Ábendingar Síða 2

Leita að ábendingar

Suðurlandsvegur Hunkubakkar (1)

Umferð
Nr. máls: 2017-186U021
15.09.2019

Hópslysaáætlanir

Fyrsti viðbragðsaðili sem kom á vettvang hóf strax að framkvæma bráðaflokkun slasaðra í samræmi við áætlanir um hópslys og kom þeim skilaboðum áleiðis að umfang slyssins væri mikið, margir væru slasaðir og, sökum staðsetningar, langt í bjargir. Hópslysaáætlun var virkjuð og unnið var samkvæmt henni við skipulagningu björgunarstarfanna. Þegar bjargir eru takmarkaðar eins og var í upphafi aðgerða er afar mikilvægt að nýta þær sem best og draga að þær bjargir sem upp á vantar á sem skemmstum tíma. Verkefnið var vandasamt en greiðlega gekk að takast á við flest þau vandamál, sem uppi voru. Að mati RNSA skipti það sköpum hversu vel gekk að koma slösuðum einstaklingum í viðeigandi ferli að unnið var eftir hópslysaáætlun sem búið var að æfa.

Tengill á skýrslu Skýrsla

Dráttur ökutækja

Umferð
Nr. máls: 2017-161U014
04.06.2019

Fjallað er um drátt ökutækja í reglum um tengingu og drátt ökutækja nr. 394/1992. Þar kemur m.a. fram að ekki megi draga ökutæki á meiri hraða en 30 km/klst þegar dregið er með taug. 

Það að draga ökutæki með taug í umferð er vandasamt verkefni og felur í sér frávik frá öðrum drætti vegna þess að tenging með taug á milli ökutækjanna flytur ekki hemlakraft eða stefnubreytingu á milli þeirra. Ökumaður ökutækis sem dregið er þarf því að bregðast tímanlega og rétt við aðgerðum ökumanns sem dregur.

Þetta samspil milli ökumanna gerir það að verkum að viðbrögð við hættum eru erfiðari og þau geta orðið hægari. Þá getur verið erfitt fyrir aðra vegfarendur að átta sig á hvenær ökutæki eru í drætti á taug þar sem engin sérstök viðvörunarljós eða annað er til þess að gefa slíkt til kynna.

Nefndin ræður ökumönnum frá því að draga önnur ökutæki á taug nema nauðsyn krefji og þá eingöngu stuttar vegalengdir. Þá leggur nefndin áherslu á að ökumenn kynni sér og fylgi reglum um tengingu og drátt ökutækja nr. 394/1992 enda setja reglurnar mikilvægar skorður til þess að stuðla að umferðaröryggi, svo sem takmörkun á hámarkshraða við 30 km/klst.

Skýrsla

Ölvunar- og fíkniefnaakstur

Umferð
Nr. máls: 2017-172U018
03.06.2019

Undanfarin ár hefur ölvunar- og fíkniefnaakstur verið algeng orsök banaslysa í umferðinni. Eins og alþekkt er hafa vímuefni áhrif á dómgreind neytenda og skynjun umhverfis. Áfengismagn í blóði þarf ekki að vera mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun eykst, lengist viðbragðstími og hreyfistjórnun og rökvísi skerðast.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um akstur undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis og eða fíkniefna.

Skýrsla

Eftirlit með óskoðuðum ökutækjum

Umferð
Nr. máls: 2017-172U018
03.06.2019

Að mati nefndarinnar er afar mikilvægt að tryggja að ökutæki í umferð séu í góðu ásigkomulagi. Reglulega berast fréttir frá lögreglu um að hún hafi fjarlægt númeraplötur af ökutækjum sem hafa ekki verið færð til skoðunar á réttum tíma eða eru með tryggingariðgjöld í vanskilum. Nefndin brýnir fyrir lögreglu að fylgja þessu verkefni eftir af festu.

Skýrsla

Notkun öryggisbelta

Umferð
Nr. máls: 2017-172U018
03.06.2019

Ökumaðurinn sem lést, var ekki spenntur í öryggisbelti og kastaðist hann út úr bifreiðinni. Nefndin telur sennilegt að ökumaðurinn hefði lifað af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein helsta orsök banaslysa í umferðinni.

Skýrsla

Suðurlandsvegur Hunkubakkar

Umferð
Nr. máls: 2017-186U021
15.04.2019

Mikilvægi öryggisbelta

Við rannsókn þessa slyss kom vel í ljós hversu mikilvægt öryggistæki öryggisbelti eru. Þó svo að hraði bifreiðarinnar hafi verið um 100 km/klst rétt fyrir slysið var hraðinn kominn mikið niður þegar hún valt á hliðina. Meirihluti farþega voru með öryggisbeltið spennt, flestir þeirra hlutu lítil meiðsl. Nokkrir þeirra sem ekki voru spenntir í öryggisbelti köstuðust út og hlutu mikla áverka, tveir létust. 

