Tillögur í öryggisátt

35. gr. lagaum RNSA - Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega. Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið

Skeiðavegur við Brautarholt 25.3.2013

Umferð
Nr. máls: 2013 – U004
Staða máls: Lokuð
10.03.2014

Tillaga í öryggisátt

Akstur vinnuvéla með ámoksturstæki á vegum opnum almennri umferð. Engar öryggisreglur eru í gildi hér á landi um akstur vinnuvéla með áföstum ámoksturstækjum á vegum eða götum opnum fyrir almennri umferð. Áhersla er lögð á öryggismál í hönnun og smíði bifreiða með tilliti til áreksturs, útafaksturs og veltu. Einn mikilvægasti þátturinn í þessum tilvikum er talinn vera að koma í veg fyrir að aflögun verði inn í farþegarými bifreiðanna. Við hönnun bifreiða er gengið út frá því að mesta höggið í árekstrum komi í stuðarahæð sem er að öllu jöfnu bilinu 30 til 60 cm frá jörðu og flestar bifreiðar hannaðar til að taka á móti höggi í þeirri hæð. Til að mynda er skylt að vera með framvörn á vörubifreiðum í að hámarki 400 eða 445 mm frá vegi eftir þyngd bifreiðanna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er það mjög brýnt að settar verði reglur sem varna því að akstur með ámoksturstæki geti valdi slysi sem þessu. Við skoðun varnaðarreglna ber að líta til þess að ámoksturstækin eru augljóslega hættuleg öðrum vegfarendum og að þau skerða útsýn ökumanna vegna umfangs tækjanna. Nefndin beinir þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að vinna að setningu reglna hér að lútandi og beinir því jafnframt til Vinnueftirlitsins að það fjalli sérstaklega um hættu sem öðrum vegfarendum stafar af akstri véla með ámoksturstækjum í kennsluefni á vinnuvélanámskeiðum.

Afgreiðsla

Svar barst frá Vinnueftirlitinu 14. apríl 2014 þar sem Vinnueftirlitið tilkynnir RNSA að kennsluefni í vinnuvélanámskeiðum verði yfirfarið og bætt ef þörf sé á. Í bréfinu er tilgreint að ætíð hafi verið kennt að aka skuli tækjum eins og dráttarvélum eða lyfturum með ámoksturstækjum eða lyftigöflum sem næst jörðu.

Skeiðavegur við Brautarholt 25.3.2013 (2)

Umferð
Nr. máls: 2013 – U004
Staða máls: Lokuð
10.03.2014

Tillaga í öryggisátt

Í Brautarholti er byggðakjarni og sundlaug opin almenningi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til að gerð verði séstök öryggisúttekt á gatnamótunum. Árdagsumferð á Skeiðavegi er tæplega 1000 ökutæki og liggur vegurinn jafnframt í beygju sunnan við Brautarholt og er trjálundur rétt rúmlega 10 metra frá veginum austan megin. Vegsýn suður veginn er um 200 metrar frá vegamótunum að Brautarholti vegna trjánna. Að mati nefndarinnar er þörf á að auka umferðaröryggi á þessum stað og beinir nefndin þeirri tillögu til Vegagerðarinnar og Skeiða- og Gnúpverjahrepps að það verði gert. Nefndin leggur til að litið verði sérstaklega til hraðalækkandi aðgerða í þeim efnum.

Afgreiðsla

Svar barst frá Vegagerðinni 4. apríl 2014 þar sem Vegagerðin greinir frá að öryggisúttekt hafi verið framkvæmd á vegamótunum og gerðar verði nokkrar breytingar til að bæta umferðaröryggi á þessum stað.

