefur beint þessari tillögu til yfirmanna svæða Vegagerðarinnar. 

Hjálmanotkun reiðhjólamanna

Umferð
Nr. máls: 2017-058U004
Staða máls: Opin
11.09.2018

Tillaga í öryggisátt

Um það bil 70 til 75% banaslysa hjólreiðamanna eru af völdum höfuðáverka[1]. Höfuðáverkar eru algeng ástæða fyrir örorku sem leggur mikið á hinn slasaða og hans nánustu sem og samfélagið í heild. Í nýlegri viðamikilli samanburðarrannsókn á niðurstöðum fjölda rannsókna frá mörgum löndum á áhrifum hjálma á höfuðmeiðsli í reiðhjólaslysum kemur í ljós að hlutfall þeirra sem urðu fyrir höfuðmeiðslum var að meðaltali helmingi minna meðal þeirra sem voru með hjálm en hjá þeim sem voru án hjálms. Öryggisáhrif hjálma mælast meiri fyrir alvarleg höfuðmeiðsl. Hlutfall þeirra sem urðu fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum, þ.m.t. banaslysum, var að meðaltali 69% lægra meðal þeirra sem voru með hjálm en þeirra sem ekki voru með hjálm[2]. Í þessu slysi hlaut hjólreiðamaðurinn banvæna höfuðáverka. Hann var ekki með hjálm.

Reiðhjólahjálmar veita vernd gegn höfuðáverkum og hvetur Rannsóknarnefnd samgönguslysa reiðhjólamenn til að nota ávallt viðurkennda reiðhjólahjálma við hjólreiðar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglur með tilliti til hjálmaskyldu fyrir allt hjólreiðafólk.

 

[1] WHO, 2006: „Helmets: A road safety manual for decision-makers and practitioners“ Geneva, Sviss.
NHTSA, 2008: „Traffic Safety Facts: Bicycle Helmet Use Laws“  Washington, D.C., National Highway Traffic Safety Administration, 2008 (DOT HS-810-886W).
[2] Olivier, Creighton, 2017: „Bicycle injuries and helmet use: a systematic review and meta-analysis.“ International Journal of Epidemiology, Volume 46, Issue 1. Oxford University Press.

Afgreiðsla

Yfirlýsing um líkamlegt og andlegt heilbrigði

Umferð
Nr. máls: 2017-011U02
Staða máls: Opin
27.03.2020

Tillaga í öryggisátt

Yfirlýsing um líkamlegt og andlegt heilbrigði


Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu í öryggisátt til Samgöngustofu að breytingar verði gerðar á reglugerð um ökuskírteini um að umsækjandi undirriti yfirlýsingu um heilsufar sitt hvort sem læknisvottorði er framvísað eða ekki.


Við rannsókn málsins komu gögn fyrir nefndina sem benda til þess að verulegur vafi leiki á að ökumaður Land Cruiser bifreiðarinnar hafi uppfyllt kröfur um heilsufar sem fram koma í III. viðauka reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum. Þegar sótt er um ökuréttindi eða endurnýjun þeirra hjá þeim sem eru 65 ára eða eldri skal umsækjandi framvísa læknisvottorði með umsókn sinni. Yngri umsækjendur um B-ökuréttindi þurfa að jafnaði að fylla út yfirlýsingu um líkamlegt og andlegt heilbrigði en geta í undantekningartilfellum þurft að framvísa læknisvottorði.


Umsækjendur geta valið að skila læknisvottorði í stað heilbrigðisyfirlýsingar. Spurningar sem koma fram í heilbrigðisyfirlýsingu umsækjenda eru ítarlegri en spurningar í því læknisvottorði sem notast er við í dag og hefur nefndin bent á nauðsyn þess að læknisvottorðið verði betrumbætt.


Nefndin telur eðlilegt að einstaklingar fylli ávallt út eigin heilbrigðisyfirlýsingu þegar sótt er um ökuréttindi eða endurnýjun þeirra og sé læknisvottorðs krafist sé slíkt vottorð viðbót við yfirlýsinguna en komi aldrei í staðinn fyrir hana.

Afgreiðsla

Breytingar á umferðarlögum m.t.t. öryggisbúnaðar barna

Umferð
Nr. máls: 2016-U071U16
Staða máls: Opin
02.09.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða viðeigandi ákvæði* umferðarlaga með því markmiði að afnema undanþágu um lægra hæðarviðmið vegna sérstaks öryggisbúnaðar fyrir börn í bifreiðum.

  • *71 gr. laga nr. 50/1987 með síðari breytingum (núgildandi umferðarlög).
  • *77. gr laga nr. 77/2019 (umferðarlög með gildistöku þann 1. janúar 2020).

Afgreiðsla

Akstur við erfiðar aðstæður

Umferð
Nr. máls: 2016-150U27
Staða máls: Opin
28.03.2018

Tillaga í öryggisátt

Á undanförnum árum hefur ökunám tekið miklum breytingum. Ökunámið hefur lengst og ýmsar nýungar verið teknar upp, s.s. æfingarakstur og námskeið í ökuskóla. Alls eru námskeiðin í ökuskóla orðin þrjú. Þriðja námskeiðið í ökuskóla fer fram í ökugerði, helst undir lok námsins. Þar fá nemendur að kynnast hættulegum akstursskilyrðum, hvernig aksturseiginleikar breytast þegar veggrip minnkar og hvernig á að forðast að bifreið fari að skríða til.