Í 4. gr. reglugerðar um notkun öryggis- og varnarbúnaðar í ökutækjum nr. 348/2007 kemur fram að farþegar hópbifreiða skulu fá upplýsingar um skyldu til að nota öryggisbelti. Skv. leiðsögumanni voru farþegar áminntir um að spenna öryggisbelti í ferðinni.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um mikilvægi öryggisbelta. Allt of algengt er að einstaklingar hljóti mjög alvarlega áverka sem hefði mátt fyrirbyggja með því að viðkomandi hefði verið með öryggisbeltið spennt.

Tengill á skýrslu Skýrsla

Hvítársíðuvegur

Umferð
Nr. máls: 2015-058U008
17.03.2017

Akstur bifhjóla með farþega og farangur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á, að akstur bifhjóla með farþega og farangur getur verið vandasamur. Erfiðara er fyrir ökumann að bregðast við, því bæði farþegi og farangur breyta þyngdardreifingu á milli fram og afturöxuls og þyngja hjólið. Af þeim sökum breytast aksturseiginleikar sem ökumaður verður að vera vel meðvitaður um og kunna að bregðast við. Mikilvægt er að farþeginn þekki til aksturs bifhjóla og ökumaður upplýsi farþega ef bregðast þarf við t.d. ójöfnum á vegi.  

Skýrsla

Stöðugleikabúnaður

Umferð
Nr. máls: 2015-058-U-008
01.09.2016

Útnesvegur Hellissandur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar tillögu sem birtist í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Suðurlandsvegi í Eldhrauni 23. apríl 2012 um stöðugleikabúnað. Allmargar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi slíks búnaðar sem benda til að öryggisávinningur hans sé verulegur. Stöðugleikabúnaður vinnur þannig að þegar bifreið fer að skríða til á vegi þá grípur hann sjálfvirkt inn í með því að hemla á því hjóli/hjólum sem geta afstýrt því að ökutækið haldi áfram að skrika til og verði stjórnlaust. Búnaðurinn vinnur án þess að ökumaðurinn þurfi að bregðast sérstaklega við og benda rannsóknir til að hann minnki umtalsvert líkurnar á að ökumaðurinn missi stjórn á bifreiðinni og að banaslysum vegna útafaksturs og veltna megi fækka um 30 til 64% með stöðugleikabúnaði[1].

 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur bílaleigur og aðra kaupendur nýrra bifreiða til að velja þennan búnað við kaup á bifreiðum.

 

[1] Erke, A. (2008). „Effects of electronic stability control (ESC) on accidents: A review of empirical evidence.“ Accident Analysis and Prevention, vol. 40, nr. 1, bls 197 – 173.

Ferguson, S.A. (2007). „The effectiveness of Electronic Stability Control in reducing real-world crashes: A litterature review.“ Traffic Injury Prevention, vol. 8, nr. 4, bls. 329 – 338.

Skýrsla

Reynsluleysi og röng viðbrögð

Umferð
Nr. máls: 2015-040-U-008
01.09.2016

Útnesvegur Hellissandur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa  rannsakar reglulega alvarleg umferðarslys þar sem ökumaður bregst ranglega við þegar hann missir hjólin út af slitlagi. Hætta er á að hann missi endanlega stjórn á bifreiðinni þegar sveigt er inn á veginn aftur eins og raunin varð í þessu slysi. Mikilvægt er að bregðast rólega við og sveigja hægt inn á veginn aftur sé það hægt. Hættulegt getur verið að beita hemlum og stundum getur verið betri kostur að stýra bifreiðinni út af veginum og eftir fremsta megni komast hjá því að bifreiðin velti.

Skýrsla

Framúrakstur

Umferð
Nr. máls: 2014-U012
16.02.2016

Hafnarvegur við Stekkakeldu

Ef slys verður við framúrakstur á þjóðvegahraða þá eru miklar líkur á að afleiðingarnar verði alvarlegar. Reglulega verða slys við framúrakstur og hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakað nokkur þeirra. Nefndin bendir á, að mikilvægt er að hafa fulla aðgát við framúrakstur og nauðsynlegt er að velja stað og stund þannig að unnt sé án hættu að taka framúr öðru ökutæki.

Skýrsla