Rifflur milli akstursátta

Rifflur milli akstursátta

Umferð
Nr. máls: 2016-054U011
Staða máls: Lokuð
Farðu í skýrslu 07.06.2018

Tillaga í öryggisátt

Veghaldari hefur látið fræsa rifflur á milli akstursátta í göngunum. Rifflur virka með þeim hætti að þær mynda hávaða/titring þegar ekið er yfir þær sem er ætlað að vara ökumann við því að bifreiðin sé að fara yfir miðlínu. Hávaði eða titringur sem berst til ökumanns eykst eftir því sem rifflurnar eru breiðari miðað við breidd hjólbarða. Rifflur þurfa því að vera nægilega breiðar og langar til að hámarkstitringur náist.

Margar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á áhrifum vegrifflna á umferðaröryggi og telur nefndin vegrifflur geta haft jákvæð áhrif á umferðaröryggi. Í skýrslu verkfræðistofunnar Hnit (Rifflur á vegum, 2007) kemur fram að útfærslur á rifflum eru mismunandi milli landa og eru skoðaðar fimm mismunandi útfærslur. Í þessum útfærslum sem skoðaðar voru var breidd þeirra á bilinu 20–50 cm.

Rifflur í göngunum eru 10 cm breiðar þvert á akstursstefnu og að mati nefndarinnar er breidd þeirra ekki nægileg til að rifflurnar skili tilætluðum áhrifum.

Nefndin beinir því til veghaldara að skoða möguleika á breiðari rifflum milli akstursátta í göngunum eða öðrum ráðstöfunum sem skila sambærilegum áhrifum.

Afgreiðsla

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur borist svar til tillögunni sem beint var að Vegagerðinni þann 7. júní 2018.

Vegagerðin svaraði tillögum nefendarinnar með bréfi sem dagsett er 17. október 2018.

Í svari Vegagerðarinnar kemur m.a. fram að rifflur í Hvalfjarðargöngunum hafi verið breikkaðar í 20 cm að beiðni Vegagerðarinnar.