Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016

Suðurlandsvegur við Gatnabrún 20.6.2016

Umferð
Nr. máls: 2016-056U012
Staða máls: Opin
Farðu í skýrslu 20.11.2017

Tillaga í öryggisátt

Viðgerðir og viðhald þungra ökutækja

Bíltækniskoðanir ökutækja sem eru þyngri en 3,5 tonn sem RNSA hefur undir höndum, bera þess skýr merki að viðhald, þá sérstaklega á hemlum eftirvagna, sé oft ábótavant. Í október 2007 var farið í sérstakt umferðareftirlit með vörubifreiðum og niðurstöður úr því eftirliti voru að af 10 festi- og tengivögnum voru einungis tveir í fullkomnu lagi, sjö fengu endurskoðun og tveir lagfæringu.
Ummerki voru á vagninum um að reynt hafi verið að gera við hemlana en viðgerðin var ófullnægjandi. Vagninn hafði ekki verið færður til endurskoðunar áður en hann var nýttur til flutnings á þessum þunga farmi. Í 17. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009 með síðari breytingum kemur fram að hafi verið gerð athugasemd í skoðun skal haga notkun þess í samræmi við niðurstöður skoðunar. Nefndin hvetur eigendur þungra ökutækja til að skoða og bæta verklag hjá sér varðandi eftirlit og viðhald ökutækja sinna og sjá til þess að ástand þeirra sé gott til að fyrirbyggja slys og óhöpp.
Nefndin ítrekar tillögu þess efnis að fjölga skuli lögbundnum skoðunum þungra ökutækja, auka vegaeftirlit og taka til skoðunar hvort rétt sé að gera þá kröfu að viðhald öryggisbúnaðar þungra ökutækja sé einungis í höndum fagaðila. Beinir nefndin þessum tillögum til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.

Afgreiðsla

Í bréfi dags. 16. maí 2018 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kemur fram að ráðuneytið hafi leitað umsagnar Samgöngustofu á hvort fjölga skuli lögbundnum skoðunum þungra ökutækja umfram það sem þegar er áskilið. Samgöngustofa metur það svo að ekki sé nauðsynlegt að fjölga skoðunum en bendir á 59. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem fjallar um ábyrgð eiganda ökutækis á lögmætu ástandi þess. Ráðuneytið féllst á sjónarmið Samgöngustofu.

Í umsögn Samgöngustofu og í sameiginlegri umsögn lögreglustjóranna á Norðurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi um tillöguna er undir það tekið að auka vegeftirlit. Ráðuneytið bendir á að ábyrgð á vegaeftirliti færist til dómsmálaráðuneytisins með frumvarpi til nýrra umferðarlaga.