Vesturlandsvegur sunnan Bifrastar 23.8.2013

Umferð
Nr. máls: 2013-U016
Staða máls: Opin
16.03.2015

Tillaga í öryggisátt

Breytingar á bifreiðum fyrir hreyfihamlaða. Heimilt er að aðlaga bifreiðar að þörfum hreyfihamlaða. Þegar bifreið hefur verið breytt er skylt að fara með hana í breytingarskoðun hjá faggildri skoðunarstofu þar sem breytingin er yfirfarin og tilkynnt til Samgöngustofu. Ekki er gerð krafa um að notendur fari í þjálfun í notkun á búnaðinum. Ökumaðurinn sem lést í þessu slysi notaði ekki öryggisbelti sökum þess að hefðbundin búnaður í bifreiðinni passaði ekki fyrir hann. Í reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum nr. 348/2007 með áorðnum breytingum eru tilgreindar nokkrar undanþágur frá þeirri reglu að öllum sé skylt að spenna öryggisbelti í bifreiðum sé það til staðar. Heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður geta verið þess valdandi að einstaklingur getur illa nýtt þennan mikilvæga öryggisbúnað og þarf þá læknisvottorð því til staðfestingar. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að í sumum þessara tilfella, er hægt að aðlaga búnaðinn að þörfum einstaklingsins. Það er mikilvægt að áður en ákvörðun er tekin um að sleppa því að spenna beltið sé þessi möguleiki skoðaður. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu og Landlæknis að yfirfara þær reglur sem í gildi eru bæði um undanþágu um notkun öryggisbelta sem og reglur um breytingar á bifreiðum fyrir hreyfihamlaða.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Landlæknis kemur fram að embættið telji ekki ástæðu til að gera breytingar á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum nr. 348/2007.

Vesturlandsvegur sunnan Bifrastar 23.8.2013 (1)

Umferð
Nr. máls: 2013-U016
Staða máls: Lokuð
16.03.2015

Tillaga í öryggisátt

Merking ferðamannastaða Í rannsókn sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa framkvæmdi á umferðarslysum erlendra ferðamanna á árunum 2006 til 2010 kom í ljós, að önnur algengasta orsök alvarlegra umferðarslysa þessa hóps var að athygli ökumanns var ekki við aksturinn á eftir of hröðum akstri miðað við aðstæður. Við rannsókn þessa slyss kom í ljós að erlendi ferðamaðurinn var að skoða vegakort undir stýri til að átta sig á hvar afleggjarinn að fossinum Glanna væri. Lítið skilti er við afleggjarann að fossinum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á mikilvægi þess að ferðamannastaðir séu vel merktir. Beinir nefndin því til Ferðamálastofu og Vegagerðarinnar að taka staði sem sérstaklega eru auglýstir fyrir erlenda ferðamenn til skoðunar hvað þetta atriðið varðar.

Afgreiðsla

Í svari sem barst frá Vegagerðinni kemur fram að merkingar á umræddum stað hafi verið skoðaðar sérstaklega og verið sé að huga að breytingum á þeim. Einnig mun Vegagerðin, í samráði við ferðamálastjóra, taka til athugunar hvort ástæða sé til að skoða merkingar ferðamannastaða sérstaklega.

Hellisheiði 29.12.2014

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Opin
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Nálægðarakstur Samkvæmt gögnum umferðargreinisins sem staðsettur er rétt við slysstað, óku 2130 ökutæki yfir heiðina þennan dag milli klukkan 10 og 19. Voru 104 ökutæki innan við sekúndu frá næstu bifreið fyrir framan, eða um 5 % ökutækja. Þegar öll ökutæki voru talin þar sem bil á milli bifreiðavar minna en 3 sekúndur reyndist það eiga við um þriðjung allra ökutækja. Gott er að hafa í huga að viðbragðstími ökumanns í þjóðvegarakstri, þ.e. sá tími sem liður frá því að hætta skapast þar til ökumaður hemlar og/eða beygir frá, er 1 til 2,5 sekúndur. Ökutæki á hraðanum 90 km/klst. fer 25 metra á sekúndu þannig að ökutæki á þeim hraða ekur 25 til 63 metra frá því hætta skapast þar til ökumaður byrjar að bregðast við. Af þessum sökum er mikilvægt að viðhalda góðu bili á milli ökutækja svo hægt sé að bregðast af öryggi við óvæntum hættum. Í ökukennslu er svokölluð þriggja sekúndna regla kennd, þar sem bent er á að hafa a.m.k. þriggja sekúndna bil á milli bíla og lengra ef færð er ekki góð. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Samgöngustofu að koma þessum skilaboðum á framfæri til ökumanna.