 

Í 11. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011 er umsækjendum um almenn ökuréttindi (B- flokk) gert skylt að sækja fyrrnefnt námskeið áður en ökuprófi er lokið. Hins vegar hefur uppbygging á ökugerðum tafist  fyrir æfingarbrautir á Austurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Ökunemar, búsettir á þessum svæðum, fá af þeim sökum undanþágu frá því að taka ökuskóla þrjú áður en þeir fá bráðabirgðaskírteini. Þeir þurfa hins vegar að ljúka námskeiðinu áður en þeir fá fullnaðarskírteini afhent. Ökumaðurinn í því slysi sem hér er fjallað um hafði ekki lokið ökuskóla þrjú.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að fella endanlega niður ákvæði til bráðabirgða um undanþágu frá þjálfun í ökugerði í reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011 með síðari breytingum.

 

 

Afgreiðsla

RNSA barst svar frá Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu með bréfi dagsett 31. ágúst 2018.

Þar kom m.a. fram að stefnt væri að framlagningu grumvarps um heildarendurskoðun umferðarlaga þar sem nánari ákvæðum um þjálfun í ökugerði verði bætti við umferðarlög. Þá yrði gert ráð fyrir því að ráðherra setji nánari akvæði í reglugerð í kjölfarið.

 

RNSA sendi svarbréf til ráðuneytisins dagsett þann 4. október 2018

Í svari RNSA kom fram að nefndin teldi svar ráðuneytisins ekki fullnægjandi þar sem viðbrögð ráðuneytisins væru háð samþykkt umferðarlaga sem háð væri óvissu og ekki lægi fyrir hvernig ráðuneytis hyggðist útfæra kröfu um þjálfun í ökugerði yrðu lögin samþykkt

Stofnun fagráðs um ökuréttindi

Umferð
Nr. máls: 2016-149U026
Staða máls: Lokuð
04.02.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa gerir þá tillögu í öryggisátt til Sýslumannaráðs að skipaður verði starfshópur eða fagráð um ökuréttindamál þar sem m.a. verði skoðað verklag við afturköllun ökuréttinda, samræma vinnubrögð og skráningu ef það á við og koma með tillögur til úrbóta eftir atvikum.

 

 

Afgreiðsla

Í svarbréfi sem nefndinni barst þann 26. febrúar 2019 var nefndinni tilkynnt um að Sýslumannaráð hafði tilnefnd í fagráð um ökuréttindamál. 

Vinna við útgáfu eyðublaðs um veitingu og endurnýjun ökuréttinda

Umferð
Nr. máls: 2016-149U026
Staða máls: Opin
04.02.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að gera viðeigandi ráðstafanir svo hægt sé að ljúka vinnu við nýtt eyðublað fyrir veitingu og endurnýjun ökuréttinda sem fyrst.

Afgreiðsla

Aðgreining akstursátta

Umferð
Nr. máls: 2016-148U025
Staða máls: Lokuð
31.01.2018

Tillaga í öryggisátt

Búið er að aðgreina akstursáttir að mestu á Vesturlandsvegi frá Ártúnsbrekku að Þingvallavegi. Einstaka vegkaflar á þessari leið eru þó ennþá með óaðgreindar akstursáttir þar á meðal vegkaflinn þar sem slysið átti sér stað. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við veghaldara að aðgreina akstursáttir á Vesturlandsvegi á þessum stað.

Afgreiðsla

Í bréfi dags. 26. febrúar frá veghaldara kemur fram að veghaldari hafi lagt til að breikkun á vegkafla sem um ræðir og aðgreiningu akstursstefna hefjist  á tímabili þeirrar fjögurra ára samgönguáætlunar sem nú er í undirbúningi.

Aðgreining akstursátta (1)

Umferð
Nr. máls: 2016-129U020
Staða máls: Lokuð
20.11.2018

Tillaga í öryggisátt

Aðgreining akstursátta
Búið er að aðgreina akstursáttir á Reykjanesbraut frá Brunnhól vestan við Straumsvík að Hafnavegi. Kaflinn frá Hafnavegi að Rósaselstorgi er einbreiður og var umferð árið 2016 rúmlega 12 þúsund ökutæki á sólarhring, 2017 var umferð komin yfir 14 þúsund ökutæki á sólarhring. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er brýnt að aðgreina akstursáttir á Reykjanesbrautað fullu til að forða því að sambærileg slys verði. Leggur nefndin til við veghaldara að aðgreina akstursáttir á Reykjanesbraut.

Afgreiðsla

RNSA barst svar Vegagerðarinnar. Í svarinu kemur fram að Vegagerðin hafi gert ýmsar breytingar til að bæta umferðaröryggi á kaflanum milli Reykjanesbæjar og Rósaselstorgs. Byggð hafa verið tvö hringtorg, annars vegar við Keflavíkurveg og hins vegar við Aðalgötu. Einnig hafi hraði verið tekinn niður í 70 km/klst síðla árs 2015. Vegagerðin tekur undir með nefndinni með nauðsyn þess að aðgreina akstursáttir en hversu fljótt verður hægt að ráðast í þær framkvæmdir ráðist af fjárveitingum. 

Könnun á styrkleika á stýrisbúnaði

Umferð
Nr. máls: 2016-071U016
Staða máls: Lokuð
02.09.2019

Tillaga í öryggisátt

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til framleiðanda að gera viðeigandi ráðstafanir til að rannsaka hvort steypugalli geti verið í stýri sambærilegra bifreiða og grípa til viðeigandi ráðstafana ef sá möguleiki er fyrir hendi.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til umboðsaðila Nissan á Íslandi að upplýsa framleiðanda um tillögur nefndarinnar.

Afgreiðsla

Framleiðandi tók stýrið til rannsóknar og niðurstaða hennar er að dökkir fletir sem greindust í brotinu séu einhverskonar mengun eða aðskotaefni af lífrænum toga en ekki hluti málms með hærra súrefnisinnihaldi. 

Frekari rannsókna yrði þörf til þess að útiloka algjörlega málmsteypugalla.