Eldri skýrslur - RNU Skýrslur gefnar út af Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU)

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Nýbýlavegur

Slysið varð á Nýbýlavegi rétt fyrir 9.00 að morgni og var skyggni slæmt, myrkur og rigning. Eldri kona gekk út á götuna í veg fyrir fólksbifreið á vesturleið og síðan í veg fyrir strætisvagn sem ekið var austur Nýbýlaveg. Konan varð fyrir hægra framhorni strætisvagns og lést vegna höfuðáverka sem hún hlaut í slysinu. Konan var dökkklædd og notaði ekki endurskinsmerki. RNU telur að gera þurfi úrbætur á Nýbýlavegi með öryggi gangandi vegfarenda að leiðarljósi. Að mati RNU er mikilvægt að auka notkun vegfarenda á endurskinsmerkjum og vekja skilning þeirra á mikilvægi endurskinsmerkja.

Skýrsla 07.12.2012
Umferðarsvið

Sæbraut við Aktu Taktu

Fólksbifreið var ekið á karlmann sem gekk yfir Sæbraut að morgni til í myrkri og rigningu. Hann var fluttur mikið slasaður á bráðadeild Landspítala og lést vegna afleiðinga slyssins rúmum þremur vikum síðar. Ökumaður fólksbifreiðarinnar varð mannsins ekki var fyrr en rétt áður en hann lenti á bifreiðinni. Maðurinn var klæddur dökkum fatnaði sem var án endurskinsmerkja.

Skýrsla 22.11.2012
Umferðarsvið

Djúpvegur Steingrímsfjarðarheiði

Slysið varð á Djúpvegi á austanverðri Steingrímsfjarðarheiði. Ökumaður fólksbifreiðar ók veginn áleiðis til Hólmavíkur. Hann ók of hratt í beygju á veginum og missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði útaf. Fór bifreiðin í loftköstum yfir lækjarræsi og framan á klöpp. Ákeyrslan á klöppina var mjög hörð og lést ökumaðurinn samstundis. Tveir farþegar í bifreiðinni hlutu lífshættulega áverka.

Skýrsla 29.07.2012
Umferðarsvið

Norðurlandsvegur Vatnsskarð

Ökumaður sem ók norður Norðurlandsveg missti stjórn á bifreið sinni vestan við bæinn Vatnshlíð með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum, niður brattan vegfláa og lenti harkalega á lækjarbakka. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, lést í slysinu. Hann var ekki spenntur í öryggisbelti og undir miklum áhrifum slævandi lyfs sem sennilega skýrir orsök og afleiðingar slyssins.

Skýrsla 14.07.2012
Umferðarsvið

Ólafsfjarðarvegur við Hörgá

Ökumaður fólksbifreiðar ók Ólafsfjarðarveg til norðurs áleiðis til Dalvíkur rétt fyrir miðnætti. Samkvæmt vitnum var bifreiðinni ekið á miklum hraða norður veginn og er sennilegast að ökumaður hafi misst stjórn á henni í hægri beygju. Valt bifreiðin utan vegar. Ökumaður notaði ekki bílbelti og kastaðist út úr bifreiðinni. Áréttar rannsóknarnefndin fyrri ábendingar um mikilvægi bílbelta og hættur af ofsakstri.

Skýrsla 30.05.2012
Umferðarsvið

Mófellsstaðavegur

Ökumaður ók fólksbifreið yfir blindhæð á malarvegi. Efst á blindhæðinni voru stórar holur í veginum og missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni, sem rann út af veginum og valt. Ökumaðurinn lést af völdum áverka sem hann hlaut í slysinu og farþegi sem sat í framsæti slasaðist. Ökumaðurinn átti við veikindi að stríða og var undir áhrifum slævandi lyfja þegar slysið átti sér stað og var af þeim sökum í óökuhæfu ástandi.

Skýrsla 19.05.2012
Umferðarsvið

Suðurlandsvegur Eldhraun

Erlendur ferðamaður ók bílaleigubíl frá Vík í Mýrdal austur Suðurlandsveg. Tveir farþegar voru í bifreiðinni. Rúmum 40 kílómetrum austur af Vík missti ökumaðurinn bifreiðina út á vegöxlina þegar hann teygði sig eftir snakki frá farþega í framsæti. Við það missti hann stjórn á bifreiðinni sem fór útaf veginum og valt. Farþegi sem sat í aftursæti bifreiðarinnar var ekki spenntur í öryggisbelti. Kastaðist hann út úr bifreiðinni og
lést samstundis.

Skýrsla 23.04.2012
Umferðarsvið

Ólafsfjarðarvegur við Krossa

Sendibifreið var ekið suður Ólafsfjarðarveg áleiðis til Akureyrar. Veður var mjög hvasst, suðvestan stormur og Skammt frá bænum Krossar fékk bifreiðin á sig vindhviðu sem feykti henni til á veginum og við það missti ökumaður stjórn á henni. Hafnaði bifreiðin framan á vörubifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Ökumaður sendibifreiðarinnar dó í slysinu. Það er mat RNU að auka þurfi þurfi fræðslu í ökunámi og í áróðri til almennings um áhrif færðar, vinds og vindhviða á stöðugleika ökutækja. Þá þarf að kynna betur þær rauntímaupplýsingar sem til eru á Vegasjá Vegagerðarinnar um færð og veður á helstu leiðum.

Skýrsla 26.03.2012
Umferðarsvið

Þjóðvegur 1 Hrútafjarðarhálsi

Ökumaður fólksbifreiðar ók suðurvestur þjóðveg 1 á Hrútafjarðarhálsi. Hann missti stjórn á bifreiðinni í beygju vegna hraðaksturs. Bifreiðin valt á veginum og hafnaði út af vinstra megin miðað við akstursstefnu. Ökumaður notaði ekki bílbelti og var í óökuhæfu ástandi sökum neyslu vímuefna. Kastaðist hann út úr bifreiðinni sem valt síðan yfir hann.

Skýrsla 23.03.2012
Umferðarsvið

Langeyrarvegur

Slysið varð að kvöldlagi á Siglufirði. Atvik voru þau að hópbifreið, með ungmennum, var ekið til Siglufjarðar eftir heimsókn til Ólafsfjarðar. Ökumaður hópbifreiðarinnar hafði stöðvað bifreiðina til að hleypa nokkrum ungmennum út. Þrjár 13 ára stúlkur voru meðal þeirra og fóru þær aftur fyrir hópbifreiðina og yfir götuna. Fólksbifreið sem ekið var á nokkurri ferð suður Langeyrarveg ók á stúlkurnar. Við ákeyrsluna lést ein stúlknanna vegna fjöláverka sem hún hlaut. Önnur stúlka slasaðist alvarlega í ákeyrslunni en sú þriðja minna.

Skýrsla 16.11.2011
Umferðarsvið