Afgreiðsla

Hellisheiði 29.12.2014 (1)

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Lokuð
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Aðgreining akstusátta. Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss er með umferðarmestu þjóðvegum utan þéttbýlis á Íslandi. Undanfarin ár hafa orðið þarna mörg alvarleg umferðarslys. Veghaldari hefur á síðast liðnum árum unnið að bættu umferðaröryggi á veginum sem hefur skilað sér í fækkun alvarlegra slysa. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut að aðgreina akstursáttir á Suðurlandsvegi til að forða því að ökutæki lendi í hörðum framanákeyrslum eins og í því slysi sem hér er fjallað um. Beinir nefndin því til veghaldara að mikilvægt er að ljúka endurbótum á veginum sem allra fyrst.

Afgreiðsla

Í svarbréfi veghaldara kemur fram að unnið sé að aðgreiningu akstursátta á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfossar og samkvæmt fyrirlyggjandi áætlun er gert rað fyrir að ljúka aðgerðum á vegkaflanum á næstu fjórum árum.

Hellisheiði 29.12.2014 (2)

Umferð
Nr. máls: 2013-U021
Staða máls: Opin
11.05.2015

Tillaga í öryggisátt

Yfirborðsmerkingar og viðhald þeirra. Rannsókn slyssins leiddi í ljós að ökumenn sem þarna voru á ferð áttu í erfiðleikum með að átta sig á miðlínu vegarins. Bæði var skafrenningur og snjór á veginum ásamt því að málningin á miðlínu vegarins var orðin máð. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, var miðlínan síðast máluð fyrir slysið í júní 2013, eða um ½ ári áður. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við veghaldara að skoða með hvaða hætti hægt sé að minnka líkur á að ökumenn lendi í þeim aðstæðum að eiga í erfiðleikum með að greina miðlínu vegar.

Afgreiðsla

Í svari veghaldara kemur fram að á umræddum stað séu yfirborðsmerkingar endurnýjaðar á hverju ári. Þær verði fyrir mikilli áraun vegna m.a. umferðar og snjómoksturs en miðað við nútímatækni sé ekki mögulegt að endurnýja þær að vetrarlagi. Veghaldari hafi á undanförnum árum látið fræsa rifflur milli akstursátta á allmörgum stöðum og stefnt sé að slíkri útfærslu á fleiri stöðum eftir því sem aðstæður leyfa.

Kársnesbraut Urðarbraut 8.12.2014 (2)

Umferð
Nr. máls: 2014-015-U-015
Staða máls: Opin
21.08.2015

Tillaga í öryggisátt

Skólaakstur – ökumenn sjái um að skólabörn noti öryggisbelti.

Samkvæmt 71. gr. umferðarlaga skal hver sá sem situr í sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti nota beltið þegar bifreiðin er á ferð. Skal ökumaður sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað bifreiðar. Brýnt er að þessum reglum sé fylgt í öllum tilvikum. Öryggisbelti í bifreiðinni sem hér er fjallað um þarf að stilla sérstaklega fyrir hvern farþega. Ef vel á að vera þyrfti að ganga á hvert barn og athuga hvort beltið er spennt og hvort það er rétt stillt. Um skólaakstur er í gildi reglugerð um merki á skólabifreiðum nr. 279/1998 með áorðnum breytingum og reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Ekki er gerð krafa um fylgdarmann með ungum börnum í þessum reglum. Í 3. gr. fyrrnefndrar reglu er sveitastjórnum gert að setja sér reglur um fyrirkomulag skólaaksturs. Kópvogsbær upplýsti Rannsóknarnefnd samgönguslysa þann 17. mars s.l. um að reglur hefðu ekki verið settar í bænum um skólaakstur, en unnið sé að úrbótum þar á. Leggur nefndin til við Innanríkisráðuneytið og Menntamálaráðuneytið að reglur um skólaakstur verði teknar til endurskoðunar.

