Eldri skýrslur - RNU Síða 2

Nýlegar slysa- og atvikaskýrslur:

Seljabraut móts við nr. 54

Slysið varð með þeim hætti að ökumaður strætisvagns var að aka frá biðstöð strætisvagna á Seljabraut þegar eldri karlmaður kom hlaupandi að vagninum. Hann reyndi að vekja á sér athygli með því að berja í hlið vagnsins. Vagnstjórinn varð mannsins ekki var og ók af stað eftir að hafa hleypt farþegum út. Maðurinn féll í götuna og varð fótleggur hans undir afturhjólbarða strætisvagnsins. Að mati RNU sýndi vegfarandinn, sem lést, af sér óvarkárni er hann reyndi að stöðva strætisvagninn. Varar nefndin við þeirri hættu sem af hlýst þegar vegfarendur reyna að stöðva strætisvagna sem ekið hefur verið af stað.

Skýrsla 13.04.2011
Umferðarsvið

Langidalur á Möðrudalsöræfum

Ökumaður fólksbifreiðar ók austur þjóðveg 1 í Langadal á Möðrudalsöræfum. Tveir ungir menn voru í bifreiðinni. Af ummerkjum á vettvangi að dæma missti ökumaður stjórn á bifreiðinni til hægri út í malaröxl. Ökumaður reyndi að beygja bifreiðinni til vinstri upp á veginn aftur en við það valt hún og hafnaði utan vegar. Að mati RNU voru þrír meginþættir sem ollu slysinu. 1) Ökumaður var undir áhrifum áfengis, þreyttur og hefur sennilega sofnað við aksturinn. 2) Ökumaður ók of hratt í beygju 3) Ökumaður brást ekki rétt við útafakstrinum þegar hann stýrði bifreiðinni of snöggt til vinstri. Rannsóknarnefnd umferðarslysa beinir því til Ökukennarafélags Íslands að skýrsla þessi verði notuð, sem hluti af kennsluefni, til þess að varna því að aðrir ökumenn geri sambærileg mistök.

Skýrsla 10.04.2011
Umferðarsvið

Eyjafjarðarbraut

Fólksbifreið var ekið á karlmann sem skokkaði í vinstri vegkanti norður Eyjafjarðarbraut síðdegis 20. janúar 2011 móti akstursstefnu ökutækja. Fólksbifreiðinni var ekið norður brautina. Henni var ekið yfir á rangan vegarhelming. Karlmaðurinn sem ekið var á lést við áreksturinn. Orsakir slyssins voru raktar til þess að ökumaðurinn fór yfir á rangan vegarhelming, sennilega vegna þess að hann sofnaði við aksturinn.

Skýrsla 20.01.2011
Umferðarsvið