Afgreiðsla

Í bréfi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsett 9. nóvember 2015 kemur fram að í samráði við Innanríkisráðuneytið hefur verið boðað til endurskoðunar á reglum um skólaakstur. Að lokinni þeirri vinnu verði RNSA upplýst um viðbrögð vegna málsins.

Kársnesbraut Urðarbraut 8.12.2014

Umferð
Nr. máls: 2014-015-U-015
Staða máls: Opin
21.08.2015

Tillaga í öryggisátt

Í 11. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 með áorðnum breytingum, er fjallað um neyðardyr hópbifreiða. Um þær gildir m.a. að ef hægt er að hafa neyðardyr læstar utan frá skal alltaf vera auðvelt að opna þær innan frá. Enn fremur að ef neyðardyr sjást ekki auðveldlega úr sæti ökumanns skuli vera búnaður sem varar ökumann við ef dyrnar eru ekki tryggilega lokaðar. Viðvörunarbúnaðurinn skal stjórnast af læsingunni sjálfri en ekki af hreyfingu hurðarinnar. Í skoðunarhandbók ökutækja er ekki að finna dæmingu á þetta atriði. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við Samgöngustofu að bæta inn í skoðunarhandbók ökutækja dæmingu á ófullnægjandi útbúnaði neyðardyra hópbifreiða. Neyðarútgangur er ætlaður til að rýma ökutæki ef aðaldyr nýtast ekki sem slíkar eða rýming um þær verður ekki nógu hröð. Neyðarútgangur getur verið neyðardyr, neyðargluggi og neyðarlúga á þaki. Útgönguleiðum skal þannig fyrir komið að þær séu því sem næst jafnmargar á báðum hliðum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur eigendur hópbifreiða til að gæta að því sérstaklega hvort neyðardyrabúnaður bifreiða þeirra sé fullnægjandi.

Afgreiðsla

Biskupstungnabraut Alviðra

Umferð
Nr. máls: 2015-040-U-005
Staða máls: Lokuð
10.02.2016

Tillaga í öryggisátt

Skoðunarhandbók ökutækja

Við rannsókn á slysinu kom í ljós að hemladæla í afturhjóli var föst. Bifreiðin hafði verið tekin til aðalskoðunar þann 27. júní 2014 þar sem dæmt var á skoðunaratriði 876. Dæmt skal á útílegu þegar erfitt er að snúa hjóli með höndum en það bendir til stirðleika í hemlabúnaði. Samkvæmt skoðunarhandbók ökutækja skal dæma ökutæki til endurskoðunar ef erfitt er að snúa hjóli með höndum nema að þetta sé eina athugasemdin sem finnst við skoðun. Við rannsókn á bifreiðinni eftir slysið kom í ljós að hemladæla var föst í einu hjóli hennar. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa bendir útílega hemla til þess að bilun sé í hemlakerfi sem mikilvægt er að laga til að tryggja öryggi ökutækis í akstri. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við Samgöngustofu að taka út x-merkingu við skoðunaratriði 876 í skoðunarhandbók ökutækja.

Afgreiðsla

Í svarbréfi Samgöngustofu dagsett 31.3.2016 kemur fram að stofnunin mun taka x-merkingu við skoðunaratriði 876 út við næstu endurskoðun skoðunarhandbókar ökutækja. Áætluð útgáfa hennar er 1. september 2016.